Bið, endalaus bið

Fleiri hundruð Íslendinga bíða eftir valkvæðum aðgerðum á borð við liðskipti, efnaskipta- og augasteinsaðgerð. Þrátt fyrir orðalagið er erfitt að halda því fram við fólkið sem bíður aðgerðanna að nokkuð sé valkvætt við þær. Lífsgæði fólksins velta á því að það fái þessa þjónustu og biðin eykur bæði þjáningu og kostnað.

„Nú er hver dagur svo lengi að líða,“ söng Svala Björgvinsdóttir 11 ára gömul. Þótt biðin hennar hafi verið annars eðlis þá kemur lýsingin heim og saman við upplifun þeirra sem lengir eftir aðgerðum: „Það bara gerist ekki neitt.“

Fyrst þarf fólk að bíða eftir tíma hjá lækni fyrir greiningu. Að því loknu hefst raunverulega biðin sem er allt of löng. Svo dæmi sé nefnt er miðgildi biðtíma fjórum sinnum hærra á Íslandi en í Danmörku.

En þar kemur Evrópusamstarfið til hjálpar. Samkvæmt biðtímareglu EES á fólk rétt á að sækja sér heilbrigðisþjónustu í öðru EES-landi ef bið eftir nauðsynlegri meðferð er orðin lengri en 90 dagar. Þessi regla er sannkölluð lífsbjörg fyrir stóran hóp fólks. Gallinn er að ferðalagið er íþyngjandi fyrir manneskjuna sem bíður eftir aðgerð og kostnaðurinn er rúmlega tvöfalt meiri fyrir ríkið en við aðgerðir sem eru gerðar hér heima.

Þetta þarf ekki að vera svona. Við höfum bæði aðstöðuna og mannauðinn til að grynnka verulega á biðlistunum. Fyrirstaðan er að ríkisstjórnin hefur ekki heimilað samninga við sjálfstæða aðila um að framkvæma nákvæmlega sömu aðgerðir og fólk er látið sækja ytra, með tilheyrandi kostnaði, áhættu og óþægindum.

Þar stendur hnífurinn í kúnni. Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Vinstri-græn hafa ítrekað fellt tillögur okkar í Viðreisn í tengslum við fjárlögin um að koma til móts við þennan hóp. Þessir flokkar hafa heldur ekki veitt frumvarpi okkar brautargengi sem myndi tryggja að fólk sem á rétt á endurgreiðslu fyrir aðgerð erlendis myndi líka eiga rétt á endurgreiðslu fyrir aðgerðir hér á landi, að sömu skilyrðum uppfylltum.

Frumvarp Viðreisnar setur þarfir sjúklinga í forgang, styttir biðlista og sparar ríkissjóði óþarfa kostnað. Þetta snýst fyrst og fremst um greiðsluþátttöku stjórnvalda því á meðan ekkert er gert, og á meðan biðin styttist ei neitt, er sístækkandi hópur sem velur að borga fyrir aðgerðir úr eigin vasa. Neyðist jafnvel til þess. Það kallast í daglegu tali tvöfalt heilbrigðiskerfi – og þessi ríkisstjórn er komin vel á veg með að setja það á fót hér á landi. Það má ekki gerast.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. nóvember.