Ekki alltaf jólin

Flest erum við meðvituð um að heimilisbókhaldið myndi ekki þola að það væru alltaf jól. Einföld sannindi þar að baki eru að tekjur verða að duga fyrir útgjöldum. Þegar ríkisstjórnin birti fjárlagafrumvarp fyrir 2023 í haust hljóðaði bókhaldið upp á 89 milljarða mínus. Í desember var hallinn orðinn 119 milljarðar. Ríkisstjórnin gerir svo ráð fyrir halla samfleytt í níu ár, út árið 2027.

Umræða um fjárlög verður oft dauðanum leiðinlegri. Hún snýst samt um hvernig samfélag við viljum. Hvaða þjónustu viljum við fyrir fólkið í landinu? Hvernig á að standa að tekjuöflun? Grunnregla heimilisbókhaldsins gildir: tekjur verða almennt að duga fyrir útgjöldum. Auðvitað koma erfið tímabil en það gengur ekki til lengri tíma að eiga ekki fyrir útgjöldum. Stjórnmálamenn tala samt oft eins og að skuldir skipti engu máli. Allir sem reka heimili vita að það er auðvitað ekki í neinu samhengi við veruleikann.

Methagnaður var í sjávarútvegi í fyrra, um 65 milljarðar eftir skatta og gjöld. Veiðigjöld til ríkisins standa á sama tíma varla undir kostnaði af fiskveiðieftirliti. Orðið veiðigjald heyrðist aldrei þegar ríkisstjórnin talaði um tekjuöflun en byrðar heimilanna auknar með gjaldahækkunum á verðbólgutímum. (Og fjármálaráðherra setti glæsilegt Evrópumet í skattlagningu á bjór og varði um leið titilinn um dýrustu bjórkrúsina.)

Tekjuhlið fjárlaganna er þannig furðuleg pólitík. Það er útgjaldahliðin líka. Strax eftir kosningar var farið í að fjölga ráðuneytum og ráðherrastólum en lyfjakaup heilbrigðiskerfisins voru ekki nægilega fjármögnuð þegar fjárlagafrumvarpið var fyrst kynnt. Þá bárust líka fréttir af því að fangelsi væru svo illa fjármögnuð að ekki var hægt að boða dæmda menn í fangelsi. Ekkert annað OECD-ríki býr við eins há vaxtagjöld og Ísland. Það kostar að skulda, fyrir ríkið rétt eins og heimilin.

Fjárlög næsta árs einkennast af meiri lánum og meiri útgjöldum fyrir allskonar falleg verkefni en ekki endilega verkefnin sem eru nauðsynlegust. Dálítið eins og gjafalisti fyrir jólin. En hér verða það börnin sem borga reikninginn þegar hann birtist.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. desember 2022