Þegar flugvöllurinn óvart bjargaði háskólanum

Pawel Bartoszek

Árið er 1940. Stríð geisar í Evr­ópu. Bretar her­taka land­ið. Hafin er leit að stað fyrir her­flug­völl nálægt Reykja­vík. Bessa­stað­ar­nesið verður fyrir val­inu. Þar er minni hætta á að íbúða­byggð verði fyrir loft­árásum og her­inn þarf ekki að flytja burt fjöl­mörg hús í Skerja­firði til að geta athafnað sig. Líkt og raunin hefði orðið ef Vatns­mýrin hefði orðið fyrir val­inu.

Stríð­inu lýk­ur. Her­flug­völl­ur­inn stendur áfram og gegnir hlut­verki mið­stöðvar inn­an­lands­flugs. Stór­huga þing­menn leggja kapp á að tengja Bessa­stað­ar­nes við Suð­ur­göt­una með helj­ar­innar brú. Það verður loks raunin í djúpu átt­unni. Akst­urs­tím­inn milli Alþingis og inn­an­lands­flug­vallar á Bessa­stöðum verður aðeins 8 mín­út­ur.

Vatns­mýrin bygg­ist smám saman upp. Skerja­fjörð­ur­inn stækkar og íbúðir flæða neðan úr Öskju­hlíð. Ráð­andi húsa­form eru þriggja hæða fjöl­býl­is­hús, klædd skelja­sandi. Eins og við þekkjum í Hlíð­unum og á Mel­un­um.

Í aðal­skipu­lagi er tekið frá pláss fyrir nýjar bygg­ingar fyrir Háskóla Ísland. En ráða­menn í Reykja­vík van­meta það hve mikið háskól­inn á eftir að stækka. Strax í kringum 1985 fer að bera á miklum þrengsl­um. Skól­inn þarf að leigja hús­næði út um all­ann bæ. Stór­huga mennta­mála­ráð­herra lofar að ganga í málið af metn­aði. Hafin er leit að nýrri stað­setn­ingu. Nið­ur­staðan er að háskól­inn fær úthlutað 150 hekt­ara land­svæði hjá Reyn­is­vatni.

Stjórn­endur skól­ans eru spennt­ir. Talað eru um háskóla 21. ald­ar­innar og allt kapp lagt á að opna hann árið 2000. Lögð er áhersla á að bíla­stæða­vand­inn verði úr sög­unni, og nóg pláss fyrir kenn­ara og nem­endur til að leggja. Ný hús rísa við Reyn­is­vatn. Gamla háskóla­bygg­ingin er tekin undir Stjórn­ar­ráðið og nálæg hús notuð sem skrif­stofur fyrir ýmis ráðu­neyti.

Kenn­arar og nem­endur eru sam­mála um að öll kennslu­að­staða á nýja staðnum sé til fyr­ir­mynd­ar. Óneit­an­lega er þó aðeins meiri deyfð yfir svæð­inu. Ein­ungis tvær strætó­leiðir ganga að háskóla­svæð­inu og eru þær lítið not­að­ar. Eftir að aðal­mötu­neytið lokar kl. 16 á dag­inn er lítið hægt að fá að borða. Engin búð er á svæð­inu, eng­inn bar og engin sund­laug. Utan prófa­tíma er fámennt um að líta flest kvöld.

***

Þótt þessi saga sé skáld­skapur hefði þetta vel getað farið svona. Það gerði það í mörgum öðrum borg­um. Á þann hátt getum við þakkað flug­vell­inum fyrir að passa upp á landið fyrir okkur og þannig óbeint að passa upp á háskól­ann sjálf­an. Við geymdum Vatns­mýr­ina meðan verstu skipu­lags­myndir sein­ustu aldar gengu yfir. Við höfum nú tæki­færi til að byggja upp nýtt háskóla­svæði í Vatns­mýri og tengja saman HÍ, HR og Land­spít­al­ann. Þetta tæki­færi er ein­stakt. Það er mik­il­vægt að nýta það vel.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 11. maí 2022