Við vitum hvað þarf til

Við í Viðreisn höfum skýra sýn á hvers konar Reykjavík við viljum sjá. Fjölbreytta, nútímalega og lifandi borg, þar sem er gott að búa, starfa og heimsækja. Og við vitum hvað þarf til.

Á undanförnu kjörtímabili höfum við staðið fyrir metuppbyggingu íbúða og við ætlum að halda henni áfram. Við ætlum að skipuleggja lóðir fyrir 2.000 íbúðir á ári. Og viljum einfalda umgjörð byggingamála til að það geti gengið hratt fyrir sig að byggja. Við ætlum að halda áfram að þétta byggð, en líka reisa ný hverfi í Skerjafirði, á Ártúnshöfða, Keldum og í Vatnsmýri.

Við ætlum að byggja Borgarlínu, og við styðjum Sundabraut fyrir alla samgöngumáta.

Skólar sem efla börnin

Við viljum að það verði frítt í alla grunnskóla, óháð rekstrarformi. Við segjum að það eigi að auka faglegt frelsi kennara og skóla. Við teljum að fimm ára börn eigi að fá frítt í leikskóla. Undanfarin fjögur ár höfum við staðið fyrir stórum skrefum í átt að því að brúa bilið. Meðalaldur barna við innritun hefur farið úr 24 mánuðum í 19 og nú liggur fyrir áætlun um hvernig bilið verður brúað. En við teljum að sjálfstætt starfandi leikskólar séu þar lykilaðilar.

Við ætlum að halda áfram að tryggja ábyrga fjármálastjórn og gera hagræðingarkröfu á öll svið. Við viljum líka einfalda stjórnkerfið og fækka ráðum, nefndum og sviðum, sem er verkefni sem við hófum á þessu kjörtímabili. Við ætlum að halda áfram að lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði í 1,55%. Við erum flokkur sem trúir á einkaframtakið og viljum því auka einkarekstur í Reykjavík með útboðum og sölu eigna. Og nota söluhagnað til að greiða niður skuldir. Við munum líka vanda okkur við sölu á eignum og gera það vel og faglega. Slíkt þarf að vera vel undirbúið og ferlið þarf að einkennast af gegnsæi og skýrum leikreglum.

Við setjum almannahagsmuni framar sérhagsmunum, í þágu borgarbúa en ekki vildarvina.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 29. apríl 2022