Græni stígurinn

Pawel Bartoszek

Í upplandi byggðar á Höfuðborgarsvæðinu liggja mörg frábær útivistarsvæði, til dæmis: Heiðmörk, Hvaleyrarvatn, Guðmundarlundur, Vífilsstaðavatn, Úlfarsfell og Esjan. Allar þessar perlur mynda á landakorti eitt svæði sem nefnt hefur verið „Græni trefillinn“. En Græni trefillinn hefur hingað til fyrst og fremst verið skipulagslegt hugtak. Hann er til á korti en svæðin sem inn í hann falla eru ekki tengd saman í reynd.

Hugmyndin um Græna stiginn gengur út á að breyta þessu. Um yrði að ræða 40-50 km langan stíg sem næði frá Kaldárseli og Hvaleyrarvatni í Hafnarfirði í suðri og upp að Mógilsá við Esjurætur í norðri. Á leiðinni myndi stígurinn krækja í helstu útivistarsvæði í upplöndum sveitarfélaganna á Höfuðborgarsvæðinu.

Kostirnir yrðu margir. Með góðum stíg gætu fleiri notið útivistar- og skógræktar-svæðanna í upplandi byggðarinnar. Stígurinn skapar líka möguleika á hringleið: Það liggur þegar nokkuð samfelldur stígur meðfram strandlengjunni á Höfuðborgarsvæðinu. Græni stígurinn gæti myndað eystri hluta þess hrings. Þannig gæti fólk hjólað hátt í 100 km órofna leið í fallegri náttúru.

Þótt græni stígurinn hafi ratað í gildandi svæðisskipulag Höfuðborgarsvæðisins hefur hann ekki komist til framkvæmda enn sem komið er. Áhugi virðist hins vegar á því að vekja upp hugmyndinaum hann. Á morgun, föstudaginn 3. mars, verður haldinn fræðslufundur um Græna stiginn sem Skógræktarfélag Íslands og svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins standa að. Flutt verða mörg erindi um stiginn, innviðaráðherra flytur ávart og borgar- og bæjarstjórarasvæðisins hafa boðið komu sína í pallborðsumræður.

Þá hefur svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins ákveðið að ráðast vinnu til ákveða nákvæma legu stígsins. Afrakstur þeirrar vinnu verður vonandi hægt að kynna fyrir íbúum síðar á þessu ári, sem mun vonandi skapa góðar umræður í sveitarfélögunum á svæðinu. Græni stígurinn er spennandi hugmynd. Við eigum frábær útivistarsvæði í upplandinu og eigum að finna leiðir leiðir til að sem flestir geti notið þeirra.

Greinin birtist fyrst á Vísi 2. mars 2023