Þurfa höfuðstöðvar RARIK að vera í Reykjavík?

Eiríkur Björn Björgvinsson

Stefna margra rík­is­stjórna undafar­in ár hef­ur verið að flytja op­in­ber störf út á lands­byggðirn­ar. Fram­kvæmd og eft­ir­fylgd þess­ar­ar stefnu hef­ur verið út­færð með ýms­um hætti og oft og tíðum með tölu­verðum fyr­ir­gangi. Skemmst er að minn­ast flutn­ings Fiski­stofu til Ak­ur­eyr­ar þar sem starfs­fólki fannst að sér vegið og þótti und­ir­bún­ing­ur og fram­kvæmd ekki til eft­ir­breytni. Marg­ir þekkja einnig flutn­ings Land­mæl­inga á Akra­nes sem er jafn­framt þekkt dæmi um miður vandaðan und­ir­bún­ing við flutn­ing op­in­berra starfa á lands­byggðirn­ar.

Það vek­ur furðu að rík­is­valdið skuli ekki geta staðið bet­ur að þess­um flutn­ing­um þegar fræðimenn hafa skrifað lærðar grein­ar og bæk­ur um breyt­inga­stjórn­un og öll­um sem vilja vinna fag­lega að flutn­ingi stofn­ana ætti að vera ljós sú aðferðafræði sem eyk­ur lík­ur á far­sæl­um breyt­ing­um í sátt við fólk og um­hverfi. Það er reynd­ar um­hugs­un­ar­efni að flest ný op­in­ber störf skuli verða til á höfuðborg­ar­svæðinu og þau svo jafn­vel síðar flutt út á land með slík­um vand­ræðagangi. Stefn­an ætti fyrst og fremst að fylgja þörf­inni og vera sú að efla þau störf sem fyr­ir eru á lands­byggðunum og að sjá til þess að þar verði meiri­hluti nýrra starfa til.

Staðreynd­in er sú að op­in­ber­um störf­um hef­ur fjölgað veru­lega síðustu ár og einna helst á höfuðborg­ar­svæðinu. Til að bæta gráu ofan á svart hafa ráðherr­ar flutt störf af lands­byggðunum til Reykja­vík­ur eins og dóms­málaráðherra nú­ver­andi rík­is­stjórn­ar gerði með því að leggja niður fang­elsið á Ak­ur­eyri og flytja þau störf suður á Hólms­heiði. Allt með stuðningi stjórn­ar­flokk­anna.

Áhuga­verðast er þó að horfa til lands­byggðastarf­semi eins og RARIK sem hef­ur sín­ar höfuðstöðvar í Reykja­vík með fjölda starfs­manna þrátt fyr­ir að öll þjón­usta fyr­ir­tæk­is­ins sé á lands­byggðunum. Í mörg ár hef­ur verið rætt um að flytja höfuðstöðvarn­ar út á land. Nú er kom­inn tími til að láta af því verða og flytja þær til Ak­ur­eyr­ar og Eg­ilsstaða. RARIK er sann­ar­lega fyr­ir­tæki lands­byggðanna og þar eiga höfuðstöðvarn­ar að vera. Kom­ist ég á Alþingi mun ég beita mér fyr­ir því að af þeim flutn­ing­um verði. Ég mun jafn­framt beita mér fyr­ir því að stefnu um efl­ingu og flutn­ing op­in­berra starfa á lands­byggðirn­ar verði fram­fylgt á vandaðan og fag­leg­an hátt.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. september 2021