Völd án áhrifa

Þorsteinn Pálsson

Viðbrögð almennings við bankasölumálinu minna um margt á Wintris-málið 2016, sem var þó miklu minna. Pólitísku varnarviðbrögðin eru hins vegar allt önnur nú en þá. Í Wintris-málinu skutu fáir þingmenn skildi fyrir forsætisráðherra. Hann lagði fjármálaeftirlitið ekki niður og baðst lausnar. Í bankasölumálinu enduróma þingmenn VG og Sjálfstæðismanna gagnrýni almennings en halda ráðherrunum þó í armslengdarfjarlægð frá allri ábyrgð. Ráðherrarnir leggja svo Bankasýsluna niður.

Viðskiptaráðherra er undantekningin frá þessari breiðu samstöðu um armslengd milli ákvarðana og ábyrgðar. Hún vill að pólitíkin axli ábyrgð á því sem úrskeiðis fór, lögum samkvæmt.Þessi sérstaka uppákoma kallar síðan fram þá mynd af Framsókn við ríkisstjórnarborðið að það vanti jafnaðarmerki milli valda og málefnalegra áhrifa hennar.

Dæmi 1

Í stjórnarsamstarfinu semja allir flokkarnir venju samkvæmt um hvernig ráðherrastólum er skipt. Aftur á móti eru það fyrst og fremst VG og Sjálfstæðismenn, sem semja um málefni. Málamiðlanir milli þeirra eru einnig óvenjulegar. Þær felast ekki í því að fara milliveg á einstökum málasviðum, heldur fær hvor flokkur að fara öllu sínu fram á sínum stólum.

Þetta á þó ekki alfarið við um mál sem þarfnast lagabreytinga. Þar gildir neitunarvaldsregla.

Þetta hentar Framsókn vel. Hún getur stutt mál lengst til vinstri og lengst til hægri á öllum sviðum. Áður fyrr náði hún yfir lengri tíma að vera að meðaltali á miðjunni með því að semja til skiptis um ríkisstjórn til vinstri og hægri. Í þessu samstarfi nær hún meðaltalinu jafnóðum.

Þannig blómstrar Framsókn í logni. En í mótvindi kemur málefnalegt áhrifaleysi í ljós.

Dæmi 2

Eftir að reiðin blossaði upp hjá almenningi með bankasöluna upplýsti viðskiptaráðherra að hún hefði í byrjun lagt til opið söluferli en talað gegn því lokaða ferli, sem samstarfsflokkarnir sameinuðust um. Jafnframt greindi hún frá því að hún hefði séð afleiðingarnar fyrir. Þessar upplýsingar vörðuðu almannahag.

Ráðherra braut því siðareglur ríkisstjórnarinnar með því að halda þeim leyndum fyrir Alþingi. En þessi ágreiningur varpar líka skýru ljósi á áhrifaleysi Framsóknar.

Varaformaður flokksins, sem tryggði framhaldslíf ríkisstjórnarinnar, leggst gegn lokaðri sölu í ráðherranefnd um efnahagsmál og í ríkisstjórn. Formenn samstarfsflokkanna, sem töpuðu, virða það sjónarmið að vettugi. Forsætisráðherra hefur ekki einu sinni fyrir því að skýra út hvers vegna hún studdi fremur tillögu fjármálaráðherra en ráð þess ráðherra, sem fer með samkeppnismál og neytendavernd.

Sjálfstæðismenn segja að viðskiptaráðherra einangrist fyrir að hafa kjaftað frá. Það komi í ljós með skertum fjárveitingum til hennar.

Dæmi 3, 4, 5 og 6

Eftir samkomulag um nýjan stjórnarsáttmála greindi viðskiptaráðherra frá því að nauðsynlegt væri að stórhækka veiðigjöld og sérstakan bankaskatt. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra blésu á þessar tillögur eins og þær væru rykagnir á nýfægðu borði ríkisstjórnarinnar. Formaður Framsóknar studdi varaformann sinn dyggilega.

En kersknisleglum spurningum um efndir svaraði hann þannig, að skilja mátti, að þrátt fyrir skýra stefnu hafi aldrei staðið til að semja um framgang hennar í þessu stjórnarsamstarfi.

Barnamálaráðherra til fimm ára sagði þjóðinni að hann væri fyrsti farsældarráðherra barna. Þegar árangurinn var mældur eftir kosningar kom í ljós að biðlistar barna eftir félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu höfðu lengst með hverju ári, sem hann hefur setið. Sami ráðherra hét tveimur þjóðarleikvöngum.

Landsliðsþjálfarinn í handbolta lýsti árangrinum í dymbilvikunni. Þannig fer stundum fyrir fagráðherrum, sem hafa lítil áhrif en lofa upp í ermina á fjármálaráðherrum.

Dæmi 7

Leiðtogi Framsóknar í borgarmálum segist sammála hugmyndum minnihlutans um skipulag byggingarlóða og almenningssamgöngur. Jafnframt segist hann fella sig vel við stefnu meirihlutans á þessum sviðum. Fyrir vikið geti Framsókn fyrirhafnarlaust myndað meirihluta með hvorri fylkingunni sem er.

Er ekki bara best að kjósa flokk sem vill allt?

Sá böggull fylgir skammrifi að Framsókn ætlar ekki að segja kjósendum fyrr en eftir kosningar hvor leiðin verður valin. Þeir eiga að kaupa köttinn í sekknum.

Helmingur kjósenda Framsóknar mun því engin málefnaleg áhrif hafa, gangi þetta eftir.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 21. apríl 2022