Þjóðarhöll eða þjóðarskömm?

Það var sannarlega frábært að fylgjast með íslenska karlalandsliðinu í handbolta vinna sigur á Austurríki í gær. Sigurinn þýðir það að liðið er á leiðinni á enn eitt stórmótið í janúar og þar ætla menn sér stóra hluti, líkt og alltaf. En á sama tíma var það sorglegt að Guðmundur Þ. Guðmundsson landsliðsþjálfari, þyrfti að nýta augnablikið í sigurreifu viðtali eftir leik til þess að ávíta stjórnvöld fyrir aðstöðuleysi landsliðsins. Landsleikurinn var nefnilega spilaður á Ásvöllum hér í Hafnarfirði fyrir framan 1.500 manns, en ekki í nútímalegri og vel útbúinni Þjóðarhöll sem rúmar á bilinu 5-9.000 áhorfendur.

Þessi umræða er svo sannarlega ekki ný af nálinni, enda hefur Laugardalshöllin verið á undanþágu frá alþjóðasamböndum nánast jafn lengi og elstu menn muna. Nú þegar hefur körfuboltalandsliðið okkar þurft að spila „heimaleik“ á erlendri grundu og ef ekkert verður að gert, styttist í að handboltinn hljóti sömu örlög. Vandamálið snýr þó ekki eingöngu að A-landsliðunum okkar, því yngri landsliðin sem eru skipuð afreksfólki framtíðarinnar, þurfa líka á æfinga- og keppnisaðstöðu að halda. Í dag æfa liðin vítt og breitt í hinum ýmsu íþróttahúsum og þurfa ávallt að reiða sig á að þar sé að finna lausa tíma hjá íþróttafélögunum okkar, sem er að sjálfsögðu langt því frá að vera ákjósanleg staða.

Íþróttamálin eru nú á sínu fimmta ári hjá Framsóknarflokknum í ráðuneyti. Á þeim tíma hefur svo sannarlega ekki skort fögru orðin. Ráðherrar hafa sagt málið vera á réttri leið, starfshópar hafa komið og farið og pólitískir aðstoðarmenn átt í viðræðum. En hér erum við í dag. Í nákvæmlega sömu stöðu og við vorum árið 2017 þegar núverandi ríkisstjórn tók við í fyrra sinn. Þremur dögum fyrir síðustu kosningar skrifuðu þrír núverandi ráðherrar, þau Ásmundur Einar Daðason, Lilja D. Alfreðsdóttir og Willum Þór Þórsson, grein á Vísi þar sem öllu fögru var lofað. Hún bar titilinn „Þjóðarhöllin rísi“ og þar tjáði þríeykið okkur að nú lægi fyrir tillaga að byggingu Þjóðarhallar (sem mennta- og menningarmálaráðuneytið ætti heiðurinn að) og að: „Það blasir því við hver næstu skref eiga að vera; að hefjast handa við byggingu á nýrri þjóðarhöll sem uppfyllir alþjóðlegar kröfur.“ Síðan þá eru liðnir tæpir 7 mánuðir og eina breytingin sem hefur orðið á stöðunni er sú að Reykjavíkurborg er að gefast upp á aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar, því þar stendur ekki á fólki að vera klárt í að henda sér í verkið.

Ég veit það fyrir víst að framtíð íslenskra afreksíþrótta er björt, það sýna landsliðin okkar, yngri jafnt sem eldri, í hvert einasta sinn sem þau stíga fæti inn á keppnisvöllinn. En fyrir þessa þrjá ágætu ráðherra og ríkisstjórnina alla býður framtíðin upp á tvo afar skýra kosti: Þjóðarhöll eða þjóðarskömm.

Ykkar, kæru vinir, er valið.

Greinin birtist fyrst á Vísi 17. apríl 2022