Aldraðir hafa ekki tíma til að bíða

Guðmundur Ragnarsson alþingiskosningar 2021 Reykjavíkurkjördæmi Norður RN 4. sæti

Það er sorg­legt að mjög slæmt ástand í þjón­ustu og úrræðal­eysi í mál­efn­um aldraðra sé orðið stórt kosn­inga­mál. En það er því miður veru­leiki sem við þurf­um að horf­ast í augu við og sam­fé­lag­inu til skamm­ar. Aldraðir eru senni­lega sá hóp­ur sem hef­ur fengið að kynn­ast fleiri svikn­um kosn­ingalof­orðum en flest­ir aðrir hóp­ar sam­fé­lags­ins. Við mynd­un næstu rík­is­stjórn­ar verða mál­efni aldraðra að fá for­gang, hvort sem það snýr að fram­færslu eða umönn­un.

Lát­um þjón­ust­una ná til allra

Aldraðir hafa ekki tíma til að bíða eft­ir lausn­um á sín­um mál­um, það ætti öll­um að vera ljóst.

Eins og staðan er núna vant­ar heild­ar­y­f­ir­sýn yfir verk­efn­in og fjöl­breytt­ari lausn­ir. Það er verið að sinna þess­ari þjón­ustu út og suður eins og fjár­mun­ir leyfa, án þess að hafa yf­ir­sýn yfir hvernig þeir nýt­ast. Af­leiðing­in er gjarn­an sú að aldraðir fest­ast í kerf­inu og ekki finn­ast úrræði til að leysa vanda­mál þeirra eða þá að þau eru hrein­lega ekki fyr­ir hendi.

Þessi mála­flokk­ur er dýr og verður sam­fé­lag­inu dýr­ari með hverju ár­inu sem líður.

Því verður að tryggja var­an­lega fjár­muni í hann og skipu­leggja í heild hvernig við ætl­um að láta þjón­ust­una nýt­ast sem best þeim sem þurfa á henni að halda. Hver rek­ur þjón­ust­una á ekki að vera aðal­deilu­málið eða, eins og staðan er nú, að allt sé fast í þrefi á milli rík­is og sveit­ar­fé­laga um rekst­ur­inn. Fyr­ir utan það að tryggja grunnþjón­ustu þarf líka að huga að and­legri líðan þess­ara ein­stak­linga.

Áhyggju­laust ævikvöld

Áhyggju­laust ævikvöld á ekki að vera inni­halds­laus frasi. Okk­ur ber skylda til að sjá til þess að fólkið sem hef­ur skapað það sam­fé­lag sem við tök­um við ljúki ævi sinni í ör­yggi og með reisn. Það eru mann­rétt­indi að eiga áhyggju­laust ævikvöld.

Þessi hóp­ur á ekki að þurfa að upp­lifa sig sem ölm­usu­fólk og þur­fa­linga.

Öll lif­um við í þeirri trú að sá tími sé liðinn fyr­ir mörg­um ára­tug­um. Það er ekki fyrr en við lend­um í því með aldraða for­eldra eða ætt­ingja að við fáum að kynn­ast kerf­inu hér og getu­leysi þess til að bjóða nauðsyn­leg úrræði, sér­stak­lega fyr­ir ein­stak­linga sem ekki hafa getu til að búa ein­ir nema með mik­illi aðstoð. Í dag eru þúsund­ir ein­stak­linga að sinna öldruðum for­eldr­um eða ætt­ingj­um sem eru heima vegna þess að viðeig­andi þjón­ustu skort­ir.

Sýn­um öldruðum virðingu

Þessi mála­flokk­ur er kostnaðarsam­ur og því mik­il freist­ing hjá stjórn­völd­um að ná fram sparnaði í rík­is­út­gjöld­um þar, enda þessi þjóðfé­lags­hóp­ur ekki mjög há­vær.

Skerðing­ar í eft­ir­launa­kerf­inu eru eitt mesta órétt­lætið sem aldraðir verða fyr­ir. Það hef­ur kallað fram mikla óvild í garð líf­eyri­s­kerf­is­ins, þótt það hafi ekk­ert með þess­ar órétt­látu skerðing­ar að gera þar sem það eru stjórn­völd hverju sinni sem ákveða þær. Þess vegna þarf að end­ur­skoða skerðing­ar, skatt­lagn­ingu og frí­tekju­mark fyr­ir eft­ir­launaþega. Það er okk­ur til skamm­ar að þegn­ar þessa lands, sem eru að ljúka sínu ævikvöldi, séu pínd­ir svo í skerðing­um og skatta­álög­um að þeir þurfi að velta fyr­ir sér hverri krónu og sum­ir eigi varla fyr­ir mat.

Sem bet­ur fer erum við að kom­ast á þann stað að eft­ir­launaþegar eru að fá ásætt­an­leg­ar greiðslur úr sín­um líf­eyr­is­sjóði sér til fram­færslu. Við verðum hins veg­ar að hækka fram­færslu­viðmið, draga úr skatta­álög­um og veita þess­um þjóðfé­lags­hópi sann­ar­lega áhyggju­laust ævikvöld.

Viðreisn er með skýra sýn í þess­um mála­flokki eins og í heil­brigðismál­un­um enda eru þess­ir mála­flokk­ar sam­tvinnaðir.

Tryggj­um öll­um áhyggju­laust ævikvöld og kjós­um Viðreisn.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. september 2021