Hver á að móta framtíð unga fólksins?

Unga fólkið er framtíðin. Þetta orðtak er öllum kunnugt og engin furða er á því þar sem það inniheldur mikil sannindi. Framtíðin er fyrir unga fólkið. Ungmenni í dag eru vel upplýst, öflug og staðráðin í breytingum. Þau hafa getuna til að láta rödd sína heyrast en þeim vantar fleiri tækifæri til þess að koma skoðunum sínum á framfæri. Í barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna segir: „Börn eiga rétt á því að tjá sig frjálslega um öll málefni sem hafa áhrif á líf þeirra. Fullorðnir eiga að hlusta og taka mark á þeim.“  Þetta er einmitt það sem við viljum. Við viljum sjá unga fólkið stíga fram og segja sína skoðun. Við viljum að hér í Hafnarfirði líði þeim vel, upplifi sig örugg og heilbrigð. Að hér sé hlustað á skoðanir þeirra af sömu virðingu og skoðanir allra annarra.

Í Ungmennaráði Hafnarfjarðar sitja öflug ungmenni á aldrinum 13-18 ára með sterka réttlætiskennd, mikinn drifkraft og vilja til að gera Hafnarfjörð að betri bæ með bjarta framtíð. Þar sitja ungmenni fyrir hönd síns skóla eða fyrir hönd skóla lífsins. Þar er talað um öll helstu vandamál innan bæjarins og þar hafa þau tækifæri á að koma skoðunum sínum á framfæri til bæjarstjórnar, einu sinni á ári. Þá ræða þau á málefnalegan hátt um sín mál ásamt því að setja fram tillögur til úrbóta. Að okkar mati eru þetta ekki nægilegt tækifæri til að koma áherslum ungs fólks til skila.

Eins og staðan er dag situr einn fulltrúi frá Ungmennaráði eingöngu í íþrótta- og tómstundanefnd og þá sem áheyrnarfulltrúi. Þar hefur hann tækifæri á að vera talsmaður unga fólksins og bera fram hugmyndirnar sem Ungmennaráðið hefur tjáð sig um. Þessu viljum við breyta. Við viljum að fulltrúi frá Ungmennaráði sitji í öllum þeim nefndum og ráðum sem ræða og taka ákvarðanir um málefni sem snerta ungt fólk í Hafnarfirði. Með því erum við að stuðla að því að rödd ungmenna heyrist og að þau komi að mótun eigin framtíðar.

Betri framtíð – Meiri viðreisn

Greinin birtist fyrst í Fjarðarfréttum 11. maí 2022