Laun og mönnun – Lars og Mette

Stjórnmálamenn koma og fara. Það gera formenn flokkanna líka, og jafnvel stórir hlutar grasrótar. Þannig breytast eða hverfa kosningamál og stjórnmálaáherslur
einstakra flokka.

Heilbrigðismál hafa þó löngum verið stórt kosningamál enda er það eitt stærsta verkefni stjórnvalda, hvar sem er, að tryggja fólki viðunandi heilbrigðisþjónustu. Þó að himinn og haf séu á milli þeirrar heilbrigðisþjónustu sem almenningur á Vesturlöndum nýtur samanborið við aðra heimshluta eru verkefnin þar ærin og verkefnalistinn lengist á sama tíma og baráttan um fjármagn verður erfiðari.

Kosningabaráttan í Danmörku, þar sem kosið var í gær, einkenndist eðlilega af ástandinu í orkumálum þjóðarinnar vegna stríðsins í Úkraínu. En heilbrigðismálin voru ekki langt undan. Lars Løkke Rasmussen, formaður Moderaterne, fyrrverandi formaður Venstre og forsætisráðherra, gegndi embætti heilbrigðisráðherra Danmerkur snemma á stjórnmálaferli sínum. Í kosningabaráttunni opnaði Lars Løkke á að stjórnvöld legðu sitt af mörkum við að mæta mönnunarvanda í heilbrigðiskerfinu. Það þyrfti einfaldlega að gera eitthvað í kjaramálum hjúkrunarfræðinga til að forðast hrun í heilbrigðiskerfinu.

Fyrstu viðbrögð annarra stjórnmálaleiðtoga voru ekki jákvæð enda er í Danmörku ekki hefð fyrir því að kjaramál opinberra starfsamanna séu rædd sem hluti af kosningabaráttu. Þegar leið að kosningadegi fór Mette Frederiksen, formaður Sósíaldemókrata og forsætisráðherra, þó að taka undir með Lars Løkke; laun heilbrigðisstarfsfólks gætu orðið hluti af lausninni. Nicolai Wammen fjármálaráðherra lagði í kjölfarið áherslu á að launakjör heilbrigðisstarfsfólks yrðu skoðuð, en þó með fullri virðingu fyrir hinni dönsku hefð. Kannski er hér kominn grunnur að nýju stjórnarsamstarfi?

Það er ekkert launungarmál að ein ástæða þess að hið opinbera hefur hér á landi lengi dregið fæturna í að lagfæra launakjör svokallaðra kvennastétta, þrátt fyrir nauðsyn og þrátt fyrir að Alþingi hafi þegar samþykkt tillögu Viðreisnar þess efnis, er sú að þetta eru almennt fjölmennar starfsstéttir. Það mun hafa kostnað í för með sér að leiðrétta kjörin. Þann kostnað þarf að bera saman við það sem það mun kosta samfélagið að tefja málið enn frekar. Hvað það mun kosta okkur að halda áfram á sömu óheillabraut með tilheyrandi brotthvarfi menntaðs fólks úr heilbrigðis- og menntakerfum okkar.

Það er lykilatriði að ná hér samstöðu allra helstu samtaka innan verkalýðshreyfingarinnar. Þetta er ekki einfalt viðfangsefni, enda væri vandinn líklega löngu leystur ef svo væri. En einfalda leiðin, að halda áfram að gera ekkert, skilar okkur verstu niðurstöðunni fyrir íslenska þjóð.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. nóvember 2022.