Borgaraleg pólitík í tómarúmi

Þorsteinn Pálsson

VG hélt flokksráðsfund í haust og Sjálfstæðisflokkur landsfund um liðna helgi.

Þögnin um stærstu málin, sem blasa við almenningi og atvinnulífi, var á báðum fundunum meira áberandi en það sem ályktað var.

Sú þögn sýnir hvernig frjálslynd, hófsöm og klassísk borgaraleg pólitík hefur gufað upp í stjórnarsamstarfinu og vinstri pólitíkin er föst í blindgötu.

Orkuöflunin

Fyrir liggur að tvöfalda þarf orkuöflun ef markmið stjórnarsáttmálans um græna iðnbyltingu og full orkuskipti á næstu sautján árum eiga að nást.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með orkumálin í níu ár án þess að setja fram tímasetta áætlun um orkuöflun.

Þetta er eitt af helstu viðfangsefnum þjóðarinnar á næstu árum. Hvorugur þessara tveggja höfuðflokka ríkisstjórnarinnar notaði þessa fundi með grasrótinni til þess að ræða og knýja á um skýra stefnu á þessu sviði.

Leiðtogar beggja flokka láta duga að segja þjóðinni að njóta þeirra ákvarðana um hitaveitur og stórvirkjanir sem teknar voru fyrir áratugum.

Þvingunarlögin

Sú ákvörðun ríkisstjórnarflokkanna að færa ábyrgð ríkissjóðs vegna ÍL-sjóðs yfir á lífeyrisþega og sparifjáreigendur minnir á þá aðferðarfræði við fjármálasnúninga á einkamarkaði, sem afhjúpaðist í hruninu og er enn fyrir dómstólum.

Um leið er ákvörðunin einhver mesta atlaga stjórnvalda að sparnaði sjálfstæðrar millistéttar í landinu frá því hann brann óverðtryggður upp í 80 prósent verðbólgu.

Ríkisstjórnin ætlar að afgreiða þvingunarlögin fyrir jól. Aðgerðin hefur því augljóslega verið lengi í undirbúningi. Samt var hún ekki kynnt fyrir flokksráði VG.

Hitt er þó enn eftirtektarverðara að þingflokkur sjálfstæðismanna óskaði ekki eftir stuðningi landsfundar við væntanleg þvingunarlög. Sennilega eru þau ekki nógu lystaukandi til að bera á borð í lýðræðisveislu.

Heilbrigðisáætlunin

Heilbrigðismálin hafa verið í uppnámi öll fimm árin, sem ríkisstjórnin hefur setið. Fyrir þremur árum náði hún þó samstöðu með stjórnarandstöðunni um heilbrigðisáætlun til 2030 og enn fremur um krabbameinsáætlun til sama tíma.

Þessi plögg eru hins vegar dauður bókstafur ofan í skúffu. Ástæðan er sú að hvorug áætlunin hefur verið tengd við fjármálaáætlun og hvorug þeirra hefur verið tímasett.

Hvorki VG né Sjálfstæðisflokkurinn sáu ástæðu til að ræða og álykta um mikilvægi þess að tengja þessar áætlanir við veruleika fjármálaáætlunar.

Skuldavandinn

Vaxtagjöld ríkissjóðs eru tvöfalt hærra hlutfall af þjóðarframleiðslu en hjá skuldugustu ríkjum Evrópu og fimmfalt hærri en á öðrum Norðurlöndum. Þetta er helsta ástæðan fyrir fjárhagsþrengingum heilbrigðiskerfisins.

Vaxtaálag á skuldabréf ríkissjóðs er verulega hærra en í Bretlandi. Það heitir jafnvægi hér en Bretar telja það til marks um að þeir séu á bjargbrúninni.

Orkuverðið hefur risið upp í himinhæðir í grannlöndunum meðan það er óbreytt hjá okkur. Samt er verðbólgan jafnhá hér.

Atvinnulífið gagnrýnir ríkisstjórnina fyrir að kynda undir verðbólgu með of litlu aðhaldi og að færa skuldavandann yfr á næstu ríkisstjórn.

Engar umræður fóru fram á fundum flokkanna tveggja um þennan grundvallarvanda í þjóðarbúskapnum, fyrir utan loforð fjármálaráðherra um umtalsverða skattalækkun án lækkunar útgjalda.

Samkeppnisvandinn

Í vor birti Viðskiptaráð vandaða alþjóðlega samanburðarkönnun svissnesks háskóla, sem sýndi að Ísland situr verulega fyrir neðan önnur Norðurlönd á listanum.

Þegar kemur að samkeppnishæfni í alþjóðaviðskiptum og erlendri fjárfestingu situr Ísland í botnsætunum. Þetta veikir þekkingariðnaðinn og stöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Enginn bjóst við að þessi alvarlega staða yrði rædd á flokksráðsfundi VG. En það kom verulega á óvart að landsfundur Sjálfstæðisflokksins lét eins og vandinn væri ekki til.

Sóknarfærin

Kjarni málsins er sá að stærstu óleystu grundvallarmál samfélagsins eru í kyrrstöðu á borði ríkisstjórnarinnar og þau eru ekki í alvöru sett á dagskrá þegar ráðherrarnir leita eftir málefnalegu umboði hjá grasrótinni.

Hlutleysi milli VG og Sjálfstæðisflokks hentar Framsókn vel.

Samfylkingin ákvað svo á ný­afstöðnum landsfundi að kjarna málflutning sinn um skattahækkanir til að leysa velferðarvandann og ganga þannig út úr þeirri blindgötu með vinstri pólitíkina, sem VG hefur fest hana í.

Tómarúm frjálslyndrar, hóf­samrar og klassískrar borgaralegrar pólitíkur við ríkisstjórnarborðið skapar aftur sóknarfæri fyrir Viðreisn á komandi landsfundi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. nóvember 2022