06 jan Óásættanlegt fyrir alla
Eftir að Króatía náði langþráðu markmiði sínu um áramótin og skipti út gjaldmiðli sínum fyrir evru eru þau orðin 20 Evrópulöndin sem nýta sér þennan næststærsta gjaldmiðil heims til hagsbóta fyrir ríkissjóð viðkomandi landa, fyrirtæki og heimili. Þá eru ótalin ríki utan Evrópusambandsins sem nota evru, ýmist með samningi við ESB eða einhliða.
Á evrusvæðinu búa um 344 milljón borgarar. Frá því að Evrópusambandið tók upp sameiginlegan gjaldmiðil hefur evrunni margoft verið spáð hrakförum og jafnvel andláti. Ekki kemur á óvart að spámennirnir hafa oftar en ekki verið úr röðum andstæðinga Evrópusambandsins og spádómarnir þá ekki síst verið til heimabrúks.
Raunveruleikinn er sá að notendur evrunnar eru ánægðir. Það sýna kannanir svo ekki verður um villst. Hugmyndin um sameiginlegan gjaldmiðil sem flestra Evrópulanda var vissulega djörf en á þeim ríflega 20 árum sem liðin eru hafa kostirnir verið umtalsvert meiri og afdrifaríkari en gallarnir. Og hefur þó gengið á ýmsu þessi ár þar sem fullkomið hrun á fjármálamörkuðum og stríð innan Evrópu ber auðvitað hæst.
Af hverju fær almenningur hér á Íslandi ekki að njóta þeirra kosta sem um 344 milljónir íbúa í nágrannalöndum okkar sækjast eftir? Það þarf óhemju stóran skammt af sjálfsblekkingu til að segjast tala fyrir hagsmunum heimila og fyrirtækja en hunsa um leið þann óviðunandi viðbótarvaxtakostnað sem íslenska krónan leiðir af sér um hver einustu mánaðamót. Svo vinnur það auðvitað beint gegn hagsmunum almennings þegar ríkissjóður þarf að greiða marga tugi milljarða króna á ári í þennan óþarfa viðbótarvaxtakostnað af skuldum sínum. Þetta dregur svo um munar úr getu stjórnvalda til að fjárfesta í og reka nauðsynlega innviði á borð við samgöngur og heilbrigðisþjónustu.
Við erum föst í aðstæðum þar sem vaxtakjörin sem standa okkur til boða jafnast á við vanskilavexti á evrusvæðinu. Heildarviðbótarkostnaður er á milli 200 og 300 milljarðar króna. Þetta er bara ekki ásættanlegt lengur. Ekki fyrir heimili. Ekki fyrir fyrirtæki. Ekki fyrir ríkissjóð.
Grein birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. janúar 2023