Þjónustuvæðing heilbrigðiskerfisins

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar

Fáar ef nokkrar ríkisstjórnir hafa haft jafnt víðtækt og skýrt umboð til stuðnings heilbrigðiskerfinu og þessi sem nú situr. Allir flokkar fyrir síðustu kosningar hétu því að styrkja heilbrigðiskerfið. Allir. Samt er það þannig að biðlistar hafa aldrei verið lengri eða fleiri en nú. Það er jafnvel eitt helsta „afrek“ ríkisstjórnar á þessu sviði. Og fyrir þau okkar sem viljum gjarnan geta lifað með veirunni og fá það frelsi sem því fylgir, virðist sú leið torfærari en ella vegna þess að ríkisstjórnin var ekki búin að vinna heimavinnuna sína. Ábendingum er frekar mætt með ólund og útúrsnúningum. Því bara sagt að hlaupa hraðar. Fyrir sem eftir veiru.

Ríkisstjórnin hefur komið því fyrir að margra mánaða bið er eftir talmeinafræðingum, sálfræðingum, sjúkraþjálfurum, heilsugæslulæknum, hjúkrunarrýmum, liðskipta- og mjaðmaaðgerðum. Svo ekki sé minnst á biðina eftir niðurstöðum úr leghálsskimunum og allri þeirri vanlíðan fyrir konur sem fylgir þeirri furðulegu stjórnsýslu ríkisstjórnarinnar. Í stað forgangsröðunar um að styrkja þær stoðir sem fyrir eru leggur ráðherra síðan í miðju kófinu áherslu á nýja ríkisstofnun.

Fókusinn á heilbrigðiskerfið á að vera þjónustuvæðing þess. Að tryggja að við öll höfum jafnan aðgang og allir kraftar séu virkjaðir til að auka lífsgæði og vellíðan, líkt og þekkist á Norðurlöndum. Það þýðir öflugt opinbert heilbrigðiskerfi um land allt, samhliða einkarekstri sem styður við heilbrigðisþjónustu fyrir okkur öll og gróskumikið starfsumhverfi.

Þess í stað þess ræður allt að því kreddufull hugmyndafræði för og allir ríkisstjórnarflokkarnir láta gott heita. Tillögur okkar í Viðreisn, eins og um greiðari aðgang að sálfræðiþjónustu, minni biðlista á hinum ýmsu sviðum eða skýrari forgangsröðun fjármuna fyrir heilbrigðiskerfið, hafa allar verið felldar eða ekki fengist ræddar. Sama hversu margar greinar eru nú skrifaðar af nývöknuðum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins þá skiptir það litlu. Heilbrigðisráðherraefni Sjálfstæðisflokksins kemur frá Vinstri grænum. Og lítið mun breytast.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. ágúst 2021