Knatthús Hauka

Það er gleðiefni að knatthús Hauka sé loks komið í útboðsferli. Aðstaðan á Ásvöllum mun taka stakkaskiptum og gjörbylta hinu góða og faglega starfi sem unnið er hjá Haukum. Við í Viðreisn lögðum á það mikla áherslu að taka þátt í undirbúningsvinnu starfshóps um byggingu knatthússins.

Það er mikilvægt að halda því til haga að Viðreisn hefur frá upphafi stutt þessa uppbyggingu á Haukasvæðinu því hér er um gríðarlega mikilvæga fjárfestingu í innviðum og ekki síst fjárfestingu í hafnfirskri æsku. Með tilkomu Hamraneshverfis og uppbyggingarinnar í Áslandi 4 er ljóst að börnum muni fjölga mikið á svæðinu á næstu árum. Því er mikilvægt að hafa aðstöðuna góða.

Það er því þyngra en tárum taki að hlusta á málflutning oddvita Samfylkingarinnar sem hefur ýjað að því í viðtölum að hann vilji slá þessa framkvæmd út af borðinu og svíkja það samkomulag sem í gildi er. Við viljum því taka af öll tvímæli og segi það hér hátt og skýrt að Viðreisn vill sjá knatthúsið rísa á Ásvöllum og að orð skulu standa. Mér finnst Haukafólk eiga það skilið að talað sé skýrt í þessu máli.

 

Greinin birtist fyrst í Fjarðarfréttum 9. maí 2022