Mark­vissa nálgun í heil­brigðis­kerfinu

Staða heilbrigðismála hefur verið í hálfgerðu uppnámi í mörg ár. Þetta er öfugsnúið að því leyti að breið samstaða er um að reka öfluga heilbrigðisþjónustu í landinu en ekki samstaða um hvernig.

Fyrir fjórum árum samþykkti Alþingi heilbrigðisáætlun til ársins 2030. Þingmenn Viðreisnar sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Fyrst og fremst vegna þess að okkur þótti ekki nægjanlega mikið tillit tekið til hugmynda okkar um eðlilegt samspil opinbera kerfisins, velferðasamtaka, sjálfstætt starfandi heilbrigðisstétta og stofnana.

Þessi áherslumunur breytir því ekki að um stefnuna og markmiðin var breið pólitísk samstaða á Alþingi. Út frá því verður að vinna.

Af hverju uppnám?

En hvers vegna er heilbrigðiskerfið þá í uppnámi? Skýringin er sú að pólitíski hluti áætlunargerðarinnar var skilinn eftir. Það er ekki nóg að setja fögur orð á blað, þeim þarf að fylgja eftir með gjörðum og fjármagni.

Í fyrsta lagi þarf að forgangsraða markmiðum og setja þau í tímasetta röð. Í öðru lagi þarf að tengja forgangsröðunina við fjármálaáætlun. Í þriðja lagi þarf að ákveða hversu stóra hlutdeild heilbrigðisþjónustan fái í heildarútgjöldum þjóðarbúsins. Og í fjórða lagi þarf að ákveða hvernig á að afla fjár til að stækka sneiðina.

Enginn vafi er á því að um þessi atriði er meiri ágreiningur en þau faglegu markmið sem þegar hafa verið samþykkt. Sérfræðingar heilbrigðisstéttanna kunna best að meta faglegu markmiðin. Hlustum á þá. En Alþingi verður sjálft að leysa pólitíska hluta verkefnisins. Meðan allir flokkar lofa að uppfylla öll markmið en án tímasettrar forgangsröðunar og ákvarðana um fjáröflun er hætt við að framkvæmdin sitji á hakanum og staðan einfaldlega versni.

Þurfum breiða samstöðu

Það er með þetta í huga sem ég hef í hyggju að leggja fram þingsályktunartillögu þar sem heilbrigðisráðherra yrði falið að hafa forystu um að ná sem breiðastri samstöðu milli þingflokka um þessi pólitísku viðfangsefni heilbrigðisáætlunarinnar.

Við í Viðreisn leggjum meiri áherslu á að skapa aukið svigrúm fyrir heilbrigðisþjónustuna með kerfisbreytingum en almennum skattahækkunum. Við teljum að samhliða því að taka þurfi á skipulagi innan heilbrigðiskerfisins þurfi það meira fjármagn.

Við höfum einnig bent á leiðir til að fjármagna kerfið, t.d. með því að lækka vaxtabyrði ríkissjóðs. Vaxtagjöldin eru þriðji stærsti útgjaldaliður ríkisins. Betur væri að hluti þess fjármagns færi inn í heilbrigðisþjónustuna. Einnig má vekja athygli á því að þessa dagana er Seðlabankinn að beita hluta af gjaldeyrisvaraforðanum, sem er að jafnaði um 850-1.000 milljarðar, til að verja íslensku krónuna. Skynsamara væri að nýta það fjármagn til eflingar heilbrigðisþjónustunnar og annarra innviða. En það gerist ekki án kerfisbreytinga. Viðreisn var líka eini flokkurinn á þingi sem greiddi atkvæði gegn aukinni lánsfjárheimild fyrir ríkið upp á tugi milljarða enda vitum við að slíkt mun bara koma niður á velferðinni síðar.

Eftir stendur að pólitíkin þarf að taka ákvarðanir um tímasetta og fjármagnaða heilbrigðisáætlun til 2030. Með væntanlegri þingsályktunartillögu okkar viljum hins vegar sýna að við erum fús til samtals og málamiðlana með markvissri og nýrri nálgun af þessu tagi.

Að hjakka áfram í sömu hjólförunum er ekki í boði. Hvorki fyrir heilbrigðisstarfsfólk né almenning í landinu.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 11. janúar