Tíðindalaust á Íslandi

Jón Steindór Valdimarsson Alþingiskosningar Reykjavík Norður RN 2 sæti Viðreisn

Endur­mat hags­muna er skylda stjórn­valda á hverjum tíma. Hags­munir geta breyst með hæg­fara þróun eða gerst í kjöl­far ó­væntra at­burða. Á­rásar­stríð Rússa er ó­væntur stór­at­burður sem kallar á endur­mat þar sem eru undir sam­eigin­leg gildi, vörn gegn upp­gangi hug­mynda­fræði sem byggir á valdi hins sterka, ein­ræðis­til­burðir, van­virðing mann­réttinda og frjáls­lyndra við­horfa í stóru sem smáu. Þá eru öryggis- og varnar­mál, orku­mál, um­hverfis­mál og greið við­skipti einnig stór þáttur í slíku endur­mati.

Breytt um kúrs

Í flestum ríkjum og stofnunum Evrópu, sem eru vestan við landa­mæri Rúss­lands, hefur inn­rás Rússa í Úkraínu leitt til mikillar um­ræðu og endur­skoðunar á við­horfum og stefnu. Nær­tækast er að benda á um­skiptin í Finn­landi og Sví­þjóð gagn­vart aðild sinni að NATO. Í þeim efnum var á­kveðið að ráðast í endur­mat og á grund­velli þess skipt um ára­tuga gamla stefnu og sótt um aðild.

Djúp­stæð á­hrif

Það blasir við öllum að inn­rás Rússa í Úkraínu mun hafa lang­varandi og djúp­stæð á­hrif á sam­vinnu og sam­starf Evrópu­ríkja. Þess vegna þarf að þétta raðirnar og gæta þess um leið að stjórnar­far, mann­réttindi, frelsi og öll sam­skipti innan Evrópu sjálfrar lúti þeim gildum sem við erum flest sam­mála. Evrópa, þar sem þunga­miðjan eru ESB-ríkin og náið sam­starf þeirra, þarf að styrkja inn­viði sína, huga sem aldrei fyrr að sjálf­bærni og sjálf­stæði sínu á öllum sviðum. Það er var­huga­vert að treysta um of á aðra, hvort sem er á sviði við­skipta, orku eða öryggis- og varnar­mála, nema það traust sé á bjargi reist.

Trausti vinurinn

Hér kemur líka til skoðunar hvort Evrópa leggi of mikið traust á Banda­ríkin sem ein­hvers konar bak­hjarl sem alltaf komi til skjalanna ef ógn steðjar að, einkum á sviði varnar- og öryggis­mála. Á liðnum árum hefur komið skýrt fram að ekki er alltaf víst að vald­hafar þar á bæ beri hag Evrópu fyrir brjósti og séu til­búnir til að leggja á sig fórnir hennar vegna. Þá er ó­víst að al­menningur í Banda­ríkjunum styðji heils­hugar það hlut­verk sem Banda­ríkin hafa leikið í öryggis- og varnar­málum allt frá síðari heims­styrj­öld.

Varð­staða um gildi

Ís­land á hér gríðar­lega mikilla hags­muna að gæta. Þá þarf að verja. Nær­tækasta leiðin, og sú sem blasir við sjónum, er að Ís­land gangi í Evrópu­sam­bandið. Þannig verjum við okkar hags­muni um leið og við göngum í lið með þeim sem standa þéttastan vörð um þau gildi og þjóð­fé­lags­skipan sem við að­hyllumst. Fyrir okkur er enn víð­tækara og öflugra sam­starf innan ESB besta leiðin sem er í boði til þess að stuðla að stöðug­leika, friði og frelsi í álfunni.

Ærin verk­efni

Endur­matið er ekki bara nauð­syn­legt vegna á­rásar­stríðs Rússa sem hefur svipt hulunni af ógn við frið og full­veldi þjóða. Fleira kemur til sem hefur af vaxandi þunga bæst á verk­efna­skrá Evrópu­þjóðanna og varðar við­fangs­efni sem verður að leysa í sam­einingu. Dæmi um þetta eru lofts­lags- og um­hverfis­mál, mál­efni inn­flytj­enda og flótta­manna, mat­væla- og orku­öryggi og mál­efni norður­slóða svo ein­hver séu nefnd.

Tíminn stendur í stað

Það veldur von­brigðum að ís­lensk stjórn­völd taka þessar breyttu að­stæður og þýðingu þeirra fyrir stöðu Ís­lands í al­þjóða­sam­fé­laginu af ein­kenni­legu fá­læti. Að því er virðist er að þeirra mati engin á­stæða til að skoða þessi mál af al­vöru, að minnsta kosti ekki þegar kemur að hugsan­legri aðild Ís­lands að Evrópu­sam­bandinu.

For­ystu­fólk flokkanna heldur sig fast við að hér þurfi ekkert að skoða og hafi ekki þurft um langa hríð. Þess er því ekki að vænta að stjórn­völd muni hafa nokkurt frum­kvæði í þessum efnum.

Haldið fyrir augu og eyru

Nú rís hins vegar bylgja al­mennings sem krefst þess að vera spurð um hvort taka eigi upp aðildar­við­ræður við ESB að nýju. Þjóðar­at­kvæða­greiðsla verði haldin um málið til þess að leiða fram þjóðar­viljann með skýrum hætti. Sömu­leiðis benda kannanir ein­dregið til þess að við­horfs­breyting sé að verða meðal al­mennings og að meiri­hluti sé að verða fyrir því að ganga í Evrópu­sam­bandið. Nú er spurning hvort stjórn­völd haldi upp­teknum hætti og haldi fyrir augu og eyru, sjái ekkert – heyri ekkert.

Tíma­bært að spyrja

Stað­reyndin er sú að þjóðin hefur aldrei verið spurð beint að því hvað hún vill í þessum efnum. Því vill Evrópu­hreyfingin breyta því það er ekki tíðinda­laust í Evrópu.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. mars 2023