21 sep Hvað má almenningur ekki vita um sjávarútveginn?
Af hverju má ekki upplýsa almenning um eignarhald stærstu útgerðarfyrirtækja Íslands í íslensku atvinnulífi? Þessi spurning brennur á mörgum nú í aðdraganda kosninga vegna þess dæmalausa feluleiks sem stjórnvöld settu á svið í kringum skýrslubeiðni sem við í Viðreisn höfðum forgöngu um að leggja fram undir lok síðasta árs.
Alþingi samþykkti einróma í desember síðastliðnum beiðni mína um að sjávarútvegsráðherra ynni skýrslu um eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaganna í íslensku atvinnulífi. Markmiðið var meðal annars að veita almenningi mikilvægar upplýsingar um hvernig hagnaði af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar hefur verið varið og sýna ítök stórútgerðarinnar í íslensku samfélagi í krafti nýtingar hennar á fiskveiðiauðlindinni. Nýtingar sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, VG og Framsóknar ver með kjafti og klóm að verði ótímabundin þvert á vilja yfirgnæfandi meirihluta almennings. Hvað þá að markaðurinn fái að ráða verðinu fyrir aðgang útgerðanna að auðlindinni okkar.
Þegar skýrslan var loksins birt vantaði alveg í hana upplýsingar um tilteknar fjárfestingar, það er í hvaða fyrirtækjum og atvinnugreinum útgerðarrisarnir hafa fjárfest í. Þar með er ekki verið að upplýsa almenning um krosseignatengsl eða ítök útgerðarinnar í tilteknum kimum íslensks samfélags eins og við fórum fram á, og Alþingi samþykkti. Það er miður. Víst má fólk vita.
Sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins ber fyrir sig lög um persónuvernd. Að samkvæmt þeim megi almenningur ekki fá upplýsingar um hvernig þeir sem hafa auðgast gríðarlega á ótímabundnu einkaleyfi á veiðum úr sjávarauðlind þjóðarinnar hafa fjárfest í fjölmiðlum og fasteignum, matvælamarkaði og heilbrigðisgeiranum, ferðaþjónustu og veitingahúsum. Svo fátt eitt sé talið.
Staðreyndin er hins vegar sú að þetta eru opinberar upplýsingar þó flækjustigið sé slíkt að það er ekki einfalt fyrir hvern sem er að draga þessar upplýsingar saman. Enda gerir Persónuvernd alvarlegar athugasemdir við skýrsluna, ekki síst við vinnslu hennar þar sem ekki var haft samband við Persónuvernd sem hefði getað leiðbeint og leiðrétt þann „misskilning“ að allt væri þetta mjög mikið leyndarmál. Það sem var í skýrslunni.
Þrátt fyrir þessa ótrúlegu brotalöm á skýrslunni koma þar engu að síður fram mikilvægar upplýsingar um að á árunum 2017, 2018 og 2019 jukust fjárfestingar stórútgerðarinnar í íslensku atvinnulífi um tæpa 60 milljarða. Þetta eru upplýsingar sem eru gefnar í bókfærðu verði en raunverulegt verð sem byggir á markaðsverðmæti þeirra fyrirtækja sem er fjárfest í, er alla jafna töluvert hærra. Þó svo að bara sé miðað við bókfærða verðið þá eru árlegar fjárfestingar í óskyldum atvinnurekstri fjórfalt meiri en veiðigjöldin sem ríkisstjórnin telur þessi sömu útgerðarfyrirtæki ráða við að greiða íslenskri þjóð fyrir aflaheimildir, fyrir afnot af sjávarauðlindinni. Svo því sé til haga haldið. Sátt um þessa mikilvægu stoð.
Sjávarútvegur er ein mikilvægasta stoð íslensks efnahagslífs. Eiginfjárstaða sjávarútvegsfyrirtækja hefur batnað verulega frá hrunsárunum og stóð bókfært eigið fé þeirra í 276 milljörðum króna við lok árs 2018. Vísbendingar eru um að fjárfestingar þeirra út fyrir sjávarútveginn hafi aukist í samræmi við það. Það er jákvætt að því leyti að það dreifir áhættu félaganna sjálfra en þessi þróun getur að sama skapi hæglega leitt til verulegrar uppsöfnunar eigna og áhrifa á fárra hendur og dregið úr virkri samkeppni á mörkuðum. Smæð íslensks atvinnulífs gerir okkur sérstaklega viðkvæm fyrir fákeppni.
Vegna þessarar stöðu töldum við í Viðreisn mikilvægt að upplýsingar um eignarhluti 20 stærstu útgerðarfélaganna og tengdra aðila í óskyldum atvinnurekstri hérlendis yrðu teknar saman. Með þeim upplýsingum sem við báðum um, með stuðningi þingmanna úr flestum flokkum, væri nefnilega hægt að varpa ljósi á raunveruleg áhrif aðila sem hafa einkaleyfi til nýtingar fiskveiðiauðlindarinnar á íslenskt atvinnulíf og samfélag. Við töldum að slík skýrsla gæti orðið mikilvægt framlag til umræðunnar um dreifða eignaraðild útgerðarfélaga og skráningu þeirra á markað en það er rétt að minna á það hér að nýleg Gallupkönnun sýnir að tæp 77 prósent þjóðarinnar vilja að útgerðin greiði markaðsgjald fyrir aflaheimildir.
Þeir sem verja núverandi fyrirkomulag við greiðslu fyrir nýtingu á sjávarauðlindinni gera það gegn allri skynsemi, gegn allri sanngirni – og gegn vilja yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar. Þessu ætlum við í Viðreisn að breyta