08 sep Ekki tala út og suður í samgöngumálum!
Það vita allir að loftslagsmálin eru eitt stærsta hagsmunamál jarðarbúa og risavaxið úrlausnarefni. Þau kalla á samstillt átak allra, ekki síst innan flokkanna sjálfra. Samgöngumálin skipta þar veigamiklu máli. Það var því dapurlegt að lesa grein hér í blaðinu eftir þingmann Sjálfstæðisflokksins þar sem hann talaði niður metnaðarfull áform sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um að efla almenningssamgöngur. Hin „svokallaða borgarlína“ og „stórkarlalegar hugmyndir“ er afhjúpandi orðanotkun og segir okkur að þingmaðurinn sé ekkert sérstaklega velviljaður verkefninu og er líklegur til að leggja stein í götu þess á framkvæmdatímanum. Það væri í takt við stefnu borgarfulltrúa flokksins en í andstöðu við meirihlutavilja sveitastjórna svæðisins. Nær væri að leggjast á árarnar með Viðreisnarfólki í sveitarstjórnum sem hefur lagt fram tillögur um að hraða ferlinu og fengið samþykktar í Garðabæ og Hafnarfirði. Öllu skiptir að innan flokka sé sveitarstjórnarfólk og alþingismenn sammála um að hrinda verkefninu í framkvæmd en tali ekki út og suður. Öðruvísi getum við ekki stytt ferðatíma á höfuðborgarsvæðinu með umhverfisvænni lausn sem bætir lífsgæði fólks.
Þá er það ekki sannfærandi að alþingismenn, sem hafa verið í þingmeirihluta frá 2013 og eru í flokki sem hefur haldið utan um samgöngumál í 20 af síðustu 30 árum, rumski nú örfáum dögum fyrir kosningar og fari að benda á að höfuðborgarsvæðið hefur lengst af farið halloka þegar kemur að því að laga vegasamgöngur. Tafir á Sundabraut og tvöföldun Reykjanesbrautar, auk annara stórra framkvæmda á svæðinu, skrifast á þá flokka sem ráðið hafa peningaflæðinu á Alþingi, en ekki einstaka sveitastjórnir. Þessi framfaramál hefðu vel getað orðið að veruleika fyrr ef þingmenn ríkisstjórnarflokka á höfuðborgarsvæðinu hefðu staðið í lappirnar gagnvart þeirri bitlinga og sérhagsmunapólitík sem ráðið hefur för síðustu áratugina.
Og sérhagsmunastjórnmálin leynast víðar. Af hverju eiga kjósendur í Garðabæ, Hafnarfirði, Kópavogi, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi og Kjósahreppi að sætta sig við að atkvæði þeirra eru minna virði en annars staðar á landinu? Að þingmenn þessa svæðis séu færri en þeir eiga í raun að vera samkvæmt þeim mannréttindum að einn maður er eitt atkvæði? Viðreisn vill breyta þessu en núverandi stjórnarflokkar og Miðflokkur lögðust gegn slíkum hugmyndum fyrr á þessu ári. Og þeir greiddu því heldur ekki atkvæði að vægi á milli flokka ætti að vera jafnt í verki, en ekki bara í orði. Afleiðingin verður mögulega sú að þessir kyrrstöðuflokkar fá fleiri þingmenn í kosningunum en þeim ber samkvæmt reglunni um að atkvæði allra eiga að vega jafnt. Þessi lýðræðishalli gagnvart kjósendum í kjördæminu er ólíðandi.
Greinin birtist fyrst í Kópavogs- og Garðapóstinum 8. september 2021