23 sep Hvernig varð sanngirni í sjávarútvegi skammaryrði?
Kosningarnar á laugardag skera úr um hvort við fáum ríkisstjórn sem þorir að fara í nauðsynlegar kerfisbreytingar. Breytingar sem tryggja eignarhald þjóðarinnar á sjávarauðlindinni með tímabundnum nýtingarsamningum og fyrirsjáanleika fyrir útgerðina.
Markmið breytinganna er ekki síst sanngjarnari skipting á tekjum sjávarauðlindarinnar milli stórútgerðar og þjóðarinnar. Því náum við best fram með því að treysta markaðnum til að ákveða verðmæti auðlindarinnar. Ekki stjórnmálamönnum. Ekki stórútgerðinni. Það er sanngjarnt og sanngirni er ekki skammaryrði í sjávarútvegi frekar en annars staðar þar sem almannahagsmunir koma við sögu.
Mígrenikast stjórnvalda
Undir lok síðasta árs samþykkti Alþingi beiðni mína um að sjávarútvegsráðherra léti vinna skýrslu sem sýndi eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaga landsins í íslensku atvinnulífi. Þar sem teknar yrðu saman upplýsingar um hvar fjárfestingar þeirra lægju í atvinnurekstri utan sjávarútvegs. Markmiðið var einfaldega að veita almenningi mikilvægar upplýsingar um hvernig hagnaði af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar hefur verið varið og sýna ítök stórútgerðarinnar í íslensku samfélagi í krafti nýtingar þeirra á fiskveiðiauðlindinni. Nýtingar sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, VG og Framsóknar ver með kjafti og klóm að verði ótímabundin þvert á vilja yfirgnæfandi meirihluta almennings. Hvað þá að markaðurinn fái að ráða verðinu fyrir aðgang útgerðanna að auðlindinni okkar.
Vinnsla skýrslunnar var augljóslega mikill höfuðverkur. Ekki vegna þess að upplýsingarnar lægju ekki fyrir. Staðreyndin er sú að þetta eru opinberar upplýsingar þó flækjustigið sé slíkt að það er ekki einfalt fyrir hvern sem er að draga þær saman. Mígrenikastið var til komið vegna þess að það var augljóslega ekki heppilegt að upplýsa fólk um þessa stöðu.
Skýrslan upplýsir að á árunum 2017, 2018 og 2019 jukust fjárfestingar stórútgerðarinnar í íslensku atvinnulífi um tæpa 60 milljarða á bókfærðu verði, sem er alla jafna töluvert lægra en raunverulegt markaðsverð. Engu að síður er bókfært verð fjárfestinga stórútgerðarinnar í óskyldum atvinnurekstri fjórfalt hærra en veiðigjöldin sem Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og VG telja þessi sömu útgerðarfyrirtæki ráða við að greiða íslenskri þjóð fyrir aflaheimildir, fyrir afnot af sjávarauðlindinni. Svo því sé til haga haldið.
Þægir eru óupplýstir?
Skýrslan um eignarhald útgerðar í óskyldum atvinnurekstri segir hins vegar ekkert um eignarhald útgerðar í óskyldum atvinnurekstri. Þar er ekki kortlagt hvernig ofurgróði af stórútgerðinni hefur verið nýttur í að fjárfesta í flutningafyrirtækjum og fjölmiðlum, fasteignum og tryggingafélögum, í heilbrigðisgeiranum og matvælamarkaði, í ferðaþjónustu og veitingastöðum.
Svo eitthvað sé talið til.
Af hverju þessi feluleikur? Getur verið að varðhundar sérhagsmunanna í Sjálfstæðisflokknum átti sig á því að nú sé nóg komið? Að krafa almennings um sanngirni í sjávarútvegi sé orðin svo skýr, svo sterk, að sannleikur um raunverulega stöðu mála myndi endanlega sundra vörninni?
Sjálf er ég sannfærð um að svo sé. Öskrin úr vörninni um að breytingar í átt að sanngirni í sjávarútvegi myndu rústa atvinnugreininni eru bara það. Öskur. Fyrirsláttur. Gömul taktík sem hefur runnið sitt skeið á enda. Það er hægt að ná fram bæði hagkvæmni og sanngirni. Það þarf enga kollsteypu. Það sjá allir. Það vilja flestir. Og það mun á endanum skapa þá sátt sem okkur er öllum mikilvæg.
Þeir sem verja núverandi fyrirkomulag við greiðslu fyrir nýtingu á sjávarauðlindinni gera það gegn allri skynsemi, gegn allri sanngirni – og gegn vilja yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar. Þessu ætlum við í Viðreisn að breyta.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. september 2021