Ráða ekki við frelsið

Fyrst eru sett lög um að stjórnvöld skuli auglýsa opinberar stöður. Markmiðið er að tryggja faglegt og gegnsætt ráðningarferli og vinna gegn spillingu og frændhygli. Tryggja jafnræði og réttlæti með því að allir geti sóst eftir opinberum stöðum. Tryggja að ríkið hafi úr hópi hæfra umsækjenda að velja hverju sinni. Skapa traust um ferlið. Tryggja almannahagsmuni.

Svo koma undanþágurnar. Fyrst um að færa megi embættismenn á milli embætta án auglýsinga og svo að færa megi starfsmenn ráðuneyta á milli án auglýsinga. Árið 2015 er loks sú undanþága sett að það megi færa alla ríkisstarfsmenn á milli ráðuneyta án þess að það þurfi að auglýsa viðkomandi störf.

Þar með eru flestar leiðir orðnar færar fram hjá yfirlýstu markmiði um fagmennsku, gegnsæi, jafnræði og réttlæti. Og umferð ráðherra í átt að fortíð frændhygli og ógegnsæis þyngist aftur. Nú síðast þegar Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra skipaði nýjan forstjóra Sjúkratrygginga Íslands án auglýsingar. Fjölmiðlar hafa rifjað upp að aðeins eru nokkrir mánuðir síðan annar ráðherra Framsóknar, Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarráðherra, skipaði í embætti þjóðminjavarðar án auglýsingar. Og þrír ráðherrar, Guðlaugur Þór Þórðarson og Ámundur Einar Daðason
auk Lilju hafa tiltölulega nýlega skipað ráðuneytisstjóra án auglýsingar.

Ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en að nýr forstjóri Sjúkratrygginga Íslands sé hæfur. Ekki frekar en það ágæta fólk sem ráðherrar hafa undanfarið ráðið í opinberar stöður án auglýsinga. Ég hef hins vegar ekki neinar forsendur til að ætla að þau séu betur að starfinu komin en aðrir sem hefðu sótt um starfið, hefði það staðið til boða. Og það sem er öllu verra er að ráðherrarnir hafa sjálfir
engar forsendur til að ætla það. Það sjá allir.

Heilbrigðisráðherra ver ákvörðun sína um nýtingu undanþáguheimildarinnar með þeim orðum að nýráðinn forstjóri sé svo hæfur að það hefði verið óþarfi og tímasóun að auglýsa og endurnýtir þar með orðalag menningarmálaráðherra frá því fyrir hálfu ári. Í skák væri þetta líklega kallað Framsóknarvörn.

Það er auðvitað verulegt umhugsunarefni ef gegnsæi og fagmennska er orðið óþarfa tímafrekt vesen í augum ráðherra ríkisstjórnarinnar. Það hefur tekið ár og áratugi að viðurkenna að það felist ríkir almannahagsmunir í því að haga ráðningu í opinberar stöður á þann veg sem lög kveða nú á um. Undanþáguákvæðið gefur hins vegar stjórnvöldum frelsi til að bregðast við sérstökum aðstæðum sem geta vissulega komið upp. En úr því að ráðherrar ráða ekki við þetta frelsi og halda áfram að misbeita undanþáguákvæðinu, þá þarf einfaldlega að endurskoða málið.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. janúar 2023