Vertu til er vorið kallar á þig

Íslend­ing­ar halda þing­kosn­ing­ar á vor­in, þegar sól fer að rísa og landið tek­ur lit á ný. Þannig hef­ur það verið í 38 ár, ef frá eru tald­ar síðustu þrenn­ar kosn­ing­ar. Kosn­ing­ar 2016 fóru fram í októ­ber eft­ir að for­sæt­is­ráðherra sagði af sér og sömu­leiðis 2017 eft­ir að rík­is­stjórn féll. Nú fyr­ir rétt­um mánuði voru kosn­ing­ar haldn­ar að hausti þrátt fyr­ir að rík­is­stjórn­in hefði setið heilt kjör­tíma­bil.

Ef við skoðum sög­una frá lýðveld­is­stofn­un hafa kosn­ing­ar verið haldn­ar áður að hausti eða vetri í þrígang, það er árin 1949, 1959 og 1979. Í öll­um þess­um til­vik­um ákváðu næstu rík­is­stjórn­ir að hverfa ekki frá hinu hefðbundna fyr­ir­komu­lagi. For­ystu­fólk þeirra tók á sig að sitja þrjú og hálft ár í stað fjög­urra til að halda í þá venju sem skap­ast hef­ur í ís­lensk­um stjórn­mál­um.

Þessi venja er ekki til­kom­in að ástæðulausu. Ein af ástæðunum er að fjár­lög hvers árs gilda út des­em­ber. Hafi ný fjár­lög ekki verið samþykkt fyr­ir þann tíma mun rík­is­stjórn skorta heim­ild­ir til að ráðstafa fé úr rík­is­sjóði. Við þurf­um ekki að fjöl­yrða um áhrif­in sem það hef­ur ef heil­brigðis­kerfið, mennta­kerfið og aðrar grunnstoðir fá ekki nauðsyn­leg­ar fjár­veit­ing­ar vegna þess að fjár­lög­um er ekki til að dreifa.

Þetta veit for­ystu­fólk stjórn­mála­flokk­anna mæta­vel. Í kjöl­far kosn­ing­anna 2016 og 2017 voru fjár­lög unn­in með miklu hraði sem leiddi til óvissu meðal fólks sem treyst­ir á grunnþjón­ustu hins op­in­bera og seinkaði nauðsyn­leg­um um­bót­um.

Katrín Jak­obs­dótt­ir sagði fyr­ir ný­af­staðnar kosn­ing­ar að hún teldi tím­ann frá sept­em­ber­lok­um og fram að jól­um duga til að standa að vandaðri fjár­laga­gerð. En nú hafa stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræður dreg­ist á lang­inn. Tím­inn sem við höf­um til stefnu hef­ur styst um þriðjung frá því sem sitj­andi for­sæt­is­ráðherra taldi duga. Tím­inn hef­ur náð því marki sem við vit­um að dug­ar tæp­ast, og samt sést ekki enn til lands í viðræðum flokk­anna. Hvað ger­ist þá?

Við þurf­um skýra sýn í efna­hags­stjórn lands­ins ef mark­miðið er að viðhalda hag­vexti eft­ir heims­far­ald­ur­inn. Við þurf­um stór­ar ákv­arðanir í lofts­lags­mál­um, heil­brigðismál­um og í stuðningi við ný­sköp­un. Við þurf­um mark­viss­ar aðgerðir í þágu hinna dreifðari byggða. Við þurf­um samn­inga milli Sjúkra­trygg­inga Íslands og sál­fræðinga til að fylgja eft­ir lög­um um niður­greiðslu sál­fræðiþjón­ustu. Og þetta þarf að rúm­ast inn­an þess ramma sem sett­ur hef­ur verið í fjár­mála­áætl­un.

Ný rík­is­stjórn mun ekki ráða vel við þetta stóra verk­efni ef hún hyggst vinna það með hama­gangi og lát­um á síðustu dög­um árs­ins. Staðan var hins veg­ar fyr­ir­séð um leið og til­kynnt var að kosningar yrðu haldn­ar að hausti en ekki vori. Og þurfti ekki óvænt­ar uppá­kom­ur til.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. október 2021