Glataðir snillingar

Benedikt Jóhannesson

Kosturinn við kosningarnar er að þegar talið hefur verið upp úr kössunum eru allir sigurvegarar, af yfirlýsingum foringjanna að dæma. Jafnvel öreigaflokkurinn þingmannslausi hefur tryggt leiðtoga sínum  framfærslu á kostnað skattborgara næstu árin.

Þegar ég horfi yfir sviðið sýnist mér fernt einkum draga fólk að stjórnmálunum:

1.     Hugsjónir. Þetta er eina rétta ástæðan fyrir því að fara í pólitík. Sífellt koma þó upp mál sem dreifa athyglinni frá þeim markmiðum sem upprunalega var að stefnt. Flokkar elta jaðarmál og sérhagsmunahópa, en gleyma venjulegu fólki, grunnstefnunni. Skipt er um stuðningsmenn og stefnu, en strikinu haldið sem flokkur.

2.     Metnaður. Líklega er þetta meginástæða fyrir þingframboðum. Oft ber metorðagirndin samt metnaðinn til að vinna vel og af heilindum ofurliði.

3.     Atvinnuleysi. Sumir fá engin önnur störf. Nú er undantekning að þingmenn hafi reynslu af atvinnurekstri eða stjórnun.

4.     Tilviljun. Fólk er á ákveðnum stað á ákveðnum tíma, gefur kost á sér í vonlítil sæti og dettur svo inn í pólitíkina.

Fyrstu tvær ástæðurnar eru bestar, fari þær saman. Pólitíkus með góðar hugsjónir, hæfileika og metnað til að hrinda þeim í framkvæmd getur skipt máli. Seta á Alþingi, ein og sér, skiptir þó sjaldan sköpum. Vissulega er mikilvægt að þingmenn vinni vel og samviskusamlega að lagasetningu og nefndum sé vel stjórnað. Góður nefndarmaður bjargar þjóðinni frá margri vitleysu, en sérhagsmunaseggurinn gerir mikinn óskunda. Letidýrið er oftast meinlaust nema það fái forystuhlutverk. Nánast allir þingmenn vilja verða ráðherrar og þar reynir á hvað fólk getur.

Brátt tekur ný ríkisstjórn við, kannski nokkurn veginn sú sama og nú situr. Verkstjórn skiptir máli og meginverkefni forsætisráðherra er að leiða ríkisstjórn til farsælla ákvarðana. Haldi okkar ágæti forsætisráðherra áfram, ætti það að vera henni metnaðarmál að árleg tugmilljarða tilfærsla frá þjóðinni til örfárra útgerða verði ekki óbrotgjarnasti minnisvarðinn um ríkisstjórnirnar. Enginn ætlar sér að vera til óþurftar, en það þarf hugrekki til þess að rugga skuttogaranum.

Því miður gleymist oft að stefnumálin skipta öllu, ekki flokkarnir og völdin. Sjálfur fór ég út í stjórnmál til þess að vinna mínum hugsjónum fylgi, ekki til þess að finna mál sem þjóðin gæti bitið á. Sennilega vantar mig tvo eiginleika flestra stjórnmálaforingja: Klæki og taumlausa metorðagirnd. Uppáhalds stjórnmálamaður minn er Geir Hallgrímsson, sem var gegnheiðarlegur en fjarri því slægur.

Ég er bjartsýnismaður og á stofnfundi Viðreisnar sagði ég: „Kveðjum klækina og heilsum heiðarleikanum.“ Við stöndum því miður engu nær því markmiði nú en fyrir fimm árum.

Stríðið heldur samt áfram þótt orustur tapist.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. september 2021