Þétt hverfi – góð hverfi

Það er gott að búa í Reykjavík og Viðreisn vill gera það enn betra. Sérstaklega viljum við gera það gott að búa í öllum hverfum borgarinnar. Að það sé auðvelt í öllum hverfum að fara í búð, í bakaríið, í bókasafnið og leikskólann. Þess vegna viljum við halda áfram að þétta byggð, þar sem því verður við komið.

Við viljum stækka hverfi til að nýta betur innviði. Þar horfum við á Skeifusvæðið, við Kringluna, á Úlfarsárdal og Kjalarnes.

Með þéttari byggð og góðum, fjölbreyttum samgöngum á milli hverfa getum við byggt upp sterkari hverfiskjarna með þessari nærþjónustu. Við höfum á þessu kjörtímabili tekið þátt í að gera upp hverfiskjarna í Breiðholtinu.

Við viljum líka gera Spöngina að sterkari hverfiskjarna fyrir Grafarvog, með aukinni verslun og þjónustu sem hvetur til meira mannlífs. Þar horfum við meðal annars til endurhönnunar á Garðatorgi, sem fært hefur líf í miðbæ Garðabæjar.

Miðstöð mannlífs í hvert bókasafn

Við viljum líka horfa til þess að styrkja mannlífið í hverfum. Við viljum skemmtilegar hverfahátíðir, til dæmis á 17. júní og með því að endurhugsa bókasöfn, til að þau geti þróast frekar í að verða menningar- og mannlífsmiðstöðvar. Við sjáum fyrir okkur fleiri bókasöfn, eins og í Grafarholti, þar sem opnunartíminn er langur. Bókasöfn þróist úr hljóðlátum húsum í staði þar sem fólk á öllum aldri getur komið saman en líka sótt sér bækur. Jafnvel fengið aðstoð við að leysa úr einfaldari málum í samskiptum við borgina og ríkið.

Reisum ný hverfi

Viðreisn vill líka reisa ný hverfi. Við viljum sjá ný hverfi rísa á Ártúnshöfða, í Skerjafirði, í Gufunesi, á Keldum og í Vatnsmýrinni. Reykjavík er í hröðum vexti og undanfarið kjörtímabil hafa um 10 þúsund nýir Reykvíkingar bæst í hópinn.

Til að Reykjavík geti haldið áfram að vaxa þurfum við að halda áfram metuppbyggingu undanfarinna ára og skipuleggja lóðir fyrir 2.000 íbúðir á ári.

Viðreisn hefur skýra sýn fyrir Reykjavík. Sýn um skemmtilegan borgarbrag fyrir okkur öll.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 11. maí 2022