01 sep Draumalandið
Öll viljum við geta horft bjartsýn til framtíðar, eygt framfarir og betri hag. Tækifærin eru mýmörg en það verður að grípa þau. Það ætlar Viðreisn að gera.
Látum okkur dreyma
Gott er að láta sig dreyma um bjarta framtíð fjölskyldunnar, fyrirtækisins og samfélagsins alls. Ég giska á að margir myndu nefna rýmri fjárráð, vissu um greiðslubyrði lána, ódýrari matarkörfu og stöðugan gjaldmiðil. Aðrir myndu nefna sanngjarnan hlut þjóðarinnar af nýtingu auðlinda og að umhverfis- og loftslagsmál væru tekin föstum tökum og enn aðrir ábyrgð í ríkisfjármálum svo ekki sé talað um rekstrarumhverfi fyrirtækja. Margir myndu minnast á greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu, þjónustu sálfræðinga, sjúkraþjálfara og talmeinafræðinga. Enn aðrir jafnt atkvæðavægi við Alþingiskosningar.
Draumar geta ræst
Veruleiki líðandi stundar er oft annar en sá sem fólk lætur sig dreyma um. Hann breytist ekki nema við gerum eitthvað sjálf til þess að draumar okkar rætast. Komandi 25. september er nokkurs konar óskastund en þá göngum við til kosninga sem ráða miklu um framtíð okkar. Þá er nauðsynlegt að átta sig á því hvað þarf til þess að draumarnir geti ræst og hvaða stjórnmálaflokkur talar fyrir þeim lausnum og leiðum. Óskastund verður að nýta vel – óskastundir sem koma bara á fjögurra ára fresti. Þá er líka gott að rifja upp hvernig fór með óskirnar fyrir fjórum árum, átta árum eða lengra aftur í tímann. Hvernig fóru þeir stjórnmálaflokkar sem stjórnuðu landinu með drauma ykkar og óskir sem þið trúðuð þeim fyrir?
Sægur af tækifærum
Framtíðin er handan við hornið. Þrátt fyrir allt getum við ráðið miklu um hvað hún ber í skauti sér. Við þurfum hins vegar að veita framtíðinni nóg af góðum tækifærum í veganesti. Viðreisn sér sæg af tækifærum til að gefa framtíðinni.
Tækifæri á borð við að tengja krónunnar við evru, sem leiðir til lægri vaxta og dregur úr sveiflum í verðlagi inn- og útflutnings og eykur fyrirsjáanleika í afborgunum lána. Tækifæri sem felst í blandaðri leið í heilbrigðiskerfinu þar sem þjónustan er sett í öndvegi, en styrkleikar bæði einka- og opinbers rekstrar fá að njóta sín. Tækifæri sem felast í því að jafna atkvæðavægi og jafna ábyrgð okkar allra á landsbyggðum og höfuðborgarsvæði. Tækifæri sem felst í því að tryggja með óyggjandi hætti að almenningur njóti ávaxtanna af auðlindum sínum, með leigu nýtingar þeirra til takmarkaðs tíma í senn gegn gjaldi sem ræðst á markaði. Tækifæri sem felst í því að ákveða að Ísland ætli sér að stíga stór skref án málalenginga í loftslagsmálum og nýta til þess græna hvata og þá krafta sem búa í íslenskum fyrirtækjum.
Gefðu framtíðinni tækifæri – kjóstu Viðreisn.
Höfundur er alþingismaður og skipar 2. sæti í Reykjavík norður á lista Viðreisnar.