Hvenær kemur tíminn fyrir leik- og grunnskóla bæjarins ?

Á síðustu árum hefur verið mikil uppsöfnun á viðhaldsþörf skólahúsnæðis og skólalóða Hafnarfjarðarbæjar. Mikið af þessari uppsöfnuðu viðhaldsþörf er tilkomin vegna skorts á áherslum. Samkvæmt minnisblaði frá starfsmönnum eignaumsýslu Hafnarfjarðarbæjar sem tekið var saman í lok árs 2021, þá er viðhaldsþörf fyrir skólalóðir Hafnarfjarðarbæjar um 130 milljónir króna. Inn í þessa upphæð vantar leikskólalóðir og viðhaldsþörf fyrir leik- og grunnskólahúsnæði bæjarins. Fulltrúi Viðreisnar í fræðsluráði veltir fyrir sér hvort þessi mikilvægu húsnæði og skólalóðir í hinu barnvæna samfélagi Hafnarfjarðarbæjar séu alltaf að gleymast? Ítrekað virðist vera til fjármagn þegar kemur að þörfum íþróttafélaga er varðar viðhald og endurnýjun mannvirkja. Þegar það þarf að endurnýja gervigras, parket eða annað í íþróttahúsum bæjarins þá er ávallt til peningur eða búið að taka frá pening vegna framkvæmdaáætlunar. Á meðan liggja skólalóðir og skólahúsnæði bæjarins undir skemmdum. Það er komin mikil þörf á almennilegri innspýtingu fjármagns inn í viðhald skólahúsnæðis bæjarins og skólalóða. Ástandið er svo slæmt á sumum stöðum að skólalóðirnar eru nánast hættulegar.

Þegar þessi umræða er tekin, þá er hún alltaf þögguð niður vegna þess það eigi ekki að bera sama epli og appelsínur að búið sé að eyrnamerkja ákveðið fjármagn í íþróttamannvirki til lengri tíma undir framkvæmdaáætlun ÍBH.

Á fundi bæjarráðs þann 1. júlí sl. samþykkti meirihlutinn að verða við óskum íþróttafélags í bænum um að fá nýtt og dýrara hybrid-gervigras. Áætlaður kostnaður við grasið er um 105 milljónir, það er um 55 milljónum króna dýrara en áætlað var í endurnýjun á gervigrasi hjá þessu tiltekna íþróttafélagi. En hvaðan komu þessar 55 milljónir króna? Sá peningur kom frá viðhaldi á þaki Setbergsskóla. Það reyndist óskaplega heppilegt fyrir hugmyndir um nýja og dýrari tegund af gervigrasi að ekki þurfi að nýta allt það fjármagn sem búið var að áætla vegna viðhalds á þaki Setbergsskóla. Ekki það að það sé búið að laga þakið. En hvað þá ? Hefðu 50 milljónir ekki getað gert mikið fyrir eins og eina skólalóð eða í viðhaldi á öðru skólahúsnæði bæjarins?

Hér sýnir sig vel hvar áherslur meirihlutans liggja.

Fulltrúi Viðreisnar í Fræðsluráði mun leggja mikla áherslu í komandi fjárhagsáætlunarvinnu bæjarins á almennilegri innspýtingu fjármagns fyrir viðhaldi á leik- og grunnskóla húsnæði og leik- og grunnskóla lóðir bæjarins.

Greinin birtist fyrst á Vísi 24. ágúst 2022