24 ágú Ruglandi
Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri SFS skrifar grein í Fréttablaðið síðasta fimmtudag.
Þar lýsir hún þeirri skoðun í nafni útgerðanna í landinu að þeim þyki sérkennilegt að fréttastofa Stöðvar 2 skuli kalla formann þess stjórnmálaflokks, sem mest fjallar um málefni sjávarútvegsins á Alþingi, í viðtal um málefni sem snerta greinina.
Í stað rökræðu eiga fréttamenn að skilja að háttsemi þeirra sé álitin sérkennileg ef þeir tala við stjórnmálamenn, sem bergmála ekki málflutning SFS. Hér eru sterkustu hagsmunasamtök landsins að beita óbeinum áhrifum til að loka fyrir frjálsa hugsun. Það er ógn við lýðræðið.
Síðan reynir framkvæmdastjórinn að halda því fram að tvískinnungur sé í þeirri stefnu Viðreisnar að selja 5 prósent aflahlutdeildar á frjálsum markaði og þrengja um leið möguleika stærstu sjávarútvegsfyrirtækja til að auka aflahlutdeild sína og fara yfir skilgreind mörk.
Tvískinnungurinn felst þvert á móti í afstöðu SFS. Þau segja að vernda verði litlu fyrirtækin með óhóflega lágu auðlindagjaldi en leggjast síðan alfarið gegn því að hindrað verði að stóru fyrirtækin geti sniðgengið reglur um hámarks aflahlutdeild og að skilgreiningar á tengdum aðilum verði þrengdar.
Jafnframt vilja þau að þorri sjávarútvegsfyrirtækja greiði óhóflega lágt gjald fyrir einkarétt sinn til að nýta auðlindina. Því annars sé jú örfáum lakast settu fyrirtækjunum hætta búin.
Þetta er það sem kallað er pilsfaldakapítalismi. Annars vegar er þetta dulbúinn ríkisstuðningur og hins vegar skálkaskjól til að afsaka að þorri atvinnugreinarinnar greiði eigendum auðlindarinnar, þjóðinni sjálfri, ekki réttlátt gjald fyrir einkaréttinn.
Viðreisn treystir útvegsmönnum best til að ákveða sjálfir eðlilegt verð fyrir einkaréttinn á frjálsum markaði.
Markaðsbúskapurinn tryggir framþróun og stöðuga endurnýjun því allir þurfa að keppa við þá sem bestum árangri ná. Í því felst þjóðhagsleg hagkvæmni.
Viðreisn styður þetta lögmál með skýrum og gegnsæjum leikreglum til þess að koma í veg fyrir að þeir sterkustu misnoti aðstöðu sína. En SFS eru bæði með og á móti markaðsbúskap.
Þessi skrif þeirra minna mig á það sem meistari Þórbergur kallaði ruglanda.