07 apr Hver ákvað þetta eiginlega!
Fyrir 4 árum gaf ég í fyrsta skipti kost á mér í sveitarstjórnarkosningum í Mosfellsbæ. Það má svo sannarlega segja að á kjörtímabilinu sé margt sem hefur komið mér á óvart.
Þrátt fyrir að vera löglærð og telja mig vita nokkurn veginn hvernig skipulagi sveitarstjórnamála væri háttað, þá hvarflaði ekki að mér að það væri jafnmikill lýðræðishalli í bænum okkar og raun ber vitni.
Heilmikill kostnaður
Lögum samkvæmt ber öllum sveitarfélögum að vera með nefndir sem eiga að bera ábyrgð á sínum málaflokkum. Skóla- og leikskólamál eru hjá fræðslunefnd, velferðarmál hjá fjölskyldunefnd og svo framvegis. Skipting nefndarsetu á milli framboða fer eftir sömu reglu og úthlutun sæta í bæjarstjórn í kosningunum. Þannig er tryggt að í nefndunum sitji bæði fólk frá þeim flokkum sem mynda meirihluta og þeim sem eru í minnihluta. Þetta á að tryggja að lýðræðisleg umræða fari fram inni í nefndunum sem eiga að taka ákvarðanir um málefni bæjarins.
Allt nefndarfólk fær svo greidd laun, formaðurinn að lágmarki tvöfalt meira en aðrir nefndarmenn. Kostnaðurinn við nefndirnar er fastur, hvort sem nefndirnar funda eða ekki, þannig að nefndarfólk fær föst laun auk greiðslu fyrir hvern fund. Í lýðræðis- og mannréttindanefnd var ekki haldinn fundur frá því í september 2019 þangað til í maí 2020 en nefndarmenn fengu engu að síður föstu launin greidd.
Auðvitað er það eðlilegt að fólk fái greiðslur fyrir störf sín en það er þá líka eðlileg krafa íbúa Mosfellsbæjar sem borga fyrir þessa vinnu að nefndirnar virki eins og þær eiga að gera.
Reykfylltu bakherbergin
En hvað er það þá sem ekki virkar. Dagskrá nefndanna er ákvörðuð af formönnum í samstarfi við starfsfólk bæjarins. Áður en rætt er um málefnin í nefndunum þá er búið að halda svokallaða meirihlutafundi. Það er á þessum fundum sem ákvarðanir eru teknar.
Á þessum fundum, þar sem fulltrúar meirihlutans hittast og kryfja málin, stundum með aðstoð starfsmanna, er niðurstaðan ákveðin. Þetta þýðir að þegar formlegir nefndarfundir eru haldnir, þá er hluti nefndarfólks þegar búið að ræða málin og jafnvel fá meiri upplýsingar en aðrir. Í þessu felst lýðræðishallinn.
Almannahagsmunir umfram sérhagsmuni
Auðvitað er það eðlilegt að meirihlutinn taki ákvarðanir en jafnræðisreglan er sú að allir fulltrúar eiga rétt á sömu upplýsingum. Þegar staðan er hins vegar sú að fulltrúar minnihluta geta ekki treyst því að hafa allar upplýsingar og þurfa að hafa frumkvæði að því að biðja um upplýsingar, jafnvel að giska á hvaða upplýsingum á að óska eftir, ólíkt fulltrúum meirihluta sem fá allar upplýsingar bornar á borð fyrir sig þá verður til lýðræðishalli.
Þetta fyrirkomulag býður upp á vantraust og að sérhagsmunir séu teknir fram yfir almannahagsmuni.
Ef að það er ekki vilji til þess að virða leikreglur lýðræðisins betur en þetta þá er það í raun mun heiðarlegra að hreinlega spara bæjarbúum kostnaðinn við nefndir bæjarins.
Við í Viðreisn teljum það mjög mikilvægt að lýðræðið sé virt. Það þýðir jafna þátttöku allra fulltrúa, bæði frá meirihluta og minnihluta. Það þýðir jafnan aðgang að upplýsingum og starfsmönnum. Það þýðir gagnsæi í allri ákvarðanatöku.
Þannig viljum við í Viðreisn vinna.
Lovísa Jónsdóttir