Þorlákur og þjóðkirkja

Þorsteinn Pálsson

Messa heilags Þorláks að vetri markar lok jólaföstu. Lengst af á minni tíð var þessi dagur verslunarhátíð ársins. Nú hefur svartur fössari fyrir jólaföstu tekið við því hlutverki.

Um miðaftan á morgun gengur svo í garð stærsta andlega hátíð ársins. Hver nýtur hennar að sínum hætti.

Undarlegt sambland

Allir eru þessir dagar undarlegt sambland andlegra og veraldlegra verðmæta. Um leið eru þeir áminning um hversu slungið það er að vefa þessi verðmæti í einn vef svo vel fari.

Sumir fagna hækkandi sól. Aðrir fagna fæðingu frelsarans. Og svo eru þeir mörgu sem fagna hvoru tveggja. En einhverjir hafa þó ekki eða finna ekki tilefni til að gleðjast.

Við eigum þjóðkirkju, sem nýtur verndar samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins og ýmis minni trú- og lífsskoðunarfélög. Kirkjan er þó meira en bara trúfélag. Hún hefur líka í gegnum tíðina verið menningarleg kjölfesta.

Vald og kirkja

Í flóknu samfélagi nútímans þarf kirkjan að hafa meira fyrir hlutunum en áður þegar samfélagsvefurinn var einfaldari: Bændur, embættismenn erlends valds og klerkar kirkjunnar.

Kirkjan hefur löngum verið tengd valdinu. Við tókum við trúnni á Alþingi, en að baki var krafa erlends konungsvalds. Siðaskiptin fóru líka fram með valdboði. Loks fékk hún sess í stjórnarskrá.

Sagan kennir okkur hvernig vald getur spillt. Og það hefur gerst í sambúð ríkisvalds og kirkju hér eins og annars staðar. En þrátt fyrir það hefur sambúðin um flest verið farsæl.

Hitt er annað að sú sambúð þarf ekki að vera óbreytt um alla hluti og um alla eilífð.

Þróun í átt til sjálfstæðis

Margt í siðferðilegum boðskap kirkjunnar miðar að því að mannfólkið geti lifað í friði, sátt og samlyndi án valdboðs. Leikreglurnar verði hverjum og einum eiginlegar. Kannski er unnt að tala um einhvers konar sjálfsprottið jafnvægi milli frelsis og jöfnuðar.

Að þessu leyti eru hin nánu tengsl ríkis og kirkju ekki endilega rökrétt. Fyrir þremur áratugum tók kirkjan sjálf frumkvæði í því að losa um þessi tengsl. Hún hefur nú fengið sjálfstæði frá löggjafarvaldi og framkvæmdavaldi til að taka ákvarðanir um flest innri mál.

Þetta hefur verið skynsamleg þróun. Þjóðkirkja í nútíma skilningi er ekki ríkiskirkja. Hún er kirkja fólksins en ekki valdsins.Þingsetningarmessa er tákn um gamalt samspil kirkju og valds, sem enn er varðveitt. Þetta er ágætur siður en samt er íhugunarefni í þessu þróunarferli hvort slík táknmynd þjónar hagsmunum þjóðkirkju í framtíðinni.

Innri vandi

Þjóðkirkjan á við margvíslegan vanda að glíma. Trúarsannfæring er augljóslega ekki eins rík og áður. Innri styrkur kirkjunnar virðist einnig hafa dvínað.

Mönnum sýnist vitaskuld sitt hvað um þjóðkirkjuna og hafa ólíkar skoðanir á því hvort stjórnarskrárverndin eigi að standa lengur eða skemur.

En það breytir ekki hinu að ríflegur meirihluti þjóðarinnar er innan vébanda hennar og hún gegnir einhverju hlutverki í lífi flestra.

Alltaf til staðar

Þegar við metum veikleika og styrkleika kirkjunnar í samfélaginu er liðin tíð ekki góður mælikvarði. Miklu nær er að spyrja: Hvaða hlutverki hefur hún að gegna í flóknu samfélagi nútímans?

Hún getur ekki verið alltumlykjandi eins og áður fyrr. Hún ætti því ekki að reyna að setja sér slíkt markmið. Gamli tíminn kemur ekki aftur.

En það virðist vera þörf fyrir frjálslynda kirkju sem er alltaf til staðar. Alltaf til staðar í þeim skilningi að vera opin hvort sem menn leita til hennar oft eða bara sára sjaldan og án tillits til þess hvort trúræknin er mikil eða lítil.

Kirkjan þarf ekki að sýna fyrirferð í heimi auglýsinga. Hún á fyrst og fremst að vera til staðar með erindi sitt. Hún þarf á hverjum tíma að hafa sitt að segja, hafa boðskap.

Hún á ekki einkarétt á siðferðilegum kenningum en boðun þeirra á kannski meira erindi en nokkru sinni fyrr. Og í sögulegu samhengi á hún líka að rækta menningarlegt hlutverk sitt.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. desember 2021