Kvíðinn situr í beinunum

Guðbrandur Einarsson

Okkar „tráma“ kvíðinn situr í beinunum. Mín upplifun er þannig kvíði.“ Þessi orð mátti lesa sem viðbrögð við frétt Heimildarinnar um ræðu sem undirritaður hafði flutt á Alþingi vegna  hækkandi verðbólgu og neikvæðrar stöðu heimilanna. Þetta var skrifað af konu sem er greinilega að upplifa versnandi stöðu á eigin skinni.

Mig setti hljóðan við að lesa þetta en því miður trúi ég að þessi orð, tráma og kvíði, lýsi stöðu og upplifun afar margra. Hvað veldur? Af hverju er samfélagsgerðin okkar þannig að venjulegu fólki er gert ómögulegt að gera áætlanir fram í tímann? Það er hverjum manni nauðsynlegt að geta lifað í öryggi. Að geta boðið sér og sínum áhyggjulaust líf. Sá sem býr endalaust við áhyggjur af afkomu sinni getur ekki upplifað þetta öryggi. Þegar maður veltir fyrir sér hverju er um að kenna þá kemur fyrst upp í hugann orðið „óstöðugleiki“.

Líf á Íslandi getur því miður aldrei orðið annað en óstöðugt miðað við þær undirstöður sem því er ætlað að hvíla á.

Verðbólgubál

Ég upplifði það sem ungur maður að tapa minni fyrstu íbúð á 100% verðbólgubáli. Sem formaður stéttarfélags horfði ég síðan upp á það mörgum árum seinna að kaupmáttur launa félagsmanna okkar var helmingaður. Það gerðist vegna hruns krónunnar og það tók heilan áratug að ná þeim kaupmætti til baka. Sama dag og við fögnuðum samstöðu vinnandi fólks á 1. maí féll krónan um mörg prósent og þar með kaupmáttur launa vinnandi fólks. Það þurfti ekki meira til en að íslenskur banki fór að sanka að sér gjaldeyri til þess að geta greitt af erlendu láni og felldi með því krónuna.

Óstöðugleiki enn og aftur

Enn á ný erum við að upplifa þennan óstöðugleika með afdrifaríkum afleiðingum fyrir fjölda fólks. Vextir hækka, lánin hækka, matarkarfan hækkar og krónan er að gefa eftir eina ferðina enn. Ungt fólk getur ekki tekið lán vegna aukinna skilyrða við lántöku og leigjendur fá á sig miklar hækkanir líka.

Ekki fara til útlanda

Seðlabankastjóri lét hafa eftir sér nýverið að hann myndi ekki nota gjaldeyrisvarasjóðinn til þess að borga fyrir utanlandsferðir Íslendinga. En ég spyr hvað sé að samfélagi hvers undirstöður eru svo veikar að við getum ekki leyft okkar undalandsferð án þess að setja hér allt á hliðina.

Fyrir mér er þetta skýrt. Á meðan við ætlum að treysta á að undirstöðurnar séu „sveigjanlegur“ gjaldmiðil sem skoppar upp og niður eins og korktappi í ólgusjó þá verður þetta svona, og á meðan heldur fólk áfram að finna fyrir kvíðanum í beinunum.

Niðurstaða:

Íslenska krónan er ónýtt drasl.

Greinin birtist fyrst í Heimildinni 28. febrúar.