Hvað eru tveir milljarðar milli vina?

„Ég treysti mér ekki til að setja tölu á bak við það en það er ljóst að með því að stofna nýtt ráðuneyti, fleiri en eitt, þá mun verða kostnaður og hann get­ur hlaupið á hundruðum millj­óna,“ sagði Bjarni Bene­dikts­son fjár­málaráðherra spurður á Alþingi um kostnað við að stofna tvö ný ráðuneyti og fjölga ráðherr­um í rík­is­stjórn. Síðar kom í ljós að nýju ráðuneyt­in munu kosta ríkið að lág­marki 1,8 millj­arða þetta kjör­tíma­bilið sam­kvæmt svör­um frá fjár­málaráðuneyt­inu sjálfu. Fjár­málaráðuneytið upp­lýsti þá jafn­framt um að nokk­ur óvissa væri og að kostnaður­inn gæti orðið nokkru hærri.

Fjöl­menn­asta rík­is­stjórn í Íslands­sög­unni

Við af­greiðslu fjár­laga í des­em­ber síðastliðnum var gert ráð fyr­ir að rík­is­sjóður verði rek­inn með tæp­lega 170 millj­arða halla þetta árið. Fram und­an er krefj­andi tími fyr­ir ríkið sem og al­menn­ing. Kom­andi kjara­samn­ing­ar í skugga verðbólgu og vaxta­hækk­ana. Í tengsl­um við verðbólgu og vaxta­hækk­an­ir tal­ar fjár­málaráðherra um að það þurfi að vanda sig í op­in­berri fjár­mála­gerð og áætlana­gerð til næstu ára. Hann hef­ur minnt á að laun og launa­kostnaður hafi í fyrra hækkað um sjö og hálft pró­sent. Engu að síður komst hann að þeirri niður­stöðu eft­ir átta vikna stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræður að skyn­sam­legt væri að fjölga ráðuneyt­um og auka hraust­lega við launa­kostnað við Stjórn­ar­ráðið en biðla kannski bara til annarra að vanda sig. Ákvörðun formanna rík­is­stjórn­ar­flokk­anna um að fjölga ráðuneyt­um virðist hafa verið tek­in án þess að fyr­ir lægi grein­ing á kostnaði. Svari við fyr­ir­spurn um kostnað við stækk­un Stjórn­ar­ráðsins var síðan ein­hverra hluta vegna dreift til þing­manna ör­fá­um klukku­stund­um eft­ir að at­kvæði voru greidd um málið. Það er spurn­ing hvort þess­ar töl­ur hefðu hreyft við þing­mönn­um rík­is­stjórn­ar­flokk­anna eða hvort ein­hug­ur sé á milli þeirra um þessa meðferð fjár­muna á tím­um þar sem skila­boðin eru að það þurfi að vanda sig sér­stak­lega í op­in­ber­um fjár­mál­um.

Hvers vegna voru ráðuneyti sam­einuð eft­ir hrun?

Rík­is­stjórn Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur er með þess­ari breyt­ingu orðin sú fjöl­menn­asta sem hef­ur verið við völd í meira en ára­tug. Ráðherr­arn­ir eru jafn marg­ir og þeir urðu flest­ir í Íslands­sög­unni sem var á ár­un­um 1999 til 2010. Ráðherr­um var svo fækkað í átta árið 2012 með sam­ein­ingu ráðuneyta. Hvers vegna var farið í að fækka ráðuneyt­um og stækka eft­ir hrun? Þar réð kostnaður vissu­lega miklu en ekki síður sú staðreynd að minni ráðuneyti voru ein­fald­lega veik­ari. Einn af lær­dóm­um hruns­ins var að ráðuneyt­in höfðu verið of veik til að standa und­ir mik­il­væg­um hlut­verk­um sín­um og verk­efn­um. Starfs­hóp­ur um viðbrögð stjórn­sýsl­unn­ar við rann­sókn­ar­skýrslu Alþing­is skilaði af sér skýrslu þar sem fram kom mat á þeim atriðum sem vörðuðu starfs­hætti Stjórn­ar­ráðsins og stjórn­sýsl­una sér­stak­lega. Meg­inniður­stöðurn­ar voru að hinn fag­legi grund­völl­ur stjórn­sýsl­unn­ar væri veik­ur, ekki bara vegna ómark­vissra póli­tískra inn­gripa í störf henn­ar held­ur ekki síður vegna smæðar ein­inga henn­ar. Niðurstaðan var skýr um að stærri ráðuneyti séu und­ir­staða í að styrkja hinn fag­lega grund­völl stjórn­sýsl­unn­ar. Það kallaði á átak í sam­ein­ingu ráðuneyta og stofn­ana. Nú, ára­tug síðar, vel­ur rík­is­stjórn­in sér að fara gegn þess­um niður­stöðum. Með ráðstöf­un sem fer skv. þessu gegn hags­mun­um Stjórn­ar­ráðsins og al­menn­ings í land­inu.

Stærri ráðuneyti styrkja starf þeirra

Að baki fjölg­un ráðuneyta býr auðvitað eng­in knýj­andi þörf. Eng­in önn­ur en að fjölga ráðherr­um svo valda­hlut­föll­in milli stjórn­ar­flokk­anna hald­ist. Millj­arðakap­all­inn er af­leiðing þess að Sjálf­stæðis­flokk­ur og Fram­sókn samþykktu að Vinstri græn héldu þrem­ur ráðherra­stól­um þrátt fyr­ir tölu­vert fylg­istap VG og gjaldið fyr­ir að lang­minnsti flokk­ur­inn í sam­starf­inu fái samt að leiða rík­is­stjórn­ina. Þá þurfti að jafna leik­inn með því að fjölga ráðherr­um. Hér þarf að segja hið aug­ljósa: Fyr­ir það borg­ar al­menn­ing­ur og fyr­ir­tæk­in í land­inu. Þá ligg­ur jafn­framt fyr­ir að inni í þess­um töl­um er ekki all­ur kostnaður. Ann­ar kostnaður verður t.d. þegar tals­verðar til­færsl­ur eru gerðar á starfs­mönn­um, en það rask hef­ur í för með sér kostnaðarsam­ar taf­ir. Nýtt Stjórn­ar­ráð tók ekki form­lega til starfa fyrr en 1. fe­brú­ar, en kosið var 25. sept­em­ber og rík­is­stjórn mynduð 28. nóv­em­ber.

Aft­ur og aft­ur sést að þrátt fyr­ir tal um ábyrg­an rík­is­rekst­ur þá er unnið eft­ir allt ann­arri hug­mynda­fræði. Rík­is­sjóður var enda orðinn ósjálf­bær fyr­ir efna­hags­hremm­ing­ar heims­far­ald­urs. Þegar all­ar aðstæður voru í lagi var staða rík­is­sjóðs langt frá því að vera í lagi. Og í því ljósi kem­ur kannski ekki á óvart að í stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræðunum hafi for­menn rík­is­stjórn­ar­flokk­anna sagt hver við ann­an: Hvað eru tveir millj­arðar á milli vina?

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. febrúar 2022