Gætum að höfðinu

Jón Steindór Valdimarsson Alþingiskosningar Reykjavík Norður RN 2 sæti Viðreisn

Ekkert fær stöðvað framrás tímans og framvindu flestra hluta. Það gildir um stórt og smátt, þar með stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna og sameiginlega hagsmuni okkar af því að íslenskt þjóðfélag vaxi og dafni. Ýta verður undir þá þætti sem bæta velsæld og hagsæld en draga úr þeim sem styðja við sérhagsmuni og sérgæsku á kostnað almannahagsmuna.

Alþjóðasamfélagið er flókið og hið sama gildir um íslenskt samfélag. Eðlilegt er að skoðanir séu skiptar og ágreiningur um leiðir og aðferðir. Sem betur fer búum við í þeim hluta heimsins þar sem einna best hefur tekist að skipuleggja þjóðfélög og samskipti þjóða á grundvelli laga, réttar og milliríkjasamninga.

Þrátt fyrir þetta höfum við of mörg óhugnanleg dæmi um að friðsöm samskipti, mannréttindi og lög og regla eru fljót að fjúka út í veður og vind ef þjóðir standa ekki saman og verja sameiginleg gildi, en láta í staðinn sverfa til stáls.

ESB snýst um framfarir

Það má heita óumdeilt að Evrópusambandið sé víðtækasta og nánasta samstarf fullvalda og sjálfstæðra ríkja sem til er í heiminum. Viðfangsefni ESB, sem 27 ríki hafa sameinast um, snerta flesta þætti í daglegu lífi fólks, beint og óbeint. Það gildir um viðskipti, mannréttindi, umhverfismál, kostnað við símtöl, rétt fólks til bóta verði tafir á flugi, rétt til starfa og menntunar, samkeppni og meira að segja skilvirkni heimilistækja, en af fjölmörgu er að taka.

Auðvitað takast aðildarríkin á um markmið og leiðir. Annað væri fullkomlega óeðlilegt. Ríkin hafa hins vegar ákveðið að vinna saman og sett sér ramma og leikreglur um samstarfið. Þess vegna hefur ávallt tekist að ná samkomulagi á endanum án gamaldags átaka á sviði viðskipta, svo ekki sé nú talað um stríðsátaka.

Það er líka fjarri lagi að Evrópusambandið sé fullkomið. Það eru engin mannanna verk. Ekki heldur þeirra 27 ríkja sem hafa kosið að vinna þar að sameiginlegum hagsmunum með hag eigin þegna að leiðarljósi. Þá virðist mér að við Íslendingar séum sammála um að hér sé ekki allt fullkomið.

Ísland utan vallar

Hingað til höfum við að mestu setið hjá og kosið að fylgjast einungis með þróun ESB og Evrópusamvinnunnar úr fjarlægð. Samt ekki alveg. EES-samingurinn, sem hefur verið í gildi frá 1994, hefur skuldbundið okkur til að hlýða því sem ESB ákveður.

Segja má að EES samningurinn hafi gjörbreytt íslensku samfélagi og fært inn í nútímann. Hann hefur fært okkur réttindi og framfarir sem flestir eru búnir að steingleyma að eigi rætur sínar að rekja til samvinnunnar innan ESB, en ekki til okkar eigin frumkvæðis eða hyggjuvits.

Ísland á að blanda sér í leikinn

Fyrir fullvalda og sjálfstæða þjóð eins og Ísland er ekki sæmandi að velja sér það hlutskipti að vera utan vallar. Löngu er tímabært að blanda sér í leikinn með þeim réttindum og skyldum sem í því felast.

Þrátt fyrir smæð okkar eigum við að leggja okkar lóð á vogarskálar til þess að efla og bæta Evrópusambandið og gera það að enn betra verkfæri til að auka hagsæld í álfunni.

Við eigum líka að gera það fyrir okkur sjálf. Við eigum að taka fullan þátt í að móta okkar eigin örlög og það regluverk sem við verðum að taka upp hvort eð er. Við eigum ekki að vera áhrifalausir áhorfendur.

Við eigum líka að opna dyr til að geta tekið upp evru í stað íslensku krónunnar. Það er ekki ásættanlegt fyrir íslenskan almenning og fyrirtæki að búa við gengissveiflur og vaxtastig sem er alltaf hærra en hjá næstu nágrönnum okkar.

Evran mun knýja fram nauðsynlegan aga í samfélaginu sem mun leiða til hagsældar og stöðugleika. Það er löngu fullreynt að við ráðum ekki við að stilla krónu og hagstjórn okkar þannig að stöðugleiki náist. Ekki er rétt að berja höfðinu lengur við þann stein.

Evrópuhreyfingin berst fyrir því að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um að taka upp að nýju aðildarviðræður við Evrópusambandið. Þegar samningur liggur fyrir verður svo önnur þjóðaratkvæðagreiðsla um staðfestingu hans.

Tímabært er að leiða fram þjóðarviljann.

Ef þú ert á sama máli skaltu ganga í okkar raðir og skrá þig á www.evropa.is.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 16. febrúar 2023