Sýndarmennska stjórnvalda

Það er ekkert nýtt að forsvarsfólk ríkisstofnana í fjárþröng grípi til þess að velja hagræðingaraðgerð sem setur allt á hvolf í samfélaginu. Fjölmiðlar fara á flug, samfélagsmiðlar skjálfa, stjórnarandstaðan á þingi brjálast og ef allt gengur upp þá brjálast stjórnarþingmenn og ráðherrar líka.

Tölum þá um meinta fyrirhugaða sölu á TF-SIF, sérhannaðri eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar sem gegnir veigamiklu öryggishlutverki. Auðvitað ætti ég að segja meinta fyrrverandi fyrirhugaða sölu, því planið gekk upp. Flugvélin verður auðvitað ekki seld og aðrar leiðir fundnar til að halda rekstri Landhelgisgæslunnar áfram með óbreyttu sniði, svo vitnað sé í orð Jóns Gunnarssonar
dómsmálaráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í vikunni.

Það sem gerir þetta mál sérstakt er að það er ekki forstöðumaður ríkisstofnunar sem þarna stígur fram heldur ráðherra málaflokksins. Ráðherra sem fyrir aðeins nokkrum vikum gekk frá fjárlögum þessa árs í samstarfi við samráðherra sína og stjórnarmeirihlutann á þingi þar sem sett var Íslandsmet í aukningu ríkisútgjalda á sama tíma og 119 milljarða króna halli er á rekstri ríkissjóðs. Hann setur nú þetta leikrit á svið til að fá aukið fjármagn í málaflokkinn. Það hefur enn sem komið er enginn stigið fram sem þykir forsvaranlegt að selja TF-SIF. Málið var enda illa undirbúið af ráðherra og bar þess merki að markmiðið hafi einfaldlega verið að ná í aukið fjármagn.

Það að ráðherra stígi nú fram með þessum hætti er einfaldlega vísbending um algjöra uppgjöf ríkisstjórnarinnar gagnvart sínu langmikilvægasta hlutverki; að sýna fjárhagslega ábyrgð, stöðva gegndarlausan vöxt ríkisútgjalda og skuldasöfnun og koma böndum á sligandi vaxtakostnað sem er orðinn þriðji stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs.

Á sama tíma og þetta er veruleiki ríkissjóðs búa íslenskir skattgreiðendur við þann veruleika að biðlistar í heilbrigðiskerfinu og eftir öldrunarþjónustu lengjast sem aldrei fyrr. Gríðarleg þörf er fyrir uppbyggingu í samgöngum og í menntakerfinu er kallað eftir fjárfestingu í langtímahugsun. Svo drepið sé á það helsta.

Ríkisstjórnin sýnir einstakan dug við að eyða peningum en skynsamleg forgangsröðun er ekki meðal hennar helstu kosta. Einn ráðherra virðist þó hafa kippt höfðinu upp úr sandinum. Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra ætlar að ná fram 650 milljóna hagræðingu á ári með sameiningu tíu stofnana ráðuneytisins í þrjár stofnanir. Þetta verður örugglega ekki létt verk. Það stendur hins vegar hvergi í starfslýsingu æðstu ráðamanna þjóðarinnar að starfið eigi að vera létt og það er einfaldlega ekki í lagi að senda reikninginn á skattgreiðendur framtíðarinnar af því að
ráðherrar nútímans treysta sér ekki í erfiðu verkin.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. febrúar 2023