Vinnumarkaður í úlfakreppu

Þorsteinn Víglundsson, Alþingiskosningar 2021 Reykjavík norður Rn 22 sæti Viðreisn

Óveð­urs­skýin hrann­ast upp á vinnu­mark­aði þessa dag­ana. Þó svo kjara­við­ræður séu ekki hafnar eru strax komnar fram hót­anir um verk­fallsá­tök og kröfur um viða­miklar aðgerðir rík­is­stjórnar til að forða átök­um. Engu að síður er að baki eitt lengsta sam­fellda skeið kaup­mátt­ar­aukn­ingar frá full­veldi þjóð­ar­inn­ar. Kaup­máttur hefur auk­ist sam­fellt í rúman ára­tug og aldrei mælst hærri. Kaup­máttur lægstu launa hefur hækkað meira en kaup­máttur með­al­tekna og launa­stefna und­an­far­inna tveggja kjara­samn­inga­lota því náð fram að ganga. Hvernig má það vera að við slíkar aðstæður stefni enn eina ferð­ina í harðar kjara­deil­ur?

For­maður Efl­ing­ar, Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir, hefur í grein­ar­skrifum sínum á þessum miðli, Kjarn­an­um, ráð­ist að tveimur fyrrum for­setum ASÍ og ótal öðrum sam­herjum sínum í verka­lýðs­hreyf­ing­unni fyrir svik við kjara­bar­átt­una. Hún, ásamt for­manni VR og for­manni Verka­lýðs­fé­lags Akra­ness, séu boð­berar nýrra tíma í íslenskri verka­lýðs­bar­áttu. Allar til­raunir til umbóta í anda hinna Norð­ur­land­anna séu ekk­ert annað en svik við íslenskt launa­fólk.

Norð­ur­landa­meist­arar – í átaka­hefð og óstöð­ug­leika

Þegar horft er til síð­ustu ára­tuga eigum við Íslend­ingar óskorað Norð­ur­landa­met í launa­hækk­un­um. Á sama tíma eigum við líka Norð­ur­landa­met í verk­fallsá­tök­um, verð­bólgu og geng­isó­stöð­ug­leika. Við eigum enda­lausa hillu­metra af skýrslum frá sér­fræð­ing­um, inn­lendum sem erlend­um, í vinnu­mark­aðs­mál­um, sem ítrekað segja okkur að þessi Norð­ur­landa­met okkar séu nátengd. Launa­hækk­anir umfram efna­hags­legt svig­rúm leiði slíkan óstöð­ug­leika af sér. Til­raunir til umbóta, svo sem SALEK, hafa þrátt fyrir þetta mis­tek­ist og núver­andi for­ysta verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar hafnar raunar alfarið þessu orsaka­sam­hengi.

Af hverju gera hin Norð­ur­löndin ekki eins og við?

Hin Norð­ur­löndin eiga það sam­eig­in­legt að vera hálf­drætt­ingar á við okkur í launa­hækk­unum síð­ast­liðna þrjá ára­tugi. Þau eiga það reyndar líka sam­eig­in­legt að hafa búið við helm­ingi lægri verð­bólgu en við, umtals­vert lægri vexti og mun stöðugra gengi gjald­miðla sinna á sama tíma. Engu að síður hafa til­raunir til að taka upp nor­rænt vinnu­mark­aðslíkan hér á landi beðið skip­brot hér á landi. Ný for­ysta verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar telur nor­ræna lík­an­inu allt til for­áttu.

Þegar sá veru­leiki er skoð­aður mætti spyrja hvers vegna fjöl­miðlar sem stöðugt flytja fréttir af stríðs­yf­ir­lýs­ingum þeirrar sömu for­ystu spyrji aldrei hinnar ein­földu en aug­ljósu spurn­ing­ar. Af hverju gera hin Norð­ur­löndin ekki eins og við? Af hverju reyna þau ekki að slá okkur við í nafn­launa­hækk­un­um? Af hverju er þar ekki hert á verk­falls­að­gerðum að íslenskri fyr­ir­mynd? Af hverju er sam­ræmdri launa­stefnu og sátta­um­leit­unum ekki umsvifa­laust hafnað þar líkt og hér?

Þegar fífl­unum fjölgar…

Það er raunar athygl­is­vert að sjá það við­horf til íslenskrar verka­lýðs­bar­áttu sem fram kemur í greinum Sól­veigar Önnu. Tveir síð­ustu for­setar ASÍ eru að hennar mati ekki burð­ugir, enda upp­aldir í verka­lýðs­hreyf­ing­unni. Ekki aðkomu­fólk líkt og hin nýja for­ysta. Raunar virð­ist öll sú mikla reynsla og þekk­ing sem saman er komin innan Alþýðu­sam­bands­ins einskis virði ef marka má greinar henn­ar. Reynsla starfs­fólks hennar eig­ins stétt­ar­fé­lags hlaut sama dóm og í fyrsta sinn í sögu íslenskrar stétta­bar­áttu greip íslenskt stétt­ar­fé­lag til hóp­upp­sagnar á eigin starfs­fólki.

Stjórn­völdum virð­ist í engu treystandi held­ur. Vinna við Græn­bók um vinnu­mark­að­inn sem stýrt hefur verið úr for­sæt­is­ráðu­neyt­inu er litin horn­auga og þátt­taka ASÍ í þeirri vinnu talin svik við verka­lýðs­hreyf­ing­una. Sam­tökum atvinnu­rek­enda sé heldur ekki treystandi. Hall­dór Benja­mín Þor­bergs­son, fram­kvæmda­stjóri SA hafi inn­leitt „mikla óbils­girn­is- og harð­línu­stefnu þar sem öll heið­urs­manna­sam­komu­lög séu virt að vettug­i“. Nú höfum við Hall­dór Benja­mín oft á tíðum ólíkar skoð­anir í póli­tík en ég get ekki séð að stefna SA hafi tekið neinum stór­kost­legum breyt­ingum undir hans stjórn frá minni tíð þar eða for­vera míns, Vil­hjálms Egils­son­ar. Þegar fífl­unum fjölgar um of í kringum okkur er stundum gott að líta í speg­il.

Það þarf sam­komu­lag um vinnu­brögð

Ein megin ástæða þess að meiri óstöð­ug­leiki ríkir á íslenskum vinnu­mark­aði í sam­an­burði við hin Norð­ur­löndin er hin ein­falda stað­reynd að við höf­um, ólíkt Nor­egi, Sví­þjóð og Dan­mörku, aldrei náð sam­komu­lagi um þau vinnu­brögð sem við viljum að þar gildi. Aðilar vinnu­mark­aðar hafa þar samið um hinar almennu leik­regl­ur. Hvernig skuli samið. Hvernig er svig­rúm til launa­hækk­ana skil­greint. Mik­il­vægi þess að aðrir hópar vinnu­mark­aðar fylgi for­dæmi þeirra hópa sem fyrstir semja, svo koma megi í veg fyrir við­var­andi víxl­hækk­anir launa ein­stakra stétta eða höfr­unga­hlaup eins og það er gjarnan nefnt.

Í því sam­hengi má ekki gleyma því að leik­reglur á vinnu­mark­aði snú­ast ekki aðeins um hvernig svig­rúm til hækk­ana sé metið heldur ekki síður hvernig tryggt sé að allir hópar á vinnu­mark­aði fá notið þess til jafns. Ef höfr­unga­hlaupið er ráð­andi eru það á end­anum þær stéttir sem hafa sterk­ustu samn­ings­stöð­una sem standa uppi sem sig­ur­veg­ar­ar. Og það er vert að hafa í huga að það eru yfir­leitt þeir hópar sem lök­ust hafa kjörin sem eru fórn­ar­lömb óstöð­ug­leik­ans. Verð­bólga, geng­is­fell­ingar og hátt vaxt­ar­stig koma verst niður á þeim sem ekki eiga borð fyrir báru.

Nú þegar verð­bólgan er í hæstu hæðum er nauð­syn­legt að vinnu­mark­að­ur­inn slíðri sverðin og finni leiðir til lausnar á kom­andi kjara­samn­ingum sem ekki festi verð­bólg­una í sessi, líkt og gerð­ist á sjö­unda og átt­unda ára­tug síð­ustu ald­ar. Það kost­aði miklar fórnir af hálfu launa­fólks og atvinnu­lífs að vinna bug á þeirri verð­bólgu með Þjóð­ar­sátt­inni og fjöl­mörgum sárs­auka­fullum aðgerðum í kjöl­far henn­ar.

Það er því sorg­legt að sjá nýja for­ystu verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar gera hverja þá til­raun sem gerð er til umbóta á vinnu­mark­aði að sér­stöku skot­marki sínu. Orð­ræða minnir því miður mun meira á gamla tíma en nýja. Við þær aðstæður er ekki lík­legt að við látum Norð­ur­landa­meist­ara­titil i óstöð­ug­leika af hendi í bráð.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 19. ágúst 2022