02 sep Viðreisn vill virkja vindinn
Við sigrumst ekki á loftslagsvánni án endurnýjanlegrar orku. Vatnsafl, jarðvarmi, vindorka og sólarorka eru slökkvitæki fyrir brennandi heim. Alþjóðasamfélagið leitar nú allra leiða til að losa sig við jarðefnaeldsneyti og nýta þess í stað endurnýjanlega orku. Það liggur í orðanna hljóðan, orkan sem við notum til langframa verður að vera endurnýjanleg, annað er óábyrgt.
Grænt Ísland þarf græna orku
Íslendingar þekkja vel að búa í grænu samfélagi, að minnsta kosti hálfgrænu. Við erum lánsöm að eiga gnægð endurnýjanlegra auðlinda í landinu og að forfeður okkar og -mæður höfðu vit á því að nýta þær til að byggja upp samfélagið. Í dag nýtum við þessa hreinu og grænu orku þegar við kveikjum á eldavélinni og þegar við látum renna í bað.
Nú er komið að okkar kynslóð að taka boltann áfram. Við þurfum að skila af okkur fullkomlega grænu samfélagi – ekkert hálfkák lengur! Hver einasti bíll, hvert einasta skip og hver einasta flugvél þarf að vera knúin áfram af sjálfbærri og grænni orku. Hún verður á ýmsu formi, t.d. raforka fyrir rafbíl heimilisins og grænt eldsneyti fyrir togara sjávarútvegsins.
Tækifæri Íslands
Baráttan við loftslagsbreytingar hefur leitt til þess að til verður ýmiss nýr grænn iðnaður á heimsvísu sem leysir annan af hólmi. Því fer fjarri að sú heimsmynd sem við stefnum í sé án tækifæra og án verðmætasköpunar. Þvert á móti. Ótrúlega mörg spennandi störf og iðnaður verða til í grænu byltingunni. Framleiðsla á rafhlöðum fyrir rafbíla, útflutningur á grænu eldsneyti og nýting eða förgun á fönguðu kolefni. Þetta gætu allt verið næsta kynslóð iðnaðar á Íslandi líkt og við sjáum til dæmis gerast annars staðar á Norðurlöndum. Það eru stór tækifæri fyrir Ísland í grænum og loftslagsvænum heimi.
Framtíðin liggur í rokinu
Ísland losar sig ekki við jarðefnaeldsneyti eða byggir upp ný græn atvinnutækifæri án endurnýjanlegrar orku. Eitthvað af henni fæst úr núverandi orkukerfi en mikið kemur frá nýrri orkuvinnslu. Þar kemur íslenska rokið sterkt inn. Viðreisn telur að uppbygging nýrrar raforkuvinnslu ætti aðallega að koma frá vindorku. Hún hefur marga kosti sem gera hana góða viðbót við þá hefðbundnu og ágætu orkukosti sem Íslendingar þekkja svo vel.
Ef við lítum til loftslagsáhrifa eða hve afturkræf orkuvinnsla er á Íslandi þá stendur vindorkan betur að vígi en vatnsafl og jarðvarmi. Byggja má upp vindorku í hentugum áföngum og hún spilar vel með vatnsaflinu sem við eigum mikið af nú þegar. Til viðbótar fleygir vindorkutækninni fram og hagkvæmni hennar eykst stöðugt. Þar með er vindorkan líklega samkeppnishæfari en margir hefðbundnir orkukostir. Það er því til mikils að vinna með þessari viðbót. Nýting vindorkunnar verður auðvitað að vera skynsamleg og það er mikilvægt að velja kosti þar sem áhrif á fuglalíf og sjónræn áhrif eru lágmörkuð.
Viðreisn er tilbúin í slaginn við loftslagsvána. Það sem meira er – við þekkjum lausnirnar og þorum að taka stór skref strax.