Fjárlögin í ár hafa meiri þýðingu en oft áður

Fjárlög fyrir 2023 hafa meiri þýðingu en oft áður í ljósi verðbólgu, hárra vaxta og kjarasamninga. Viðreisn telur mikilvægt að fjárlög endurspegli þau verkefni sem mikilvægast er að bregðast
við strax. Verðbólgan er þar í aðalhlutverki. Ríkisfjármálin verða að styðja við markmið Seðlabankans um að hemja verðbólgu. Ef Seðlabankinn stendur einn með það verkefni munu vextir bara
halda áfram að hækka. Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarflokkanna gerir samt alltof lítið til að sporna við verðbólgu eða draga úr þenslu eins og sjá má af hörðum orðum seðlabankastjóra, sem hefur sagt ríkisstjórnina gera verk Seðlabankans erfiðara.

Tækifæri í hagræðingu

Viðreisn leggur til markvissar hagræðingaraðgerðir til að greiða niður skuldir á komandi ári. Mikil tækifæri felast í hagræðingu í ríkisrekstri. Stefnt yrði að því hagræða í ríkisrekstri fyrir þrjá milljarða, m.a. með því að draga til baka fjölgun ráðuneyta og ráðherrastóla frá upphafi kjörtímabils. Sá kostnaður var í milljörðum talinn og sú ákvörðun sætti nokkrum ólíkindum á
sama tíma og biðlað var til almennings um að sýna ábyrgð í fjármálum. Strax á næsta ári verði skuldir ríkisins lækkaðar um 20 milljarða. Það er einfaldlega óverjandi að reka eigi ríkissjóð með
halla samfleytt í næstum áratug. Hallarekstur ríkisstjórnarinnar hófst árið 2019, áður en heimsfaraldur skall á. Fyrir liggur að nú er stefnt að því að ríkissjóður verði rekinn með halla út árið 2027. Engu skiptir hvort aðstæður eru góðar eða erfiðar. Þetta er ríkisstjórn hallans. Vaxtagjöld eru nú þriðji stærsti fjárlagaliður ríkisins. Þessi ævintýralegi vaxtakostnaður veikir getu til að fjárfesta í grunnþjónustu. Þess vegna skiptir svo miklu að koma í veg fyrir að stór hluti útgjalda ríkisins fari í greiðslu vaxtagjalda. Við eigum að hafa metnað til að fjárfesta kröftugt í heilbrigðisþjónustu og annarri grunnþjónustu. Það er erfitt þegar kostnaður af vaxtagjöldum er einn af stærri útgjaldaliðum ríkisins. Þess vegna gengur ekki upp í fjárlagaumræðu að ræða aldrei um skuldir og kostnað af skuldum.

Sanngjarnt auðlindagjald og grænir skattar

Viðreisn hefur jafnframt lagt fram tillögur um tekjuöflun. Við leggjum fram breytingartillögu um að veiðigjöld verði hækkuð um sex milljarða. Viðreisn hefur ítrekað lagt fram tillögur um að veiðigjöld endurspegli markaðsvirði veiðiréttinda. Methagnaður hefur verið í sjávarútvegi en í fyrra nam hann um 65 milljörðum eftir skatta og gjöld. Markaðsvirði veiðiréttinda nú er um sex milljörðum hærri en núverandi veiðigjöld og hækkun samsvarandi.
Önnur tillaga til tekjuöflunar lýtur að því að við viljum nýta græna skatta og hvata til að takast á við loftslagsvandann. Öflugasta og skilvirkasta verkfæri stjórnvalda til að ná árangri þar eru hagrænir hvatar á borð við kolefnisgjald sem leggist á alla losun. Viðreisn leggur til að lögð verði kolefnisgjöld á stóriðju, sem hingað til hefur verið undanþegin slíkum gjöldum þrátt fyrir að
vera ein stærsta uppspretta gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Það myndi auka tekjur ríkissjóðs um 13,5 milljarða. Þá leggur Viðreisn til að Íslandsbanki verði seldur að fullu á komandi ári og aðferðin við sölu verði opin og gagnsæ. Söluandvirði verði varið til að greiða niður skuldir. Svo virðist sem fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um frekari sölu hafi siglt í strand.

Kröftug fjárfesting í heilbrigðiskerfi

Einn stærsti vandi heilbrigðiskerfisins er mönnunarvandi. Viðreisn vill bæta kjör kvennastétta í heilbrigðiskerfinu og að sex milljörðum verði aukalega varið til heilbrigðiskerfisins. Með því getum við betur unnið á löngum biðlistum og minnkað álag á starfsfólk. Tillögur okkar lúta að markvissri fjárfestingu í heilbrigðiskerfinu, sérstaklega með því að bæta þar hag kvennastétta. Fyrst og síðast finnur íslenskt heilbrigðiskerfi alvarlega fyrir því að framtíðarsýn stjórnvalda skortir. Plástrar hér og þar duga ekki til.

Stuðningur við barnafjölskyldur

Staða fjölskyldna og fyrstu kaupenda er víða erfið, fólks sem keypti þegar vextir voru sögulega lágir. Þungt högg vegna áhrifa af verðbólgu og gríðarlega hárra vaxta hérlendis gerir að verkum að hér þarf að bregðast við. Vextir á Íslandi hafa hækkað margfalt á við nágrannalöndin, sem þó glíma við svipaða verðbólgu. Ástæðan er íslenska krónan. Ekki er hægt að ætlast til að almenningar axli einn þær byrðar sem hljótast af gjaldmiðlinum. Tillögur Viðreisnar eru að stuðningur við barnafjölskyldur í formi vaxtabóta, húsnæðisbóta og barnabóta verði 7,5 milljarðar.

Fjárlög í þágu almannahagsmuna

Með þessum markvissu hagræðingartillögum og -aðgerðum er hægt að draga strax úr halla ríkissjóðs og lækka svimandi há vaxtagjöld. Með sanngjarnari gjaldtöku í sjávarútvegi og grænum sköttum verða til tekjur sem hafa þýðingu fyrir ríkissjóð. Þannig er hægt að fara í kröftugan stuðning við heilbrigðiskerfið sem og stuðning við þær fjölskyldur og einstaklinga sem hafa
tekið á sig þyngstar byrðar vaxtahækkana og verðbólgu undanfarið. Markmið fjárlaga á að vera að skila niðurstöðu í þágu almannahagsmuna – og skilja ekki eftir fyrir næstu kynslóð.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. desember 2022