Friður um fá­keppni

Um fjórðungur ís­lenskra lán­tak­enda hefur tekið á sig vaxta­hækkanir af fast­eigna­lánum af fullum þunga. Nokkur þúsund heimili losna auk þess undan föstum vöxtum á ó­verð­tryggðum lánum á þessu ári og eiga ekki von á öðru en að greiðslu­byrði þeirra muni þyngjast hraust­lega. Og fjöl­mörg heimili flýja núna aftur yfir í verð­tryggð lán til þess að milda höggið af vaxta­hækkunum.

Við þessar erfiðu að­stæður ættu heimilin að hafa á­huga á öllum til­lögum sem geta aukið sam­keppni milli banka og þannig bætt stöðu lán­tak­enda. Þannig ættu stjórn­völd alveg sér­stak­lega að vera vakandi fyrir því að tryggja virka sam­keppni og þannig hags­muni neyt­enda.

Þegar fjár­mála­ráð­herra svaraði því hvernig honum litist á mögu­legan sam­runa Ís­lands­banka og Kviku sagði hann að honum litist á­gæt­lega á sam­runann. Hann minntist sér­stak­lega á að honum litist vel á allt sem væri til þess fallið að bæta láns­kjör sem á að geta skilað sér líka til heimila og fyrir­tækja. Hann sagði þó um leið að á hinni vog­ar­­skál­inni er auð­vitað minni sam­­keppni, færri aðilar á markaði en bætti svo við að það væru tak­­mörk fyr­ir því hvað okk­ar sam­­fé­lag bæri marg­ar stór­ar fjár­­mála­­stofn­an­ir.

Ís­lenskur banka­markaður hefur samt því miður alltaf verið fá­keppnis­markaður. Þessi fá­keppni bitnar á heimilunum og fyrir­tækjum í landinu. Sam­keppnis­eftir­litið hefur gengið svo langt að lýsa stöðunni þannig að þrír stærstu bankarnir séu í sam­eigin­legri markaðs­ráðandi stöðu. Sú staða hefur ekki reynst sér­stak­lega hag­stæð fyrir al­menning. Hverjir eru það þá sem eru lík­legastir til að njóta á­bata af þeim sam­runa sem nú er verið að ræða? Það eru hlut­hafarnir.

Í því sam­bandi verður að taka með í reikninginn að ríkið á sjálft 42,5% hlut í Ís­lands­banka. Ís­lenska ríkið gæti þess vegna beitt neitunar­valdi á sam­runann á hlut­hafa­fundi. En þetta neitunar­vald er hins vegar í höndum Banka­sýslu ríkisins sem fjár­mála­ráð­herra boðaði með frétta­til­kynningu að hann ætlaði að leggja niður og inn­leiða eitt­hvert annað fyrir­komu­lag. Nýtt fyrir­komu­lag hefur enn ekki litið dagsins ljós en um­boðsvandi Banka­sýslunnar blasir því við.

Banka­sýslan hefur það verk­efni sam­kvæmt lögum að fara með at­kvæði ríkisins á hlut­hafa­fundum. Banka­sýslan hefur líka það hlut­verk að efla og styrkja sam­keppni á fjár­mála­markaði. Stofnunin þarf því að at­huga hvort það verð sem hlut­hafar Ís­lands­banka fái við sam­runa sé á­sættan­legt – en þar þarf ekki síður að meta nei­kvæð á­hrif á sam­keppni. Þarna vegast sem sagt á hags­munir um verð og sam­keppni. Hag­ræðing og sam­keppni. Al­menningur hefur meiri hags­muni af sam­keppni en hluta­bréfa­verði.

Orð fjár­mála­ráð­herra um á­gæti sam­runans benda til að hann hafi þegar gert upp hug sinn. Al­menningur finnur nú veru­lega fyrir hækkunum á mat­vöru, þungum á­hrifum verð­bólgu og hærri vöxtum. Þessi staða bitnar mest á ungum fjöl­skyldum.

Er mögu­legt við þessar að­stæður að fá­keppni sé tekin fram yfir virkari sam­keppni? Eða að hærra hluta­bréfa­verð trompi hags­muni heimila og fyrir­tækja af sam­keppni á banka­markaði? Er það raun­veru­leikinn sem við viljum búa fjöl­skyldum á Ís­landi?

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. febrúar