Lovísa Jónsdóttir

Lovísa Jónsdóttir er 46 ára hugverkalögfræðingur og varabæjarfulltrúi. Lovísa er með stúdentspróf frá Verzlunarskóla Íslands og útskrifaðist með meistarapróf í viðskiptalögfræði (cand.merc.jur) frá Álaborgarháskóla árið 2003. Frá þeim tíma hefur Lovísa starfað sem sérfræðingur á sviði vörumerkja og einkaleyfa en frá árinu 2018 tekið þátt í bæjarpólitíkinni í Mosfellsbæ. Á yfirstandandi kjörtímabili hefur Lovísa setið í fjölskyldunefnd, skipulagsnefnd og umhverfisnefnd ásamt því að taka sæti í bæjarstjórn og bæjarráði sem varafulltrúi. Lovísa er uppalin í Mosfellsbæ, var í Varmárskóla og síðan Gaggó Mos en Lovísa hefur stærstan hluta ævinnar búið í Mosfellsbæ og á þar stóra fjölskyldu og djúpar rætur. Lovísa er gift Ólafi Birni Guðmundssyni veitingamanni og saman eiga þau eina dóttur, Þóreyju Vigdísi 8 ára en fyrir á Lovísa tvo syni, Jón Róbert 25 ára og Aron Snæ 22 ára. “Það er margt sem þarf að huga að en það er skýr sýn okkar í Viðreisn að Mosfellsbær á að vera leiðandi í umhverfismálum og þjónustu við fatlað fólk, börn og eldri borgara þannig að allir fái notið sín í bænum. Skipulagsmál hafa verið og eru stór áskorun í ört vaxandi bæjarfélagi. Við leggjum áherslu á ábyrga fjármálastjórn og uppbyggingu kröftugs atvinnulífs. Eins viljum við einfalda íbúum lífið í bænum með því að bæta stafræna þjónustu bæjarins og tryggja gagnsæja stjórnsýslu. Við hlökkum til að takast á við þessi mikilvægu verkefni og leggja okkar af mörkum til að gera bæinn betri.”