Ræða formanns á landsþingi Viðreisnar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar

Kæru vinir í Viðreisn. Góðir landsmenn.

Við þekkjum mörg þá tilfinningu og hughrif sem geta skapast við að setjast niður við fuglabjarg að sumri til. Ólýsanleg fegurð náttúrunnar og fuglar í þúsundatali að leita að fæðu, verpa eða koma upp ungum.

Bjargið er samfélag ólíkra tegunda þar sem allt snýst um lífsafkomu og öryggi. Og eins og við vitum getur hávaðinn verið mikill og jafnvel óþægilegur og erfitt að greina á milli fuglahljóða. Kannski má líkja þessu við þá stemmningu sem verður í samfélaginu næstu fjórar vikurnar. Ólíkir flokkar og margir frambjóðendur að tala hátt og mikið – mest um lífsafkomu og öryggi. Í fuglabjarginu finnst okkur kannski ekki skipta öllu máli þótt við þekkjum ekki hljóð allra tegundanna en í kosningabaráttunni sem fram undan er, skiptir öllu máli að geta greint á milli þeirra sem hæst hafa- og þeirra sem hafa eitthvað raunverulegt fram að færa.

Og eitt get ég fullyrt, okkar rödd mun heyrast hátt og skýrt, í gegnum niðinn, í öllum kjördæmum næstu vikurnar. Við eigum nefnilega rödd sem er ólík öðrum. Við erum sér á báti á hinum pólitíska ás. Tölum óhrædd fyrir frjálsum markaði og sterku efnahagskerfi í opnu, alþjóðlegu samfélagi. Leggjum okkur einnig fram við að tryggja að kerfin okkar séu einföld, sanngjörn og grípi fólkið okkar í sterkt og þéttofið velferðarnet, ef á móti blæs.

Við trúum á samfélag þar sem ríkir réttlæti og jafnvægi milli frelsis einstaklinga og þeirrar samkenndar sem þarf til að búa til gott samfélag.

Frelsi með ábyrgð.

Í okkar huga snýst þetta ekkert endilega um vinstri eða hægri. Miklu frekar um sanngirni og tækifæri. Við ætlum ekki að vera rödd sundrungar, heldur rödd samstillts samfélags. Því við trúum því, af fullri einlægni að saman gerum við samfélagið okkar betra.

Kæru vinir,

Síðustu daga hef ég hugsað mikið um flokkinn okkar og horft til baka. Full af þakklæti. Og það sem þessi flokkur okkar hefur áorkað er ekkert lítið. Við vorum sjálfum okkur samkvæm allt kjörtímabilið sem nú er að klárast. Við þorðum að brjótast út úr hefðbundnu mynstri stjórnarandstöðu og vorum ekki bara á móti til að vera á móti. Við náðum mikilvægum málum í gegn, í minnihluta, sem munu vonandi setja mark sitt á samfélagið okkar um ókomna tíð. Ég get nefnt…

…. Aukið aðgengi að geðheilbrigðis – sálfræðiþjónustu. Eitt mikilvægasta mál samtímans sem íhaldsflokkarnir neita nú að fjármagna þrátt fyrir samþykkt þess!

…. Nýja skilgreiningu á nauðgun í hegningarlögum sem nú er orðin að fyrirmynd víða á Norðurlöndum og í Evrópu.

… Ég get nefnt skýrslubeiðni okkar um þá óskiljanlegu og ómannúðlegu ákvörðun ríkisstjórnarinnar um breytingar á fyrirkomulagi skimunar fyrir leghálskrabbameini.

… Og svo frumvörp okkar um að tímabinda samninga og markaðsverð á makríl, um dreifða eignaraðild, aukið gegnsæi og skráningu sjávarútvegsfyrirtækja á hlutabréfamarkaði sem við höfum lagt fram, aftur og aftur.

… Afnám samkeppnishindrana í mjólkuriðnaði – málið komst ekki einu sinni til umræðu í nefndum. Svo mikil er andstaða íhaldsflokkanna við heilbrigt samkeppnisumhverfi.

… og svo voru það frjálslyndismálin.. eins og afglapavæðingin, mannanöfnin eða að við hættum að senda fólkið okkar til Svíþjóðar í liðskiptaðgerðir fyrir þrefalt hærra verð en það myndi kosta að gera samninga við einkastofur hér heima,

… Og eigum við að tala um auðlindaákvæði í stjórnarskrá? Það mál forsætisráðherra var klúður. Sorglegt klúður. En forgangsröðun ríkisstjórnar er fyrir vikið afar skýr. Ekki skal hrófla við útgerðinni.

… Og svo báðum við skýrslu um sjávarútveginn og áherslu á gegnsæi og eignarhald fyrirtækjanna í annarri ótengdri starfsemi. Og já, við fengum skýrslu í vikunni, hún var bara um eitthvað allt annað en beðið var um og var skrítnari en kosningaloforð Miðflokksins.

Grínlaust þá er þetta skandall. Ég óska eindregið eftir því  að skýrslan verði unnin upp á nýtt– og þá dugar ekki fyrir ríkistjórnina að skýla sér á bak við Persónuvernd svo hægt sé  að sitja áfram á upplýsingum fram yfir kosningar. Svo sem ekki í fyrsta sinn hjá stjórnarflokkunum. En allt þetta er enn ein birtingarmynd þess af hverju við þurfum að skipta um ríkisstjórn.

Kæru vinir, eins og þið heyrið höfum við svo sannarlega barist fyrir málunum okkar á kjörtímabilinu. Og reynt að rjúfa þá stöðnun sem kyrrstöðuflokkarnir þrír sömdu um sín á milli að skyldi verða þeirra leiðarstef í fjögur ár. Þar sem íhaldið er límið og hugsjónir víkja fyrir valdastólum. Ég skal nefna dæmi.

Hvar er hugsjón Sjálfstæðisflokksins um einkarekstur í heilbrigðiskerfinu? Hún er læst ofan í skrifborðsskúffu Svandísar Svavarsdóttur

Hvar er hugsjón VG um loftslagsmálin? Hún er læst inn í skúr hjá Sjálfstæðisflokknum. Hvar er fallega hugsjón VG um manneskjulegri innflytjendamál? Hún er í gíslingu hjá þingmönnum og ráðherra Sjálfstæðisflokksins.

Hvar er síðan Framsóknarflokkurinn sem vill nú kenna sig við miðjuna þegar ægivald jaðranna í ríkisstjórn hefur ráðið öllu.. Svona flokkur er ekki hugsjónaflokkur heldur valdaflokkur. Fyrst og fremst.

Báknið burt er síðan orðið að sagnfræði stjórnarflokkanna. Við þekkjum hinsvegar öll ranghala kerfisins. Það á ekki að vera flókið að grípa hugmyndir og tækifæri á Íslandi. Þetta er heimatilbúið vandamál sem er á ábyrgð stjórnarflokkanna.

Engin tilraun er heldur gerð til að ná tökum á útþenslu ríkissjóðs. Hugmyndir um einfaldara kerfi og auðveldara líf hafa allir stjórnarflokkarnir lagt á hilluna. Á meðan þurfa Íslendingar að sætta sig við 269 opinbera gjalddaga meðan að Svíþjóð er með 12, svo dæmi séu nefnd. Opinberum störfum hefur fjölgað um 8000 á líftíma þessarar ríkisstjórnar eða um 2000 á ári. Það er ekki endilega vont ef þjónustan batnar og lífsgæði aukast.

Við upplifum þess í stað biðlista á biðlista ofan eftir talmeinafræðingum, sálfræðingum, sjúkraþjálfurum, sérfræðilæknum. Á þessu ber heilbrigðisráðherra reyndar ekki einn ábyrgð. Við höfum fjármálaráðherra sem hefur verið meira og minna í átta ár í því embætti. Án þess að gera minnstu tilraun til að breyta kerfinu í átt að aukinni þjónustu og hagkvæmni. Ekki einu sinni átt samtalið við heilbrigðisráðherra sem í þrjú ár kom jú úr hans eigin flokki. Það er því ódýrt, á síðustu metrum fyrir kosningar, að kasta allri ábyrgð á heilbrigðisstarfsfólk, Landspítalann eða samráðherra á þeirri stöðu sem nú er upp í heilbrigðiskerfinu.

Kæru vinir

Ég velti því stundum fyrir mér þegar rætt er um Evrópumálin hér á Íslandi og mögulega aðild að Evrópusambandinu hvernig standi á því að ríkisstjórnarflokkarnir hrökkva alltaf í baklás og fari með möntruna um að málið sé ekki á dagskrá? Nú er það ekki svo að lyklavöld að ráðuneytum geri menn að dagskrárstjórum í samfélagsumræðunni, það er auðvitað hugsanavilla í lýðræðissamfélagi. En það er einmitt þessi hugsanavilla sem er svo hættuleg. Að vilja ekki ræða erfið mál og útkljá með lýðræðislegum hætti. Hvernig klára siðaðar þjóðir sín deilumál, jú með samningum eða kosningu. Og hvernig leggjum við til að þetta deiluefni sé leyst? Að það hefjist með þjóðaratkvæði, síðan er samið í vönduðu, skilgreindu ferli og svo er önnur þjóðaratkvæðagreiðsla um samninginn.

Þjóðin kýs tvisvar í þessu ferli. Slík lýðræðisveisla er stjórnarflokkunum hins vegar ekki að skapi.

Í stað þess að hefja þessa vegferð og leyfa almenningi að ráða för, pakka einangrunarsinnarnir í vörn og þylja einhverja dómsdagsspá um spænska togara og endalok fullveldisins – sem margoft er búið að hrekja, – sjálfir með með krónuna eins og myllustein um hálsinn. Og ég skal vera alveg skýr, ef svo ólíklega vildi til að samningurinn við ESB yrði fjandsamlegur íslenskum hagsmunum og auðlindir okkar í hættu, þá yrði Viðreisn fyrsti flokkurinn til að hafna slíkum samningi. Við viljum nefnilega ekki semja samningsins vegna, heldur til að bæta lífskjör á Íslandi.

Hvað efnahagsmálin varðar þá gerum við okkur grein fyrir því að ríkisfjármálin verða erfiðasta úrlausnarefni næstu ríkisstjórnar. Öll loforð í kosningabaráttunni velta á því hvernig við tökum á þessum málum.

Það er búið að skuldsetja ríkissjóð gríðarlega síðastliðin ár. Erlend lán hafa verið tekin með tilheyrandi gengióvissu og vaxtakostnaði. Við vitum hver borgar þann kostnað. Heimilin og fyrirtækin í landinu okkar.

Og gleymum því ekki að ríkissjóður var orðinn ósjálfbær löngu áður en COVID-19 kom til sögunnar. Vaxtahækkanir draga síðan úr einkaneyslu og fjárfestingu í atvinnulífinu.

Það verkefni sem nú blasir við fái Viðreisn að ráða er að auka viðspyrnu í atvinnulífinu, veita nýsköpun það svigrúm sem hún þarf á að halda og tryggja fjárhagslegt öryggi fólks. Það ætlum við að gera með því að leita allra leiða til að koma hér á gengisstöðugleika. Sem fyrst.

Tökum smá raunveruleikatékk. Kostnaður krónunar fyrir samfélagið er vel yfir 100 milljarðar á ári. Frá aldamótum hafa laun hækkað þrefalt á við Norðurlönd, verðbólga hins vegar fjórfaldast og vextir fimmfaldast. Að gengisflökt krónunnar sé einhvers konar bjargvættur er í besta falli lélegur brandari.

Fáum við umboð til þess, verður okkar fyrsta verkefni að semja um gagnkvæmar gengisvarnir og tengja krónuna við Evru.  Við eigum ekki að sætta okkur við meiri verðbólgu, miklu hærri vexti á húsnæðislánum eða dýrari matarkörfu en þekkist í nágrannalöndum.

Og svo eru það heilbrigðismálin. Það hefur verið grátlegt að fylgjast með því hvernig núverandi ríkisstjórn hefur hamast við að þrengja að öllu einkaframtaki í heilbrigðiskerfinu okkar. Það hefur leitt af sér stórkostlegt klúður og langa biðlista. Og höfum það á hreinu að það er fátt dýrara fyrir samfélagið okkar en fólk á biðlistum eftir mikilvægum heilsufarslegum úrræðum. Viðreisn trúir því að markviss samvinna hins ríkisrekna og einkarekna sé skynsamasta leiðin fyrir þá sem þurfa á þjónustu að halda. Eitt á ekki að útiloka annað, enda ekki þannig á norðurlöndunum. Þetta snýst um þjónustu við fólk.

Það gerum við með sterku opinberu heilbrigðiskerfi samhliða einkarekstri. Bæði landlæknir og forstjóri Landspítalans hafi sagt að lykillinn að því að leysa vanda spítalanna sé samvinna við einkarekin úrræði. Ríkið á að efla sjúkratryggingar svo hægt sé að sinna því lögboðna hlutverki að semja við heilbrigðisstéttir, stofnanir og fyrirtæki í velferðarþjónstu. Og efla um leið eftirlitið með framkvæmd samninganna. Þannig styttum við biðlista, kerfið verður skilvirkara, þjónustan batnar og fjármunir nýtast betur. En þetta gerist ekki á meðan Svandís Svavarsdóttir er heilbrigðisráðherraefni Sjálfstæðisflokksins og Rauða kverið er leiðarljósið.

Kosningarnar núna munu snúast að miklu leyti um það hvort við fáum ríkisstjórn sem þorir að fara í mikilvægar kerfisbreytingar sem tryggir eignarhald þjóðarinnar á sjávarauðlindinni.  Með tímabundnum samningum og fyrirsjáanleika fyrir útgerðina. Og sanngjarnari skiptingu af tekjum sjávarauðlindarinnar. Það gerum við best með því að treysta markaðnum til að ákveða verðmæti auðlindarinnar. Ekkert múður hér. Mér sýnist reyndar að þjóðin sé okkur sammála þótt þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi nú tekið að sér starf blaðafulltrúa útgerðanna.

Við viljum einnig að sjávarútvegsstefnan sé samofin byggðastefnunni okkar. Að hluti af ágóða ríkisins fari aftur á þau svæði þar sem verðmætin voru sköpuð.

Ég er sannfærð um að það er hægt að ná bæði fram hagkvæmni OG réttlæti. Í mínum huga verður það ekki sundur skilið. Það sjá allir. Nema kannski Sjálfstæðismenn og SFS. Sem eru víst vær hliðar á sama peningi, eins málefnisflokkur líkt og þeirra eigið flokksfólk hefur bent á. Og á meðan sitja VG prúð hjá og láta sér þetta grundvallarmál allt í léttu rúmi liggja.

Við viljum sátt um sjávarútveginn. Ekki kollsteypu en réttlæti. Það kostar pólitíska sýn og úthald. Og það höfum við.

En ég vona… að landsmenn séu farnir að sjá í gegnum þetta. Og velji annan valkost en þennan sama, froðukennda kost. Sem þegar á hólminn er kominn er hvorki frjálslyndur, né sérstaklega markaðsþenkjandi. Ekki er hann alþjóðasinnaður eða sérstaklega mannúðarmiðaður. Hann er frekar fortíðin holdi klædd.

Kosningarnar næstu gefa okkur færi á að segja skilið við þessa fortíðarhyggju og snerta framtíðina. Því kosningarnar snúast um framtíðina.

Kæru vinir,

Stóru áskoranir næstu árin og áratugina eru loftslagsmálin. Við getum ekki leyft okkur að horfa fram hjá þeim lengur. Við verðum að gera allt til að spyrna við þeirri hættulegu þróun sem því miður er löngu hafin. Áður en það verður um seinan

Við fengum rauða aðvörun í andlitið um daginn. Það er alvarlegt.

Við þurfum að nota kerfin sem sköpuðu vandann til að leysa hann. Ef það er fjárhagslega hagkvæmt þá munu fyrirtæki halda áfram að menga. Við þurfum því að gera það hagkvæmt að menga ekki. Snúa dæminu við.

Viðreisn mun berjast fyrir því að Ísland hverfi frá þeirri dapurlegu meðalmennsku sem ríkisstjórnin hefur boðið upp á og gera margfalt betur. Við munum flétta umhverfismálum inn í alla málaflokka líkt og við höfum gert með jafnréttismálin.

Komist Viðreisn í ríkisstjórn mun flokkurinn leggja áherslu á að ný aðgerðaáætlun í loftslagsmálum innihaldi tímasett markmið fyrir hvert ár svo hægt verði að sjá til þess að staðið sé við stóru orðin. Við eigum að veðja á hugvitið og hugsa stórt. Hér er gríðarlegt tækifæri fyrir Ísland. Eins og í orkuskiptum í sjávarútvegi. Verum róttæk og framsýn og færum okkar sterka skipaflota yfir á grænt eldsneyti, unnið úr íslenskum orkugjöfum. Kýlum á það. Veitum þessum verkefnum brautargengi.

Því ef við tökum okkur ekki á – þá verður kannski ekki mikil framtíð til að tala fyrir eða dreyma um. Það er hin kalda staðreynd.

Kæra Viðreisnarfólk,

Ekkert um okkur án okkar. Eru orð sem ég hef hugfast. Viðreisn stendur vörð um fjölbreytileikann og frelsi fólks til að vera nákvæmlega eins og það er. Óháð færni, kyni, aldri, trú, uppruna, kynhneigð, kynvitund, kyntjáningu eða stöðu að öðru leyti. Svo lengi sem það meiðir ekki aðra þá á fólk að geta tekið ákvörðun um eigið líf. Og hafa svigrúm til þess.

Ég vil búa í samfélagi sem hlustar á  jaðarsetta hópa í samfélaginu okkar og hvaða samfélagsbreytingar fólk  í þeirri stöðu kallar eftir.

Við eigum ekki að mæta fólki með forræðishyggju. Hvort sem um er að ræða málefni hinseginfólks, öryrkja, eldri borgara, fatlaðs fólks, þolenda ofbeldis, útlendinga, fólks sem notar hugbreytandi efni eða þegar það kemur að hreinni og klárri jafnréttispólitík. Þá er Viðreisn flokkur sem leggur sig fram um að hlusta og meðtaka skilaboð.

Og mig langar að segja við Steinunni Ásu, Stásu okkar, og ykkur öll sem halda okkur svo dásamlega við efnið. – Já, eitt af okkar allra fyrstu verkum í ríkisstjórn verður að lögfesta samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og við munum fara í alvöru breytingar á atvinnu- og menntamálum fatlaðra. Og minnka skerðingar.

Hlustum, skiljum og lærum af þeim einstaklingum og fjölskyldum sem lifa fjölbreyttan og stundum erfiðan reynsluheiminn.  Aðeins þannig þokum við málum áfram.

Kæru vinir,

Ég sé ekkert nema tækifæri allt í kringum okkur. Ég sé tækifæri til að stytta biðlista í heilbrigðiskerfinu. Ég sé tækifæri til að auðvelda fólki að fá geðheilbrigðisþjónustu. Ég sé tækifæri til að bæta heilbrigðisþjónustu um allt land. Ég sé tækifæri til að þjónustuvæða heilbrigðiskerfið.

Ég sé tækifæri til að lækka verðið á matarkörfunni. Til að bæta lánakjör á Íslandi. Ég sé tækifæri í skynsömum rekstri ríkissjóðs. Ég sé tækifæri til að einfalda kerfin okkar og minnka flækjustig.

Ég sé tækifæri til að tryggja öllum sanngjarnan hlut af sjávarauðlindinni.  Ég sé tækifæri til að skapa sátt um sjávarútveginn.

Ég sé tækifæri til að gera alla starfsemi umhverfisvænni. Ég sé tækifæri til að hraða orkuskiptum á Íslandi verulega. Ég sé tækifæri til að nýta auðlindirnar okkar miklu betur.

Ég sé tækifæri í fjölbreytileikanum og litadýrð mannlegrar tilveru. Og ég sé blússandi tækifæri í kosningabaráttunni okkar sem er bara rétt að byrja. Ég sé samheldni, áræðni og liðsheild.

En fyrst og fremst..

Þá veit ég að öll þau tækifæri sem ég sé á þessum tímapunkti verða ekki lengur bara tækifæri. Heldur veruleiki því við gripum tækifærin og létum vaða. Fáum við einhverju um það ráðið.

Við pabbann sem ég hitti í Fjarðarkaup og hafði áhyggjur af því að dóttir hans, sem var að kaupa sína fyrstu íbúð, myndi lenda í sömu vaxtasúpu og hann; við áhyggjufullu ungu konuna með barn á biðlista eftir talmeinafræðingi og kemst ekki til sálfræðings vegna kostnaðar; við manninn sem ég hitti í gær í Keflavík og er vantrúaður á að eitthvað breytist í sjávarútvegi; við unga óþreyjufulla parið sem ég hitti fyrir norðan í vikunni og fannst ekkert þokast í loftslagsmálum – við ykkur vil ég segja. Við heyrum hvað þið segið, skýrt og vel, en hvert og eitt ykkar ber líka ábyrgð. Þið getið nýtt lýðræðislegan rétt ykkar til gera eitthvað í málunum og kosið burt kyrrstöðuna. Það er hægt. Nú er tækifæri.

Og það er undir okkur öllum komið að tryggja Viðreisn það brautargengi sem við þurfum til þessara verka laugardaginn 25.september.

Til þess þurfum við að láta rödd okkar heyrast hátt og yfirgnæfa kliðinn í fuglabjarginu og koma í veg fyrir að ránfuglar valdi þar usla og óöryggi. Við vitum að lífsbaráttan í samfélaginu snýst ekki bara um lífsafkomu og öryggi, heldur líka um stefnu og framtíðarsýn í grundvallarmálum.

Því segjum við …

Gefðu framtíðinni tækifæri! Kjóstu Viðreisn.