Skýr vilji kjósenda?

Þing­menn í und­ir­bún­ings­kjör­bréfa­nefnd Alþing­is fengu risa­stórt verk­efni í hend­urn­ar eft­ir alþing­is­kosn­ing­arn­ar 25. sept­em­ber; að meta áhrif ámæl­is­verðra vinnu­bragða yfir­kjör­stjórn­ar í Norðvest­ur­kjör­dæmi á gildi kjör­bréfa fjölda þing­manna víða um landið. Á morg­un er Alþingi ætlað að skera úr um niður­stöðuna.

Við upp­haf vinn­unn­ar lá fyr­ir sú bók­un lands­kjör­stjórn­ar að ekki hefði „borist staðfest­ing frá yfir­kjör­stjórn Norðvest­ur­kjör­dæm­is á að meðferð og varðveisla kjör­gagna á taln­ing­arstað í kjör­dæm­inu hafi verið full­nægj­andi“. Þannig vakti lands­kjör­stjórn at­hygli Alþing­is á því að vafi kynni að vera á því að kjör­gögn hefðu verið var­in með þeim hætti að treysta mætti að þau end­ur­spegluðu vilja kjós­enda.

Nefnd­in hef­ur lagt á sig mikla vinnu og af ástæðu. List­inn yfir það sem miður fór við taln­ingu og meðferð kjör­gagna í Norðvest­ur­kjör­dæmi er lang­ur og upp­taln­ing­in óþægi­leg svo ekki sé meira sagt. Al­var­leg­asti ann­mark­inn er auðvitað sá sem lýt­ur að vörslu kjör­gagn­anna á meðan yfir­kjör­stjórn gerði hlé á fundi sín­um. Eins má nefna að meðferð vafa­at­kvæða var ekki í sam­ræmi við lög og ekki hafa komið fram skýr­ing­ar á þeim til­færsl­um sem urðu á at­kvæðatöl­um sem höfðu svo áhrif á út­hlut­un þing­sæta í kjör­dæm­inu og út­hlut­un jöfn­un­arþing­sæta.

Hags­mun­ir hverra?

Mun Alþingi staðfesta end­urtaln­ing­una í Norðvest­ur­kjör­dæmi eða kalla eft­ir upp­kosn­ingu þar? Það er auðvitað rétt­mætt sjón­ar­mið að telja upp­kosn­ingu í einu kjör­dæmi ósann­gjarna í ljósi þess að kjós­end­ur þess kjör­dæm­is viti kosn­inga­úr­slit í öðrum kjör­dæm­um þegar þeir kjósa að nýju. Það er hins veg­ar ekki verk­efni Alþing­is að svara þeirri sann­girn­is­spurn­ingu held­ur að meta meðferð og varðveislu kjör­gagna í NV-kjör­dæmi. Var hún full­nægj­andi svo hægt sé að meta kjör­bréf þing­manna kjör­dæm­is­ins gild? Gátu þeir fjöl­mörgu og um margt illskilj­an­legu ann­mark­ar sem voru á fram­kvæmd kosn­inga í Norðvest­ur­kjör­dæmi haft áhrif á úr­slit kosn­ing­anna eða ekki? Lög kveða svo ein­fald­lega á um að ef kosn­ing í einu kjör­dæmi er met­in ógild þá skal fara fram upp­kosn­ing í því kjör­dæmi ein­göngu.

Í umræðunni um hags­muni þing­manna eða þing­flokka og hæfi þeirra til að tjá sig hef­ur aðal­atriði máls­ins stund­um gleymst. Við eig­um öll hags­muna að gæta, þeir hags­mun­ir eru hags­mun­ir kjós­enda og traust á kosn­ing­um. Ef ekki hef­ur tek­ist að staðfesta að at­kvæðaseðlar kjós­enda í Norðvest­ur­kjör­dæmi hafi verið tryggðir þarf vilji þeirra kjós­enda að koma fram með öðrum hætti. Það verður við þess­ar aðstæður gert með upp­kosn­ingu með öll­um þeim göll­um sem hún vissu­lega fel­ur í sér. Að leiða fram skýr­an vilja kjós­enda tromp­ar ein­fald­lega þá galla.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. nóvember 2021