24 okt Að eigna sér kvótann
Það er óumdeilt að kvótakerfið okkar hefur sannað gildi sitt þegar kemur að því að vernda fiskistofna Íslands gegn ofveiði og tryggja arðsemi sjávarútvegarins. Aftur á móti hefur mistekist að skapa sátt um greinina og umgjörð hennar. Það sést skýrast á þeim deilum sem hafa staðið um fyrirkomulag gjaldtöku fyrir nýtingarrétt af auðlindinni og hvort nýtingarrétturinn skuli vera tímabundinn eða varanlegur.
Viðreisn hefur lagt til lausn á þessum vanda – tillögu að sátt – sem snýst um að í stað veiðigjalda verði 5% heildaraflahlutdeildar í öllum stofnum boðin upp á hverju ári með nýtingarrétti til 20 ára í senn. Þannig er í einu lagi tryggt að markaðsgjald sé greitt fyrir aðgang að auðlindinni og að útgerðir geti á hverjum tímapunkti treyst á nýtingarrétt í 20 ár. Skýr tímabundinn afnotaréttur hámarkar þjóðhagslega hagkvæmni veiðanna auk þess að endurspegla með ótvíræðum hætti eignarrétt þjóðarinnar.
Viðskiptaráð Íslands skilaði umsögn um tillöguna þar sem hún endurflutti gamla orðræðu um að aflaheimildir njóti eignarréttarlegrar verndar og að hugtakið þjóðareign hafi ekki skýra lögfræðilega þýðingu. Hvort tveggja er rétt en skautar á sama tíma langt fram hjá meginefni málsins.
Árið 1990 var sett svohljóðandi ákvæði í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða: „Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“ Þetta voru fyrstu varanlegu lögin um kvótakerfið. Fram að því hafði kerfið verið sett á til bráðabirgða, sem framlengt hafði verið þrívegis með tímabundinni löggjöf. Handhafar aflaheimilda hafa því aldrei, á neinum tímapunkti, mátt ætla að þeir hefðu til umráða stjórnarskrárvarða hagsmuni til ótakmarkaðs tíma. Um þetta fjallaði meðal annars þáverandi dómarafulltrúi og núverandi umboðsmaður Alþingis, Skúli Magnússon, í grein sinni Um stjórnskipulega eignarréttarvernd aflaheimilda.
Þetta þýðir að á sama tíma og þjóðin upplifir að kvótinn sé varanlega gefinn útgerðum þá geta eigendur útgerðanna illa treyst því að fyrirkomulaginu verði ekki breytt fyrirvaralaust. Hvort tveggja er ósanngjarnt. Skýrar og vel afmarkaðar reglur eru mikilvægur grunnur að hagkvæmri nýtingu náttúruauðlinda og koma í veg fyrir sóun. Án þeirra er minni hvati til nauðsynlegra fjárfestinga og þróunar.
Tillaga Viðreisnar kemur á fyrirsjáanleika og stöðugleika í greininni, og tryggir jafnframt sanngjarnt og eðlilegt gjald fyrir auðlindina. Hún tryggir bæði þjóðinni og fiskveiðigeiranum að stjórnmálamenn munu ekki lengur hlutast til um nýtingarrétt eða veiðigjöld. Og hún tryggir í eitt skipti fyrir öll að þótt nýtingarrétturinn njóti verndar þá séu nytjastofnar á Íslandsmiðum sameign íslensku þjóðarinnar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. október 2022