Allt í plati

Markmiðið með tollasamningi Evrópska efnahagssvæðisins var að auka samkeppni á íslenskum matvörumarkaði. Eins og alþekkt er leiðir einokun og fákeppni til minna vöruúrvals og hærra verðlags. Því er aukin samkeppni óneitanlega til góða fyrir neytendur. Á smáum markaði, eins og hinum íslenska, erum við sérstaklega viðkvæm fyrir þessu. Af þessum sökum lagði ég fram fyrirspurn til matvælaráðherra í kjölfar frétta um að innlendir framleiðendur væru að kaupa upp tollkvóta í stórum stíl. Og að þeir gerðu það meðal annars með það fyrir augum að koma í veg fyrir innflutning á ódýrari erlendum kjötvörum, þrýsta upp tollverðinu sem samkeppnisaðilar þeirra greiða og drepa niður samkeppnina.

Fyrirspurnin var einföld:

  1. Hversu miklu magni tollkvóta á matvörum frá öðrum löndum var úthlutað til framleiðenda á sömu eða sambærilegum vörum á tímabilinu frá janúar 2017 til dagsins í dag?
  2. Hvert var hlutfall nýtingar á þeim tollkvóta?

Svar frá ráðuneytinu barst síðan 23. janúar sl. og verð ég að viðurkenna að það kom mér á óvart. Öfugt við það sem greint hafði verið frá var ekki hægt að lesa út úr svarinu að íslenskir matvælaframleiðendur væru að kaupa upp tollkvóta í stórum stíl. Þeir keyptu jú eitthvað af tollkvóta en það gæti átt sínar eðlilegu skýringar, til dæmis að bregðast við skorti á innanlandsmarkaði.

Fljótlega barst þó greining frá aðilum sem þekkja þennan markað vel. Niðurstaða þeirra var að svar ráðuneytisins væri á engan hátt fullnægjandi og næði alls ekki utan um uppkaup á tollkvótum.

Samkvæmt sömu aðilum er veruleikinn sá að matvælaframleiðendur á Íslandi eru tengdir stórum innflutningsfyrirtækjum sem þeir nota m.a. til þess að kaupa tollkvóta fyrir sig. Því séu kaup íslenskra matvælaframleiðenda á tollkvóta mun meiri en fram kemur í svari ráðuneytisins.

Þessu til viðbótar kvaðst ráðuneytið ekki hafa upplýsingar með höndum um nýtingu tollkvóta. Með öðrum orðum hefur ráðuneytið ekkert eftirlit með því hvort tollkvóti sem keyptur er upp sé raunverulega nýttur til innflutnings á vörum.

Það hlýtur að vera eðlileg og réttmæt krafa að ráðuneytin svari þeim spurningum sem fyrir þau eru lögð á þann hátt að hægt sé að draga eðlilegar og skýrar ályktanir af þeim. Það hlýtur líka að vera krafa að stjórnvöld standi vörð um samkeppni á Íslandi og hagsmuni neytenda. Í þessu tilviki er það ekki raunin.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 28. febrúar 2023