Sundabraut, alla leið

Sunda­braut, alla leið upp á Kjal­ar­nes, er verk­efni sem við í Viðreisn, þvert á sveit­ar­fé­lög, klár­lega styðjum. Um mik­il­vægi Sunda­braut­ar hef ég skrifað nokkr­ar grein­ar, hér í Morg­un­blaðið og í hverfa­blöðin, þetta kjör­tíma­bil. Þetta er því ekki kosn­ingalof­orð sem flaggað er rétt fyr­ir kosn­ing­ar í von um að slá ryki í augu ein­hverra kjós­enda.

 

Kenni­leiti til framtíðar

Við höf­um grein­ingu sem seg­ir okk­ur hversu hag­kvæmt það er að leggja Sunda­braut. Enn á ríkið eft­ir að taka ákvörðun um hvort þetta verði brú eða göng. Við mynd­um kjósa Sunda­braut sem styður alla sam­göngu­máta, og sjá­um fyr­ir okk­ur veg­lega brú sem gæti orðið eitt af helstu kenni­leit­um Reykja­vík­ur til framtíðar. Til að svo verði þarf að fara í hönn­un­ar­sam­keppni og velja brú sem virki­lega seg­ir okk­ur hvað slík mann­virki geta verið fal­leg.

Það er ríkið sem mun kosta og leggja Sunda­braut. En Reykja­vík­ur­borg þarf að koma að skipu­lagn­ingu og koma mál­um þannig að Sunda­braut trufli ekki óhóf­lega um­hverfi þeirra sem þegar búa við Sunda­braut. Þar þarf að huga að Vog­un­um, Grafar­vogi og ekki síst Kjal­ar­nesi, svo að brú hafi ekki nei­kvæð áhrif á upp­bygg­ing­ar­mögu­leika þar.

Sunda­braut vinn­ur með borg­ar­línu

Sunda­braut vinn­ur vel með borg­ar­línu. Þetta eru ekki and­stæður í sam­göngu­bót­um, þar sem við þurf­um að velja annaðhvort eða. Hér get­um við sagt: Við vilj­um bæði. Við vilj­um hágæða al­menn­ings­sam­göng­ur með borg­ar­línu. Og við vilj­um Sunda­braut sem, líkt og borg­ar­lína, vinn­ur vel með áform­um um þétt­ingu byggðar til að tryggja lif­andi og mann­væn­leg hverfi í öll­um borg­ar­hlut­um. Bæði Sunda­braut og borg­ar­lína tengja hverfi borg­ar­inn­ar bet­ur sam­an, hvor á sinn hátt, þannig að það verði auðveld­ara að ferðast á milli borg­ar­hverf­anna.

Með Sunda­braut tengj­ast Grafar­vog­ur og Kjal­ar­nesið bet­ur við miðborg­ina. Líkt og ég hef áður nefnt, þá styður Sunda­braut vel við þær breyt­ing­ar sem eru að verða á Ártúns­höfðanum og ná­grenni, þar sem allt að 8.000 íbúðir munu rísa. Það hverfi verður því nokkuð fjöl­menn­ara en t.d. Grafar­vog­ur er í dag.

Fær­um Esju­mela nær

En á Ártúns­höfðanum eru fyr­ir fyr­ir­tæki sem við vilj­um halda í Reykja­vík. Þar erum við að reisa ný at­vinnu­hverfi á Esju­mel­um og uppi á Hólms­heiði. Líkt og er í anda allra borga, þá fær­ast at­vinnu- og iðnaðar­hverfi út í jaðra borga þegar landsvæði hverf­anna verður verðmæt­ara og ódýr­ara er að vera með pláss­freka at­vinnu á ódýr­ari landsvæðum. Með Sunda­braut mynd­um við færa, ekki bara Kjal­ar­nesið, held­ur líka Esju­mel­ana nær borg­inni og gera það svæði mun meira aðlaðandi í sam­keppni við önn­ur sveit­ar­fé­lög.

Og höld­um áfram að lækka fast­eigna­skatta

Við mun­um svo enn frek­ar styðja við Reykja­vík sem at­vinnu­borg á kom­andi kjör­tíma­bili með því að halda áfram að lækka fast­eigna­skatta á at­vinnu­hús­næði niður í 1,55%.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. maí 2022