03 des Á Reykjavík ráðherra?
Ríkisstjórnin leggur áherslu á samstarf við sveitarfélögin ef marka má nýjan stjórnarsáttmála. Mörg helstu verkefnin á að vinna í samstarfi við sveitarfélög. Með þeim á að tryggja loftslagsmarkmið, jafna tækifæri barna til að stunda tómstundastarf og vinna stefnu í þjónustu við eldra fólk svo fátt eitt sé talið.
Gott samfélag sinnir félagslegri þjónustu við þá sem á þurfa að halda: börn, unglinga, fatlað fólk, aldraða o.fl. Það gera Reykvíkingar og gott betur þar sem þeir draga líka vagninn fyrir nágranna sína í Garðabæ, Hafnarfirði, Kópavogi, Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi. Bein afleiðing er svo að Reykjavík er eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem innheimtir hámarksútsvar. Reykvíkingar axla sem sagt meiri ábyrgð á félagsþjónustu, þar með talið húsnæðismálum, og greiða fyrir vikið hærri skatta en íbúar nágrannasveitarfélaganna. Ætli ríkisstjórnin hafi áhuga á að gæta hagsmuna skattgreiðenda í Reykjavík og stuðla að góðu samfélagi í öllum sveitarfélögum?
Ríkisstjórnin ætlar í samstarfi við sveitarfélögin að taka fast utan um húsnæðismálin. Reykjavík er í sérflokki þegar kemur að uppbyggingu á húsnæði fyrir lágtekjuhópa en um 80% félagslegs húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu er í borginni. Ætlar ríkisstjórnin hér að gefa þeirri staðreynd gaum að reykvískir skattgreiðendur taka á sig nær tvöfalt stærri hluta af uppbyggingu félagslega íbúðakerfisins en hlutfall íbúanna segir til um?
Verður þetta forsvarsfólki ríkisstjórnarinnar ofarlega í huga þegar þau fara að huga að samstarfi við sveitarfélögin? Verk ríkisstjórnarinnar frá hennar fyrra lífi gefa því miður ekki góð fyrirheit. Í fersku minni er þegar stjórnvöld breyttu lögum um tekjustofna sveitarfélaga til að hægt væri að skerða framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til Reykjavíkur.
Staðan er því sú að Reykjavík greiðir langmest allra sveitarfélaga í jöfnunarsjóðinn í ljósi stærðar eða um þrjá milljarða króna árlega umfram það sem Reykvíkingar fá til baka. Mismunurinn fer í að jafna stöðu annarra sveitarfélaga. Þar að auki fellur svo kostnaður á Reykvíkinga fyrir að sinna félagslegri þjónustu og félagslegri húsnæðisuppbyggingu fyrir höfuðborgarsvæðið og jafnvel landið allt.
Það er vissulega margvíslegt hagræði sem næst með stærðinni. En meira að segja ríkisstjórn sem er ekkert sérstaklega hlynnt höfuðborginni ætti að sjá misréttið í því að viðbótarskattbyrði sé velt af íbúum nágrannasveitarfélaganna yfir á borgarbúa. Það verður áhugavert að sjá hvort skattgreiðendur í Reykjavík eigi sér talsmenn í ríkisstjórninni sem nú hefur hafið störf samkvæmt nýjum stjórnarsáttmála. Það áttu þeir nefnilega ekki í hennar fyrra lífi.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. desember 2021