Heilbrigðiskerfið í raunheimum

Það er erfitt að skilja hvernig ríkisstjórn sem setur árlega nýtt met í útgjöldum ríkissjóðs getur átt svona erfitt með að mæta þörfum fólks fyrir heilbrigðisþjónustu. Þeir eru víða eldarnir. Vandi Landspítalans er öllum ljós, ekki síst bráðaþjónustunnar. Sorgleg staða í öldrunarmálum og geðheilbrigðismálum sömuleiðis og biðlistar eftir alls kyns heilbrigðisþjónustu eru orðnir eins og ormurinn langi. Hálfvolg viðleitni stjórnvalda til að mæta þessum áskorunum er farin að vekja ugg.

Í samfélagsumræðunni ber síðan minna á því sem brennur á fólki í dreifðari byggðum. Það á við um heilbrigðisþjónustu líkt og annað. Meginmarkmið byggðaáætlunar stjórnvalda 2018-2024 er meðal annars að jafna tækifæri allra landsmanna til grunnþjónustu. Heimsóknir og samtöl við forsvarsfólk heilbrigðisstofnana víða um land sýna svo ekki verður um villst að vandinn þar hefur frekar aukist. Og skilaboðin eru skýr: Það vantar fólk, fjármagn og húsnæði. Samskipti við kerfið taka of langan tíma, taka of mikla orku. Það vantar svigrúm til að bæta þjónustu, nýta tækni og bæta rekstur.

Það er verulegt áhyggjuefni hve oft sú þjónusta sem fyrir hendi er hvílir á of miklu vinnuframlagi of fárra sérfræðinga. En kerfið leyfir stjórnendum ekki að grípa til þeirra ráða sem þeir telja að geti virkað. Ráða sem geti að minnsta kosti bætt stöðuna.

Allir landsmenn eiga lögum samkvæmt að eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita. Heilbrigðisráðherra markar stefnu um heilbrigðisþjónustuna innan ramma laganna. Til þess að framfylgja stefnunni er honum heimilt að grípa til nauðsynlegra ráðstafana, m.a. varðandi skipulag þjónustunnar, forgangsröðun verkefna og aðgengi. Nú eru þessar
spurningar orðnar verulega aðkallandi: Hvað er heilbrigðisráðherra að gera? Hvernig er hann að nýta þessa heimild?

Það vantar ekki útskýringar og afsakanir. Hér varð Covid. Það er mönnunarvandi. Oft vond veður og ótryggar samgöngur. Það eru verkföll. Og svo framvegis. Alls konar sem truflar. En þetta er einfaldlega sá veruleiki sem fólk býr við. Veruleiki sem stjórnvöld eiga að vera að bregðast við. Ég er ekki í nokkrum vafa um að í sýndarveruleika heilbrigðisráðherra gæti verið fyrirmyndar  heilbrigðisþjónusta fyrir fólk um allt land. En ráðherrann er ekki kjörinn til að starfa í sýndarveruleika. Verkefnið sem hann hefur tekið að sér er að uppfylla lög um heilbrigðisþjónustu í
raunheimum. Heilbrigðiskerfið er fullt af fagfólki sem getur aðstoðað hann við verkefnið, bæði innan þéttbýlis og utan. Ráðherra getur líka sótt stuðning til Alþingis til góðra verka. Við þurfum einfaldlega að bretta upp ermar og ganga í verkið.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. febrúar 2023