09 jan Stórbrotin sjálfsblekking
Af hverju talar Viðreisn ekki meira um Evrópusambandið? Af hverju talar Viðreisn svona mikið um Evrópusambandið? Þetta eru tvær algengustu spurningarnar sem ég fæ frá fólki í tengslum
við starf mitt sem þingmaður. Báðar spurningarnar bjóða upp á mikilvægt tækifæri til að ræða það sem raunverulega skiptir fólk máli; að hér sé réttlátt samfélag þar sem einstaklingar, heimili og fyrirtæki njóta jafnræðis. Þar sem almannahagsmunir ganga alltaf framar sérhagsmunum.
Aðild Íslands að Evrópusambandinu er í ljósi reynslunnar besta leiðin til að ná þessum markmiðum. Bara það að hefja vegferðina væri risaskref í rétta átt og það er óskiljanlegt að hér skuli vera stjórnarmeirihluti gegn því að leyfa þjóðinni að greiða atkvæði um það skref.
Evrópusambandsaðild væri mikilvæg varða á þeirri leið okkar að tryggja efnahagslegt jafnvægi og gegnsæi í stjórnarháttum, það tvennt sem öðru fremur festir áherslu á almannahagsmuni í sessi og dregur úr líkum á vel heppnaðri sérhagsmunagæslu fyrir útvalda.
Talandi um efnahagslegt jafnvægi. Það hellast yfir okkur fréttir af bágri stöðu heilbrigðiskerfisins líkt og allt of mörg okkar hafa upplifað á eigin skinni. Stjórnvöld segja meira en nóg af fjármunum fara í kerfið, þeir séu bara illa nýttir. Stjórnarandstaðan segir að kerfið sé fjársvelt. Líklega er hið rétta einhvers staðar þarna á milli. Staðreyndin er hins vegar sú að dugleysi ríkisstjórnarinnar undanfarin ár hefur valdið slíkum skaða á heilbrigðiskerfinu að það er lífsnauðsynlegt að bæta úr til skemmri tíma með fjármunum. Á sama tíma þarf ríkisstjórn sem ræður við að setja skynsamlega stefnu og að innleiða hana skammlaust með lengri tíma markmið í huga.
Hvaðan eiga þá þessir nauðsynlegu fjármunir að koma? Við erum jú með ríkisstjórn sem á hverju ári slær fyrri útgjaldamet. Margfaldir Íslandsmeistarar í eyðslu. Og samt er þetta staðan. Má þá kannski tala um fílinn í stofunni; þá 50 milljarða plús sem ríkissjóður þarf að greiða á ári í viðbótarvaxtagjöld vegna íslensku krónunnar.
Samtals nema viðbótarkrónuvaxtagjöld sem heimili, fyrirtæki og ríkissjóður greiða tæplega 300 milljörðum króna á ári. Hér undir eru reyndar ekki öll fyrirtæki landsins, mörg þeirra stærstu fá með sérstöku leyfi stjórnvalda að vera undanskilin íslenska krónuhagkerfinu. Þau fá að flýja, við hin erum föst.
Það er stórbrotin sjálfsblekking að segjast tala fyrir hagsmunum heimila og fyrirtækja en hunsa um leið þennan viðbótarvaxtakostnað sem vinnur auðvitað beint gegn hagsmunum almennings. Er í alvöru einhver sem ekki myndi frekar vilja sjá þessa fjármuni renna til dæmis í heilbrigðiskerfið?
Greinin birtist fyrt í Morgunblaðinu 9. janúar