Mögulegar málamiðlanir

Þorsteinn Pálsson

Stundum er sagt að pólitík sé list hins mögulega.

Hversu langt geta menn við stjórnarmyndanir vikið frá því sem þeir sögðu kjósendum án þess að missa trúnað þeirra? Listin er að finna þau mörk.

Athyglisverð skoðanakönnun

Í síðasta mánuði var birt skoðanakönnun, sem sýndi að 88 prósent stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins vilja að núverandi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sitji áfram eftir kosningar. Aftur á móti eru aðeins 29 prósent stuðningsmanna VG á þeirri skoðun.

Spurningin er: Takmarka þessar vísbendingar eða rýmka möguleika til málamiðlana eftir kosningar?

Niðurstöðurnar einar og sér benda til þess að kjósendur VG telji að nóg sé komið af samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. En þegar litið er til fleiri þátta gætu þær alveg eins styrkt samningsstöðu VG gagnvart núverandi samstarfsflokkum.

Raunsætt mat

Könnunin virðist sýna mjög raunsætt mat stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa talað mjög skýrt í þá veru að þeir muni ekki undir neinum kringumstæðum fallast á málamiðlanir gagnvart Viðreisn að því er varðar gjaldmiðilsmál, tímabundinn nýtingarrétt auðlinda í þjóðareign og ný skref í Evrópusamvinnu.

Píratar og Samfylking hafa síðan alfarið hafnað samstarfi við Miðflokk og Sjálfstæðisflokk vegna málefnalegrar fjarlægðar.

Þetta þýðir að Sjálfstæðisflokkurinn á engan raunhæfan kost á setu í ríkisstjórn nema VG eigi þar hlut að máli og fari með forystu. Eftir síðustu kosningar var það frjálst val, en nú er það þvinguð staða.

Sérstök staða

Fyrir vikið er Katrín Jakobsdóttir í þeirri merkilegu aðstöðu að geta þrýst Sjálfstæðismönnum til málefnalegrar eftirgjafar, hugsanlega um aukin útgjöld. Það styrkir hana að geta bent þeim á að kjósendur VG kalli eftir því að hún snúi sér annað.

Sjálfstæðisflokkurinn verður þá að meta hvort rétt sé að fórna málefnum eða fórna ríkisstjórnarsetu. Stærsti hluti fylgjenda hans virðist kjósa fórnir gangvart VG.

Að sumu leyti yrði erfiðara fyrir Katrínu Jakobsdóttur að semja frá miðju til vinstri. Væntanlega mun hún kjósa að hafa Framsókn með á hvort borðið sem hún vill róa. Það er málefnalega vandræðalaust.

Reykjavíkurmynstrið sýnist ekki ganga upp á Alþingi. Málið vandast nefnilega þegar kemur að Pírötum.

Eftir að Andrés Jónsson gerðist þingmaður þeirra geta þeir tæpast átt aðild að ríkisstjórn, sem tekur pólitíska og stjórnskipulega ábyrgð á aðild að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningnum. VG þekkir vel að það er forsenda fyrir setu við ríkisstjórnarborðið.

Erfitt að kúvenda aftur

Samfylking og Viðreisn eru með sams konar markmið í nokkrum veigamiklum málum. Þar má nefna tímabundna nýtingu náttúruauðlinda í þjóðareign, gjaldmiðilsmál og Evrópumál. Allt veigamikil mál sem snúa bæði að réttlæti, samkeppnisstöðu þjóðarbúsins og verðmætasköpun.

Áður en VG gekk til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn studdi VG tímabundinn nýtingarrétt. Í Evrópumálum lagði Katrín Jakobsdóttir til að þjóðin sjálf fengi að taka ákvörðun í þjóðaratkvæði. Að þessu leyti ætti samstarf þessara flokka að vera mögulegt.

En vandinn er að í núverandi samstarfi gekk forsætisráðherra fram fyrir skjöldu í andstöðu við allar breytingar af þessu tagi. Sjálfstæðisflokkurinn réði ferðinni en gat haldið sig til hlés meðan forsætisráðherra sá um vörnina.

Í þessu ljósi gæti kúvending til fyrri stefnu orðið erfið fyrir forsætisráðherra þó að skoðanakönnunin sé vísbending um að kjósendur VG teldu sig ekki hlunnfarna ef sú yrði raunin.

Miðjan eða jaðrarnir

Veruleikinn er sá að VG er í þeirri einstöku stöðu að geta notað niðurstöðu í skoðanakönnun eins og þessari sem málefnalega fótfestu til að fara í hvora áttina sem er.

Forsætisráðherra gat tekið stjórnarskrárfrumvarp sitt út úr þingnefnd með stuðningi stjórnarandstöðunnar í vor. Hún kaus hins vegar að ganga ekki gegn Sjálfstæðisflokknum.

Með því að fórna stjórnarskrármálinu hélt hún báðum stjórnarmyndunarmöguleikunum opnum. Katrín Jakobsdóttir virðist því vera reiðubúin til að láta reyna á þá fordæmalausu samningsstöðu að hafa Sjálfstæðisflokkinn í blindgötu eftir kosningar.

Flokkarnir sem liggja næst miðjunni, Framsókn, Samfylking og Viðreisn, eru ólíkir um margt. En það sem helst gæti brotið þessa lykilstöðu VG upp er að miðjan styrkist á kostnað jaðranna.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 5. ágúst 2021