Rétturinn til að deyja

Það liggur fyrir okkur öllum að deyja og þökk sé læknavísindunum lifum við lengur en áður. Hin hliðin á þessari þróun vísindanna er að stundum er lífið búið áður en við deyjum. Spurningin er því orðin aðkallandi hvort við sjálf eigum að hafa eitthvað um það að segja hvenær okkar hinsta stund sé eða hvort við eigum að láta það tækni og lyfjum eftir. Dánaraðstoð fjallar um það að sjálfráða einstaklingur eigi, að uppfylltum vel skilgreindum skilyrðum, að hafa yfirráð yfir eigin líkama, lífi og dauða.

Desmond Tutu biskup, sem er fylgjandi dánaraðstoð, sagði á 85 ára afmæli sínu: „Ég hef undirbúið andlát mitt og gert það ljóst að ég vil ekki láta halda mér á lífi hvað sem það kostar. Ég vona að komið verði fram við mig af umhyggju og mér leyft að fara á næsta stig ferðalags lífsins á þann hátt sem ég kýs.“ Breski eðlisfræðingurinn Stephen Hawkins, sem einnig var stuðningsmaður dánaraðstoðar, lét hafa eftir sér að við létum ekki dýr kveljast svo af hverju ættum við að láta mannfólkið gera það?

Dánaraðstoð er háð ströngum skilyrðum

Nokkur lönd hafa nú þegar lögleitt dánaraðstoð þ.m.t. Holland. Skilyrðin sem þarf að uppfylla í Hollandi eru mjög ströng. Einstaklingurinn þarf að gera lífsskrá og vera þá með fullu ráði og rænu og með óbærilega verki sem ekki er hægt að lina. Ósk hans þarf að vera vel ígrunduð og líkamlegt og andlegt ástand hans að vera vottað af tveimur læknum, yfirleitt heimilislækni eða sérfræðilækni og öðrum óháðum lækni. Læknirinn þarf að gæta læknisfræðilegrar vandvirkni við að binda endi á líf einstaklingsins og skila síðan skýrslu til þar til skipaðrar nefndar sem fer yfir hvort að rétt hafi verið staðið að öllu og lögunum fylgt. Öll frávik geta varðað lög og réttindamissi. Könnun sem var gerð meðal lækna í Hollandi sýndi að lögleiðing dánaraðstoðar eyddi lagalegri óvissu og stuðlaði að mun vandaðra verklagi og meiri umhyggju við sjúklinga á þessum viðkvæma tímapunkti.

Hver er staðan á Íslandi?

Á Íslandi er dánaraðstoð bönnuð og því hafa sjúklingar sem uppfylla ofangreind skilyrði ekkert um það að segja hvenær líf þeirra endi. Lögin hafa ekki aðlagast í takti við þróunina í tækni og vísindum. Samkvæmt könnun sem Maskína framkvæmdi fyrir Lífsvirðingu síðla ársins 2019 voru 77,7% svarenda fremur eða mjög hlynntir dánaraðstoð á meðan aðeins 6,8% voru fremur eða mjög andvígir.

Ástæða er til að ætla að íslenskir læknar séu í erfiðri stöðu en erlendar rannsóknir sem gerðar hafa verið í löndum þar sem dánaraðstoð er bönnuð, líkt og hér á landi, sýna að læknar grípa stundum til þess ráðs að deyða sjúklinga með of stórum lyfjaskömmtum í því skyni að lina þjáningar þeirra. Um leið er annarri meðferð sem miðar að því að lengja líf sjúklingsins oft hætt.

Ófá dæmi eru um að sjúklingum í lífslokameðferð sé haldið „sofandi“ á morfíni í marga daga eða jafnvel vikur þangað til líkaminn gefur sig. Það þarf ekki að fjölyrða um þann sársauka sem margir aðstandendur hafa þurft að upplifa með því horfa upp á ástvin sinn fjara út, vakna reglulega og biðja um vatn en fá ekkert nema meira morfín. Full ástæða er því til að aðlaga lögin að nútímanum og fylgja í fótspor þeirra þjóða sem lögleitt hafa dánaraðstoð.

Viðreisn styður dánaraðstoð

Í samþykktri stefnu Viðreisnar segir: „Innleiða þarf valfrelsi varðandi lífslok þannig að við vissar vel skilgreindar aðstæður, að uppfylltum ströngum skilyrðum, verði dánaraðstoð mannúðlegur valkostur fyrir þá einstaklinga sem kjósa að mæta örlögum sínum með reisn. Sá valkostur byggir á virðingu fyrir rétti sjúklingsins á eigin lífi og líkama, dregur úr líkum á misnotkun og dregur skýran lagalegan ramma um viðbrögð, óski sjúklingur eftir dánaraðstoð þegar engin önnur úrræði eru í boði.“

Tveir þingmenn Viðreisnar, Hanna Katrín Friðriksson og Jón Steindór Valdimarsson, voru meðflutningsmenn þingályktunartillögu sem lögð var fram 2020 um gerð skoðanakönnunar um afstöðu heilbrigðisstarfsfólks til dánaraðstoðar sem og sambærilegra tillagna sem voru lagðar fram 2017 og 2018. Ekki náðist að afgreiða þingályktunartillöguna á þinginu 2020-2021 en búast má við að hún verði aftur lögð fram á komandi þingi.

Höfundur er á framboðslista Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 15. september 2021