Mannleg vegferð inn í stafrænan heim

Mikil tækifæri felast í stafrænni vegferð atvinnulífs, ríkis og sveitarfélaga. Á sama tíma er hætta á að sveitarfélög sem sofna á verðinum dragist aftur úr.

Fram til þessa hefur meirihlutinn í Garðabæ ekki haft þor og kjark til að stíga þessi skref til fulls. Hraði tækniþróunar sem fylgt hefur fjórðu iðnbyltingunni er ógnvænlegur. Tæknin sem við þurfum er því tilbúin. Við í Viðreisn erum líka tilbúin að nýta hana en sökum íhaldssemi í bæjarmálum hefur lítið sem ekkert gerst í Garðabæ nema það sem hefur farið fram í miðlægu samstarfi sveitarfélaganna. Við í Viðreisn erum óendanlega þakklát fyrir það samstarf og hlökkum til áframhaldandi samvinnu og stuðnings milli sveitarfélaganna.

Ávinningur af stafrænni vegferð

Eitt af markmiðum Garðabæjar, samkvæmt þjónustustefnunni sem sett var árið 2016, er að bærinn sé í fararbroddi sveitarfélaga í þjónustu til íbúa og viðskiptavina. Til að geta uppfyllt þessi markmið verðum við að vakna og láta verk fylgja orðum – það skilar litlu að hafa falleg orð á blaði ef aðgerðir fylgja ekki eftir.

Við þurfum að sjá markvissar aðgerðir í stafrænni þróun því ávinningurinn er betri þjónusta við bæjarbúa og tímasparnaður fyrir okkur öll. Fjárfestingunni fylgir einnig kostnaðarhagræðing, meiri skilvirkni og aukið gagnsæi í stjórnsýslunni – svona fyrir utan hvað þetta hefur jákvæð áhrif á umhverfið okkar og ýtir almennt undir nýsköpun.

Mannleg vegferð

Við sem höfum unnið að stafrænni vegferð vitum að þetta snýst ekki um tæknina sjálfa heldur er þetta mannleg vegferð. Vegferð sem krefst aukins mannauðs með stafræna þekkingu eða færni.  Mannauðs sem býr yfir leiðtogafærni til að skapa stemningu fyrir stafrænum umbótum og styðja við starfsfólk og notendur á vegferð inn í nýja, einfaldari og hagkvæmari tíma.

Hér í Garðabæ eigum við langt í land. Við þurfum einfaldlega að gera betur og setja fókus, fjármuni og aukna starfskrafta í þessa vegferð. Það kostar jú til skamms tíma en sparar til lengri. Einungis 23 milljónir eru áætlaðar í þetta verkefni í ár. Rúmlega 10 milljónir af þeirri upphæð renna í sameiginlegt púkk hjá Sambandi Íslenskra sveitarfélaga! Við í Viðreisn viljum gera mikið betur því bæjarbúar eiga betra skilið til framtíðar.

Greinin birtist fyrst í Garðabæjarpóstinum 17. mars 2022