Þess vegna þarf að hagræða

Pawel Bartoszek

Við höfðum öll áhyggjur af því að efnahagslegar afleiðingar Covid gætu orðið enn alvarlegri en þær heilsufarslegu. Þess vegna var reynt að halda efnahagslífinu gangandi þegar allt annað stoppaði. Hjá Reykjavík var kapp lagt á að halda fjárfestingum uppi. Það tókst. Í miðri krísunni tókst enda að klára stórar framkvæmdir í Breiðholti og Úlfarsárdal og met var slegið í byggingu nýrra íbúða.

Hjá borginni var lögð áhersla á að fólk héldi vinnu. Tilgangslaust hefði verið að fylla atvinnuleysisskrár á þessum tíma. Velferðarþjónusta hélt ótrauð áfram. Skólar voru opnir. Auknar sóttvarnakröfur kölluðu á meiri mannskap en ella. Sveitarfélög fengu þennan kostnað ekki bættan nema að litlu leyti.

Við í Viðreisn í Reykjavík erum stolt af því að hafa tekið þátt í að verja störf og fjárfestingar í miðri Covid-krísu. Það jók hallann, vissulega, en það var nauðsynlegt og skynsamlegt. Eins er nú nauðsynlegt og skynsamlegt að grípa í taumana í rekstri borgarinnar. Án þess munum við lenda í ógöngum síðar meir, og verðum verr í stakk búin til að bregðast við sambærilegum krísum í framtíðinni.

Þær hagræðingaraðgerðir sem Reykjavík ræðst nú í eru margvíslegar. Þær felast meðal annars í lokun Bókabílsins, útboði á matarþjónustu, lækkun á styrkjum, breyttum opnunartíma sundlauga á rauðum dögum og fækkun sumarliða á leikskólum. Bara breytingartillögurnar milli umræðna spara yfir milljarð.

Slíkar upphæðir er ekki hægt að spara án þess að það reyni einhvers staðar á. En heildarsamhengið er að það er ekki hægt að reka sveitarfélag með halla til lengri tíma, þótt það hafi verið nauðsynlegt í skamma stund í Covid. Nú þegar atvinnuleysi er undir 3% er ekki lengur þörf fyrir Reykjavík að beita sínu afli til að halda uppi atvinnustigi. Þess vegna þarf að hagræða. Reksturinn þarf að vera sjálfbær til framtíðar. Án þess getum við ekki tryggt góða þjónustu.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. desember 2022